Sturla Böðvarsson heimsótti fyrirtækið Arctic Trucks í Reykjavík nýverið. Fyrirtækið er bæði sölu- og framleiðslufyrirtæki, það sérhæfir sig í þjónustu við jeppaeigendur með sölu á jeppum og fylgihlutum og annast breytingar og upphækkanir. Einnig býður Arctic Trucks uppá námskeið fyrir jeppaeigendur í meðferð jeppa og ferðamennsku.
Forráðamenn Arctic Trucks, þeir Emil Grímsson, Skúli K. Skúlason, Loftur Ágústsson, Hinrik Jóhannsson og Hjalti V. Hjaltason tóku á móti samgönguráðherra og fylgdarliði hans. Sögðu þeir frá starfseminni og svörðu spurningum. Auk sölu og framleiðslu fyrir innanlandsmarkað rekur Arctic Trucks fyrirtæki í Noregi sem sinnir jeppabreytingum og í athugun er frekari markaðssókn erlendis. Unnið er því að undirbúa opnun fyrirtækis í Riga í Lettlandi snemma á þessu ári sem myndi einnig sérhæfa sig í sölu jeppa og breytingum.