Samgönguráðherra hélt utan til Noregs í gær, mánudag. Þar mun hann kynna sér fyrirkomulag og skipulag Noðmanna á siglinga- og hafnamálum. Ávarp ráðherra við kvöldverði í boði borgarstórans í Haugesund í gærkvöld fer hér á eftir.
Borgarstjóri, þingmaður, heimamenn og gestir.
Ég vil fyrir hönd okkar gestanna frá Íslandi þakka "Kystverket"fyrir boðið hingað í kvöld og lýsa sérstakri ánægju með að hafa fengið tækifæri til þess að koma til Haugasund og kynnast þessum hluta Noregs. Með mér eru ráðuneytisstjórinn í samgönguráðuneytinu og forstjóri Siglingastofnunar sem báðir eru verkfræðingar og miklir áhugamenn um hverskonar mannvirkjagerð. Sem fyrrverandi bæjarstjóri í fiskibæ á Íslandi vekja hafnarframkvæmdir ávalt áhuga minn.
Erindi okkar hingað til Noregs að þessu sinni er að kynnast framkvæmdum á vegum "Kystverket“ sem starfsmenn íslensku Siglingastofnunarinnar hafa tekið þátt í. Við í samgönguráðuneytinu höfum fylgst með því af áhuga að verkfræðingar og jarðfræðingar á vegum Siglingastofnunar Íslands skuli hafa tekist á við svo stórt verkefni við hafnagerð hér í Noregi. Rannsóknir og hönnun á sviði hafnargerðar og varna gegn ágangi sjávar og landbroti á Íslandi hefur verið að þróast og hefur vinna verkfræðinga Siglingastofnunar hlotið verðskuldaða viðurkenningu. Það er vissulega ánægjulegt að sérfræðingar okkar í hafnagerð og jarðvísindamenn sem hafa mikla reynslu við gerð grjótgarða skuli hafa fengið tækifæri til að vinna hér í Noregi og fagna ég því sérstaklega. Við íslendingar höfum orðið að leggja mikla fjármuni í hafnargerð til þess að skapa skjól fyrir haföldunni. Margir fiskibæir á Íslandi eru við ströndina þar sem stutt er á gjöful fiskimið en erfið hafnarskilyrði af náttúrunar hendi. Verkfræðinga okkar og hönnuðir hafa því orðið að leggja sig fram við að þróa aðferðir við að byggja skjólgarða við hafnirnar.
Það er von mín að ferð okkar hingað geti orðið til þess að efla og auka samskipti Noregs og Íslands á sviði samgöngumála og ekki síst hafnargerðar.