Það var fyrir séð að prófkjör sjálfstæðismanna á NV-landi yrði sögulegt, ekki síst vegna þess að þar sátu fyrir á fleti fimm öflugir þingmenn, sem allir sóttust stíft eftir a.m.k. einu af þremur efstu sætunum, sem líklega verður að telja örugg þingsæti.
Það er almælt að allir þessir menn eigi erindi á hið háa Alþingi og þykir því illt að ekki er rúm fyrir þá alla eftir hinar nýju tiltektir á kjördæmaskipuninni, sem tókst eins óhönduglega, að naumast verður öllu lengra komist.
Eins og alþjóð veit bera menn brigður á að rétt hafi verið staðið að framkvæmd á kosningu utan kjörfundar og raunar vitað um mjög alvarlega ágalla svo ekki verður við unað.

Kjörnir trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins sáu um alla framkvæmd prófkjörsins svo sem lög flokksins mæla fyrir um. Hvorki frambjóðendur né heldur fulltrúar þeirra hafa þetta á sinni könnu. Þess vegna finnst mér fulllangt seilst, þegar Vilhjálmur Egilsson alþingismaður reynir að gera Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra ábyrgan fyrir því sem miður fór í framkvæmdinni á Akranesi og um borð í fiskiskipi í Grundarfjarðarhöfn og raunar víðar í hinu nýja kjördæmi. Þótt betra sé að veifa röngu tré en öngu, þá verður alþingismaðurinn að finna betri rök gegn því, að Sturla leiði listann í kjördæminu að vori. Hvort stórkostleg utankjörfundarkosning á Skagaströnd hafi gefið jafngóða raun vegna þess að efnt var til happdrættis og annars gleðskapar í Kántríbæ um leið og kosið var þar nyrðra, skiptir ekki öllu úr því sem komið er, því viðurkennt er að ýmislegt hefur farið úrskeiðis.

Athugasemd.  Árni M. Emilsson hafði samband við Morgunblaðið og taldi rétt og skylt að fram kæmi að hann hefði ekki haft aðrar heimildir en ummæli Ragnheiðar Ríkharðsdóttur bæjarstjóra Mosfellsbæjar, sem hún lét falla í sjónvarpinu um utankjörfundarkosningu á Skagaströnd. Því ættu þau EKKI við rök að styðjast. Ragnhildur Ríkharðsdóttir hafði áður beðist afskökunar á ummælum sínum í Morgunblaðinu. Athugasemd lýkur.

Það er ljóst að við þessar aðstæður er prófkjör handónýtt tæki, til þess að komast að niðurstöðu, sem sátt getur orðið um. Ástæðan er einfaldlega sú, að menn eru svo miklir „lokal patríotar“ að hver kýs sinn héraðsmann og eru með öllu ófærir um að lyfta sér í þær hæðir að flokkurinn njóti góðs af.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra er vinnuhestur, grandvar og heiðarlegur maður og hreint ekki þeirrar gerðar að hann sitji undir því að vera settur á bekk með þeim sem stunda óheiðarleg vinnubrögð. Í kosningum þarf hann síst á slíku að halda, enda hefur hann hefðina með sér að sigra.

Sá sem hér heldur á penna hefur þekkt Sturlu í áratugi og þekkir hann býsna vel. Hann hefur ýmsa fjöruna sopið og mætt miklum andbyr á stundum, eins og þeir geta reiknað með, sem fara með mikil völd. Hann hefur herst í mótlætinu og er reynslunni ríkari. Sturla er Snæfellingur í báðar ættir og hefur ræktað garðinn sinn þar vel. Þar þekkir hann hverja þúfu og fólkið, helst í marga ættliði. Það er engin tilviljun að í því mélinu er fylgi Sjálfstæðisflokksins sterkast á öllu landinu eins og tölur frá síðustu sveitarstjórnarkosningum staðfesta. Sturla hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn til afar sterkrar stöðu á Vesturlandi. Maður með slíkt bakland þarf ekki á því að halda að beita brögðum.