Sturla Böðvarsson heimsótti Latabæ í vikunni.

Flestir landsmenn þekkja Latabæ með hinn frækna íþróttaálf, Glanna glæp og Sollu stirðu í farabroddi. Færri þekkja hins vegar ensku útgáfuna af Latabæ, Lazy town.

Í myndveri Latabæjar í Garðabæ standa nú yfir tökur á 36 sjónvarpsþáttum um vinina í Lazy town. Það var sjónvarpsþáttastöðin Nickelodeon sem reið á vaðið með sýningu á þáttunum og er óhætt að segja að björtustu vonir manna þar á bæ hafi ræst þar sem þættirnir hafa slegið rækilega í gegn.

Athygli manna hefur ekki síður beinst að manninum sem stendur á bak við Lazy town, Magnúsi Scheving. Í kjölfar vinsælda þáttanna hefur Magnús komið fram í fjölda viðtala og sjónvarpsþátta þar sem hann hvetur krakka til að hreyfa sig og kynnir Ísland sem land hollustu og hreyfingar.









Magnús sýnir ráðherra þá miklu tækni sem fyrirtækið notar við vinnslu á þáttunum

Ráðherra ferðamála lék hugur á að kynnast manninum sem hefur svo rækilega kynnt Ísland að undanförnu. Sturla Böðvarsson hitti Magnús Scheving og hans samstarfsfólk í höfuðstöðvum Latabæjar nú í vikunni. Sturla kynnti sér starfsemina og fékk leiðsögn í gegnum þá ca. 5000 fermetra sem höfuðstöðvar Latabæjar spanna.

Gríðarlega miklu hefur verið til kostað til að koma Latabæ í þá stöðu sem hann er í nú. Magnús gekk lengi með hugmyndina í maganum en ein 10 ár eru síðan fyrsti vísirinn að Latabæ varð til. Í dag starfa 130 manns hjá Lazy town og veltir fyrirtækið meiru en íslenski kvikmyndaiðnaðurinn veltir í heildina sem nemur þó einum og hálfum milljarði króna á ári.











Sturla kann vel við sig á skrifstofa bæjarstjóra Latabæjar enda er hún ekki ósvipuð gömlu skrifstofunni hans þegar hann var bæjarstjóri í Stykkishólmi. 

Magnús hefur ekki setið auðum höndum síðan að samningur við Nickelodeon var í höfn og ætlar frumkvöðullinn sér víðar en til Bandaríkjanna með hugmyndina. Þess til marks þá náðust nýverið samningar um sýningarrétt í Kanada og einnig hefur RÚV keypt sýningarréttinn á þáttunum hér á landi.

Íslendingar sem starfa á erlendum mörkuðum af þvílíkum þrótti og Latibær gerir eru góð landkynning og er Latibær, og það sem hann stendur fyrir, mikilvægur fyrir ímynd Íslands.

Samgönguráðuneytið hefur ekki setið auðum höndum frekar en Latibær, en ráðuneytið hefur unnið ötullega að því að kynna landið og hefur lagt mikla fjármuni til verksins. Nærtækasta dæmið er landkynningarátak sem gengur undir heitinu Iceland Naturally, en um er að ræða samstarfsverkefni ráðuneytisins og nokkurra íslenskra fyrirtækja. Fyrirtækin sem eru í samstarfi við ráðuneytið undir merkjum Iceland Naturally eru Flugleiðir, Iceland Seafood, Bændasamtökin, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, Icelandic USA og 66° norður. Til verkefnisins hefur verið varið einni milljón dollara á ári. Framlag ráðuneytisins hefur numið 70% en á móti leggja samstarfsfyrirtækin til 30% fjárins.

Markmið samstarfsins er að bæta og styrkja ímynd Íslands í Norður-Ameríku og auka áhuga á íslenskri ferðaþjónustu og íslenskum vöru. Til að ná markmiði sýnu hefur stjórn verkefnisins staðið fyrir auglýsingum, skipulagðri fjölmiðlaherferð, viðburðum og kynningum í einstökum borgum sem og kynningu á einstökum fyrirtækjum í verslunum og á veitingahúsum.

Við upphaf verkefnisins var gerð ítarleg rannsókn á stöðu og möguleikum Íslands á bandarískum markaði og kom í ljós að 89% þekktu engar vörur frá Íslandi og ímyndin var að miklu leyti tengd ís og snjó.
Reglubundnar markaðsrannsóknir hafa síðan verið gerðar til að meta áhrif verkefnisins. Niðurstaða rannsóknar frá því í maí á síðasta ári sýnir að bandarískir neytendur hafa almennt jákvæðara viðhorf til Íslands, eru meðvitaðri um vörur frá Íslandi og mun fleiri en áður hafa áhuga á að ferðast til landsins.

Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur með Iceland Naturally vestanhafs er samgönguráðuneytið að kanna möguleika á að samskonar verkefni verði hleypt af stokkunum á afmörkuðum markaðssvæðum í Evrópu.