Samgönguráðherra hefur ritað vegamálastjóra bréf í tilefni þess að Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur sent ráðuneytinu álit.  Í bréfi ráðherra kemur m.a. fram að ráðherra telur ábendingar nefndarinnar mjög alvarlegar og taka beri eins mikið tillit til þeirra og unnt sé. Hér á eftir fara bréf Rannsóknarnefndar umferðaslysa til ráðuneytisins og bréf samgönguráðherra til vegamálastjóra.

10.10.2002
Samgönguráðuneytið
Hafnarhúsinu Tryggvagötu
150 Reykjavík
                        
Þann 20. september sl. átti Rannsóknarnefnd umferðarslysa fund með samgönguráði þar sem nefndin greindi frá niðurstöðum rannsókna á banaslysum í umferðinni árin 1998-2001, helstu tegundum slysa og hugsanlegum lausnum út frá öryggi veganna. Í þessari greinargerð er farið yfir helstu atriði sem komu fram á þeim fundi.

Algengasta tegund banaslysa í umferðinni á Íslandi er útafakstur, eða nærri helmingur tilvika árin 1998-2001 (mynd1). Rannsóknir hafa sýnt að í 95% tilvika má rekja aðalorsakir umferðarslysa til mannlegra mistaka. Því er í fæstum tilvikum hægt að tala um veg og umhverfi hans, sem beina orsök slyss. Hins vegar er í mörgum tilfellum hægt að segja að hefði verið gengið frá vegi og umhverfi hans með öðrum hætti, hefðu slys á fólki orðið mun minni. Koma má í veg fyrir alvarleg meiðsl á fólki í umferðarslysum með því að hreinsa grjót í umhverfi vega, bæta og auka fláa, lagfæra skurði og ræsi, breikka vegaxlir o.fl. Rannsóknarnefnd umferðarslysa telur að gefa eigi meiri gaum að endurbótum á eldri vegum en nú er gert.

Mynd 1. Tegund banaslysa í umferðinni 1998-2001
Framanákeyrslur eru næst algengasta tegund banaslysa í umferðinni, eða 22% tilvika. Flestar framanákeyrslur verða í um 50 km radíus, á þjóðvegunum í kringum Reykjavík og því brýnt verkefni að aðgreina umferð úr gangstæðum áttum á þessum vegköflum. Á árunum 1998-2001 urðu 70% framanákeyrsla (14 af 20) á þeim þremur veghlutum sem tilgreindir eru í töflu 1.

 Tafla 1. Framanákeyrslur á þjóðvegum í nágrenni Reykjavíkur 1998- 2001.                           
     

     



















Vegahluti

Framanákeyrslur

 Látnir

Reykjavík að Keflavík (Reykjanesbraut, 48 km) 

    6

   8

Reykjavík að Akranesi (Vesturlandsvegur, 49 km)   

    5

   8

 Reykjavík að Selfossi (Suðurlandsvegur, 57 km) 

    3

   3

Rannsóknarnefndin bendir á að aðrir kostir séu í stöðunni en sá dýrasti, þ.e. breikkun þeirra í fjögurra akreina veg með miðdeili og mislæg gatnamót. Í skýrslu verkfræðistofunnar Línuhönnunar frá 2001 er bent á 2+1 veg sem heppilegan kost fyrir þjóðvegina í kringum Reykjavík bæði með og án mislægra gatnamóta. Auk þess vill nefndin benda á mjög góða reynslu Svía af þessum vegum.

Þriðja algengasta tegund banaslysa eru hliðarárekstrar, en þeir verða flestir á gatna- og vegamótum. Í því samhengi hefur rannsóknarnefndin bent á mikilvægi þess að merkja gatna- og vegamót vel, stækka merki og hafa yfirborðsmerkingar skýrar og greinilegar. Þá telur nefndin að gera þurfi átak í því að stefnugreina helstu gatnamót.  Einnig ber að hafa það í huga að hliðarárekstrar eru annars eðlis en framanákeyrslur. Hlið bílsins er veikari en framendi og því eru meiðsl á fólki tiltölulega meiri en í öðrum árekstrum þrátt fyrir það að samanlagður ökuhraði ökutækja er oftast minni. Það er full ástæða til að skoða hvort ekki beri að lækka hámarkshraða við vega- og gatnamót.

Að lokum vill nefndin benda á að akstur erlendra ferðamanna hefur aukist verulega á síðustu árum og hafa margir þeirra lent í alvarlegum slysum. Eftir því sem merkingar eru skýrari og ítarlegri, þeim mun líklegra er að erlendir ökumenn aki um landið óhappalaust. Einnig þurfa þeir fræðslu þegar þeir taka bifreið á leigu en samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er mikill misbrestur á að hún sé veitt. Árin 1998-2001 létust 8 erlendir ríkisborgarar í umferðarslysum og voru fjórir þeirra erlendir ferðamenn. Það sem af er árinu 2002 hafa 5 erlendir ferðamenn látið lífið í umferðarslysum á Íslandi.

