Í morgun svaraði samgönguráðherra fyrirspurn Hlyns Hallssonar varaþingmanns Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs um beint millilandaflug frá Akureyri.
Fyrirspurn Hlyns var tvískipt. Annars vegar spurði hann hvort stjórnvöld hygðust kanna leiðir til að stuðla að beinu millilandaflugi frá Akureyri í ljósi þess að flugfélagið Grænlandsflug er að hætta slíku flugi? Hins vegar hvort ráðherra væri tilbúinn til að beita sér fyrir opinberum styrkjum til markaðssetningar á slíku flugi í því skyni að efla ferðaþjónustu á landsbyggðinni ef áhugasamir aðilar finnast til að sjá um flugreksturinn?
Svar samgönguráðherra við fyrrihluta fyrirspurnar var eftirfarandi:
Millilandaflug verður ekki stundað nema fyrir því séu rekstrarlegar forsendur. Svar mitt er því að stjórnvöld hafa ekki í hyggju að beita beinum styrkjum eða sértækum aðgerðum til að millilandaflug verið stundað frá Akureyri. Telji flugfélag, hvaða nafn sem það ber, markaðslegar forsendur fyrir millilandaflugi frá Akureyri munu stjórnvöld fagna því og greiða götu þess félags sem mest má vera, sbr. þá fyrirgreiðslu við Air Greenland þegar það félag fékk öll þau leyfi og undanþágur sem það óskaði. Ekki má gleyma því að samgönguráðuneytið stóð styrkan vörð um hagsmuni Akureyringa með því að leyfa þetta flug án þess að um væri að ræða sömu gagnkvæmni réttinda skv. loftferðasamningi við Dani sem þó hefði undir venjulegum kringumstæðum verið forsenda sem ekki hefði verið vikið frá. Því er ekki að neita að afgreiðsla þessi var óvenjuleg og skapaði óánægju hjá íslenskum flugfélögum, sem eiga ekki sömu möguleika á flug til Grænlands. Því miður telur umrætt félag ekki vera markaðslegar forsendur fyrir fluginu og eru það mönnum vissulega vonbrigði.
Ríkisstyrkt millilandaflug þekkist ekki á Evrópska efnahagssvæðinu mér vitanlega og er í grundvallaratriðum óheimilt. Ef heimildir væru fyrir hendi er augljóst að ekki væri unnt að styrkja bara einn aðila meðan aðrir fengju ekki neitt. Ég treysti hins vegar því að þeir sem á þessum markaði starfa komi fram með lausnir sem geri millilandaflug frá öðrum stöðu en Keflavík fýsilegt, sbr. flug LTU til Egilsstaða tvö undanfarin sumur.
Svar samgönguráðherra við síðari hluta fyrirspurnar var eftirfarandi:
Aðgerðir stjórnvalda hafa leitt til þess að gistinóttum á landsbyggðinni hefur fjölgað. Fyrstu níu mánuði ársins hefur hótelgistinóttum á landsbyggðinni fjölgað um 8%. Á milli áranna 2001 og 2002 fjölgaði gistinóttum á landsbyggðinni um 8,7% en á Norðurlandi eystra var fjölgunin 16,2% en á þeim tíma var flug Air Greenland til Akureyrar ekki hafið. Varðandi spurningu hv. þingmanns vil ég benda á það samstarf sem Ferðamálaráð Íslands bíður uppá þegar kemur að markaðssetningu á erlendri grundu. Það er ekki um að ræða beina opinbera styrki, heldur er um að ræða verkefni þar sem hagsmunaaðilar ganga til samstarfs við Ferðamálaráð um markaðsverkefni erlendis.
Markaðssetning á verkefni sem þessu fellur vel að þeim ramma sem samstarf getur náðst um. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá felst samstarfið í því að Ferðamálaráð leggur fram jafnháa upphæð þeirri sem viðkomandi hagsmunaaðili leggur í tiltekna markaðsaðgerð. Þau verkefni sem samstarf varð um á síðasta ári hafa gengið vel og eru menn almennt sammála því að þetta form hafi sannað ágæti sitt. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar frá fyrra ári hvað skilyrði samstarfsverkefna varðar og geta áhugasamir kynnt sér þær breytingar á heimsíðu Ferðamálaráðs.