Sturla Böðvarsson flutti í dag ávarp við opnun sýningarinnar Perlan Vestfirðir sem stendur í Perlunni í Reykjavík nú um helgina. Á sýningunni eru kynnt vestfirsk fyrirtæki og stofnanir.
Við opnun sýningarinnar Perlan Vestfirðir |
Í ávarpinu sagði samgönguráðherra meðal annars að Vestfirðir hefðu alla tíð haft sérstöðu á ýmsum sviðum í þjóðlífinu og hefðu enn. Vestfirðingar hefðu lengi verið framsýnir í atvinnumálum og nýtt margvísleg tækifæri í samskiptum sínum við umheiminn.
Ávarpið er eftirfarandi:
Vestfirðir hafa alla tíð haft ákveðna sérstöðu á ýmsum sviðum í þjóðlífinu og hafa enn. Ef við lítum snöggt á söguna þá getum við rifjað upp að Vestfirðingar hafa jafnan verið framsýnir í atvinnumálum og oft verið fyrstir með nýjungar, ekki síst á sviði sjósóknar og fiskvinnslu og verið í fremstu röð á vettvangi stjórnmála með frelsishetjuna Jón Sigurðsson í broddi fylkingar. Vestfirðingar hafa einnig verið duglegir í samskiptum sínum við umheiminn á sviði verslunar og á sviði menningar hafa þeir ekki síður lagt sitt að mörkum, stundum sótt sér liðsstyrk út í heim eða í aðra landshluta, sem þeir síðan hafa leyft öðrum landsmönnum að njóta með sér.
Við getum nefnt nöfn svo sem Ásgeirsverslun, 3X-stál og Kaldalóns – en öll eiga þessi nöfn sína sögu í hugum Vestfirðinga – fyrr og síðar.
Margt hefur breyst á Vestfjörðum síðustu árin, eins og víðar á landinu, sem hefur haft áhrif á búsetu og atvinnumál Vestfirðinga. Bættar samgöngur leika þar stórt hlutverk og við sjáum fram á miklar breytingar næstu tvö árin.
Þótt sjósókn sé ennþá mikilvæg atvinnugrein hefur fleira komið til sem menn byggja afkomu sína á. Nægir þar að nefna störf sem fylgja auknum möguleikum á menntun í heimabyggð, störf tengd menningu og ýmis störf á sviði tækni sem unnt er að sinna hvar sem er á landinu með góðum nettengingum.
Ferðaþjónustan á Vestfjörðum er þó sú atvinnugrein sem hefur sérstaklega vaxið og dafnað. Sýna tölur að ferðalöngum á Vestfjörðum hefur fjölgað mjög á allra síðustu árum, mun meira en fjölgun þeirra er á landsvísu eða á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju skyldi það vera? Gæti ekki verið að æ fleiri hafi uppgötvað perluna Vestfirði? Gæti ekki verið að bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn hafi komið auga á að þangað er margt að sækja? Þetta hefur meðal annars gerst fyrir atbeina ferðaþjónustunnar og sveitarfélaganna í fjórðungnum sem hafa ötullega frætt okkur um að það er vissulega ástæða til að heimsækja Vestfirði. Ferðakynningar hafa verið haldnar hér syðra, íslenskir og erlendir fjölmiðlar hafa verið fræddir um náttúru Vestfjarða og fulltrúar fjórðungsins hafa tekið þátt í ferðasýningum og kaupstefnum erlendis. Allt þetta skilar sér, ekki endilega daginn eftir en kannski á næstu eða þarnæstu vertíð. Þess vegna er sýningin mikilvæg.
Við höfum margt að sækja til Vestfjarða. Til dæmis sem ferðalangar. Náttúra fjórðungsins er stórbrotin. Við getum gleymt okkur í friðlandinu á Hornströndum og látið okkur hverfa út úr skarkala farsíma og tölvu. Við getum reynt á eigin skrokki ánægju göngumannsins sem sigrar tind eða gengur þingmannaleið og við getum líka notið nútímaþæginda á gististöðum þar hvort sem er í þéttbýli eða sveit. Íbúar Vestfjarða geta notið þess að velja sér búsetu í mismunandi þéttum byggðum með kostum þeirra og göllum og hafa um fleira og fleira að velja.
Góðir gestir, þessi sýning er til marks um þann kraft sem býr í vestfirsku atvinnulífi og í ferðaþjónustunni á Vestfjörðum. Hún er til marks um hve íbúar Vestfjarða eru í raun samhentir og sammála um að nýta sér til fullnustu þá sérstöðu sem Vestfirðingar óneitanlega búa við.
Og til að ná sem bestum árangri í að kynna sig og sitt fyrir sem flestum landsmönnum eru Vestfirðingar hér í Perlunni, þessa fyrstu helgi maí mánaðar, ákveðnir í að ná árangri sem aldrei fyrr. Ein megináhersla þessarar sýningar er að Vestfirðingar komi fram með bjartsýni, framsýni, frumkvæði og skemmtun að leiðarljósi. Mér sýnist það hafa tekist – og það með miklum sóma. Það er augljóst að þeir sem hafa stýrt för í sveitarstjórnum og atvinnulífi á Vestfjörðum að undanförnu hafa náð árangri.
Ég óska Vestfirðingum til hamingju með þessa glæsilegu sýningu. Ég hvet landsmenn til þess að koma hingað og kynnast Vestfjörðum.