F.h. Rannsóknarnefndarinnar
Rögnvaldur Jónsson
formaður

Afrit: Samgönguráð
         Vegagerðin
         Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
———————————————————————————————-
                                                                                                                          
S A M G Ö N G U R Á Ð U N E Y T I Ð
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu 150 Reykjavík
kennitala: 550269 – 1639
sími:  545 8200,  bréfsími:  562 1702,
netfang:  postur@sam.stjr.is,
veffang:  http://www.samgonguraduneyti.is

Dags: 21.október 2002
Vegagerðin
Helgi Hallgrímsson, vegamálastjóri
Borgartúni 5-7
105 REYKJAVÍK
  
Ráðuneytið vísar til meðfylgjandi bréfs frá rannsóknanefnd umferðarslysa dags.  10. október 2002 þar sem að fjallað er um orsakir banaslysa í umferðinni í framhaldi af fundi sem nefndin átti með samgönguráði nú nýverið.
 
Útafakstur mun vera algengasta tegund banaslysa í umferðinni. Rannsóknanefndin gerir grein fyrir þýðingu þess að ganga vel frá vegi og umhverfi hans og er það skoðun nefndarinnar að gefa eigi meiri gaum að endurbótum á eldri vegum en nú er gert. Ráðuneytið  hefur lagt á það áherslu að umferðaröryggismál verði að vera þýðingarmikil í starfsemi Vegagerðarinnar og má þar nefna verulegt átak til fækkun einbreiðra brúa og kortlagningu og sérstakar framkvæmdir á slysastöðum. Ráðuneytið telur að hér sé um að ræða atriði er snertir forgangsröðun framkvæmda í vegagerð og augljóst að verkefnið er stórt en þörfin er afar brýn. 
 
Rannsóknanefndin fjallar því næst um framanáakstur, sem er næst algengasta orsök banaslysa og er tiltekið að flestar framanákeyrslurnar verði í um 50 km. radíus, á þjóðveginum í kringum Reykjavík. Í töflu 1. í bréfi nefndarinnar koma fram heldur dapurlegar upplýsingar um þetta atriði en á tímabilinu 1998-2001 urðu 19 banaslys á þessum kafla þjóðvega landsins. Rannsóknanefndin bendir á undir þessum lið að hægt sé að byggja 2+1 vegi til þeirra staða sem um ræðir í stað  tvíbreiðs vegar fyrir mun minni kostnað auk þess sem hægt sé að vitna til mjög góðrar reynslu Svía af þessum vegum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur undir höndum  „Säker trafik-Nollvisionen på väg,  Vägverket 2002“ hafa Svíar byggt upp þessa gerð vega síðan sumarið 1998. Svíar fullyrða að þeir hafi reynst mjög vel til þess að hindra framanákeyrslur. Ráðuneytið minnir einnig á að í minnisblaði þess til samgönguráðs er gert ráð fyrir að þessi lausn verði skoðuð sérstaklega við gerð samgönguáætlunar 2003-2014.

Þriðja algengasta tegund banaslysa að mati nefndarinnar eru hliðarárekstrar sem verða flestir á gatna- og vegamótum. Nefnd eru ýmis úrræði til þess að minnka þessa hættu og þeim til viðbótar nefnir ráðuneytið kosti hringtorga sem hafa sýnt sig víða að minnka verulega hættuna á alvarlegum slysum.

Að lokum nefnir nefndin akstur erlendra ferðamanna sem hefur aukist verulega um landið með tilheyrandi fjölgun óhappa og slysa og er sláandi hvernig mál hafa þróast á þessu ári. Ráðuneytið tekur fram í þessu sambandi að væntanlega verða flest þessi slys í bílaleigubílum og þá vaknar spurningin hvort hægt sé að herða á framkvæmd 6. gr. laga nr. 64/2000 um bílaleigur sem fjallar um umferðarfræðslu til erlendra leigutaka, í samvinnu vil íslenskar bílaleigur.

Ráðuneytið telur að ábendingar nefndarinnar séu mjög alvarlegar og beri að taka eins mikið tillit til þeirra og unnt er. Nú fer fram vinna við samgönguáætlun 2003-2014 sem verður í reynd heildarstefnumótun þjóðarinnar í samgöngumálum til langs tíma. Með bréfi þessu óskar ráðuneytið eftir því að Vegagerðin geri nú sérstaklega grein fyrir því hvernig hún hyggist bregðast við þ.e. hvaða aðgerða hún leggur til, í því skyni að bregðast við framangreindum orsökum banaslysa og ábendingum rannsóknanefndar umferðarslysa, í tillögu að samgönguáætlun. Svar óskast svo fljótt sem verða má.

Sturla Böðvarsson
  
Jóhann Guðmundsson