Samgönguráðherra hefur skipað nýtt ferðamálaráð en ný lög um skipan ferðamála tóku gildi í gær, 1. janúar.
Í ferðamálaráði eiga sæti tíu fulltrúar. Formaður ferðamálaráðs er Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður og varaformaður er Dagný Jónsdóttir, alþingismaður.
Aðrir fulltrúar ferðamálaráðs, tilnefndir af Samtökum ferðaþjónustunnar eru: Gunnar Már Sigurfinnsson, farmkvæmdastjóri hjá Icelandair, Lára Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Congress Reykjavík og Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda. Þá eiga sæti í ferðamálaráði Gunnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi, Akranesi og Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúa, báðir tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ferðamálasamtök Íslands tilnefndu Pétur Rafnsson, formann Ferðamálasamtaka Íslands og Dóru Magnúsdóttur, markaðsstjóra ferðamála Höfuðborgarstofu. Þá tilnefndi Útflutningsráð Jón Ásbergsson framkvæmdastjóra.
Skipunartími ferðamálaráðs er fjögur ár en skipunartími formanns og varaformanns er þó takmarkaður við embættistíma ráðherra.
Ferðamálastjóri og fulltrúi ráðuneytisins sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt. Ingilín Kristmannsdóttir, viðskiptafræðingur í samgönguráðuneytinu, er ritari ferðamálaráðs.
Hlutverk ferðamálaráðs er skilgreint í 6. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála:
– Gera árlega eða oftar, tillögur til ráðherra um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar
– Vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra um áætlanir í ferðamálum.
– Veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál og annað er ráðherra felur ráðinu eða ráðið telur ástæðu til að taka upp í þágu ferðaþjónustunnar.
Ferðamálaráði er falið að fara yfir stöðu og skipulag kynningar á Íslandi á erlendum vettvangi og hlutverk landkynningaskrifstofa Ferðamálastofu og að meta árangur af landkynningu undanfarinna ára. Einnig leggur ráðið fram tillögur um það hvernig samstarfi við aðra aðila sem standa að kynningu á Íslandi á erlendri grundu skuli háttað. Þá gerir Ferðamálaráð tillögur um hvernig þeim fjármunum sem stjórnvöld veita til ferðamála og koma frá ýmsum ráðuneytum verði sem best nýttir og í samræmi við þingsályktun um ferðamál sem samþykkt var á Alþingi vorið 2005 (PDF-1,5MB)