Samgönguráðherra hefur skipað Jón Rögnvaldsson í embætti vegamálastjóra frá og með 1. mars n.k. í stað Helga Hallgrímssonar, sem lætur þá af störfum eftir að hafa gegnt embættinu frá árinu 1992. Jón var valinn úr hópi sex umsækjenda.
Jón Rögnvaldsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1959, og prófi í byggingarverkfræði með vega- og brúargerð sem sérgrein frá Tækniháskólanum í Stuttgart árið 1964.
Jón hóf störf hjá Vegagerðinni að námi loknu. Hann var umdæmisverkfræðingur á Vesturlandi til ársins 1969, deildarverkfræðingur við veghönnun til 1976, yfirverkfræðingur áætlanadeildar til 1992, forstöðumaður tæknisviðs til 1995 og loks hefur hann gegnt stöðu aðstoðarvegamálastjóra frá árinu 1995.