Í síðustu viku birtist á vef Bæjarins besta pistill frá Kristni H. Gunnarssyni þingmanni þar sem hann furðar sig á forgangsröðun verkefna í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er til að mynda lagt til að fresta framkvæmdum við vegabætur á Vestfjörðum.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra segist furða sig á orðum Kristins í umræddum pistli, segir sér finnast þau sorgleg og að hann sem þingmaður hljóti að tala þar gegn betri vitund. „Ég verð nú að segja vegna þessara orða Kristins H. Gunnarssonar að hann er að reyna að láta hljóma tortryggilegt það sem samstarfmenn hans í stjórnarflokkunum eru að gera. Hvað framkvæmdir vegna veglagningar um Arnkötludal varðar, þá er búið að fjármagna verkið og hefjast þær framkvæmdir á næsta ári. Gert er ráð fyrir að hægt verði að aka á þar um á beinum vegi árið 2008.“ Það er sama ár og upphaflega stóð til að vegurinn ætti að vera tilbúinn. Sturla segir aðalatriðið vera að búið sé að taka ákvörðum um veglagninguna um Arnkötludal og hún sé komin inn í samgönguáætlun.

Ein helsta ádeila Kristins í grein sinni eru framkvæmdir sem brátt verður farið í á Suðurlandi. Segist Kristinn ekki skilja þau rök að það hafi þurft að draga úr framkvæmdum vegna þensluástands í þjóðfélaginu og síðan sé hægt að ráðast í svo stórar framkvæmdir fyrir tvisvar sinnum hærri fjárhæð en þær framkvæmdir kosta sem verið er að fresta á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Sturla segir þær framkvæmdir ekkert hafa að gera með að hægt hafi á framkvæmdum á veglagningu um Arnkötludal. Segir hann að samþykkt hafi verið að setja sérstakt fé úr fjáraukalögum, 1 milljarð, í umferðaröryggisaðgerðir á fjölförnustu vegum landsins, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. „Það er mjög óvarlegt að setja það í samhengi við að hægja þurfti á framkvæmdum eins og var vissulega gert í sumar af efnahagsástæðum.“ segir Sturla.

Samgönguráðherra segir ljóst að sú ákvörðun um að hægja á framkvæmdum hafi haft tilætluð áhrif. „Hvernig sem á það er litið þá erum við nú að framkvæma á þeim tímum sem hagstætt er að bjóða út verkin og það var tilgangurinn hjá okkur með því að hægja á fyrr á þessu ári“ segir Sturla og bætir við „Ég vísa því þessum orðum Kristins algjörlega á bug.“

Arnkötludalur 2008 – grein sem birtist á bb.is 4. desember, 2006.

Á vef Bæjarins besta á Ísafirði þann 30. nóvember sl., birtist grein eftir Kristin H. Gunnarsson þingmann Framsóknarflokksins þar sem hann fjallar m.a. um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. Enn fremur birtist viðtal við þingmanninn á sama miðli, dagsett þann 1. desember sl.

Málflutningur Kristins er eins og fyrri daginn ein samfelld tilraun til þess að koma illu til leiðar á hinum pólitíska vettvangi og koma höggi á samstarfsmenn sína innan stjórnarflokkanna. Kristinn H. Gunnarsson heldur því  ítrekað fram í máli sínu að ríkisstjórnin fyrirhugi frestun á framkvæmdum á nýjum vegi um Arnkötludal og Tröllatunguheiði. Vonandi er það ekki ætlun þingmannsins að afvegaleiða lesendur þótt sú sé raunin.

Rétt er að minna á að vegur um Arnkötludal komst fyrst á dagskrá með því að ég sem samgönguráðherra lagði til að í það verk væri ráðist. Naut ég góðs stuðnings flestra þinmanna kjördæmisins. Ekki varð vart við sérstakan áhuga Kristins vegna þessa verkefnis á þeim tíma. Framkvæmdir við veg um Arnkötludal hefjast á næsta ári og mun verkið, þegar það er hafið, eiga sér eðlilegan framgang. Undirbúningur vegna nýrra verka sem þessa er í eðli sínu flólkinn og tímafrekur enda lagt upp úr að hugað sé vandlega að öryggis- og umhverfismálum. Þrátt fyrir frestun á framkvæmdum í sumar er gert ráð fyrir að hægt verði að aka um Arnkötludal á nýjum vegi árið 2008. Samhliða verklokum framkvæmda í Arnkötludal verður jafnframt séð fyrir endann á uppbyggingu Djúpvegar.

Vert er að minna á að með sölu Símans var jafnframt tekin ákvörðun um stórauknar framkvæmdir í vegagerð. Það er af og frá að verið sé að lækka framlög ríkisins til vegamála frá því sem Samgönguáætlun gerði ráð fyrir. Þá vil ég minna á að ég hef  rætt  um stór auknar framkvæmdir sem ég tel að séu nauðsynlegar. Um það þarf að ná sátt. Eigi þær hugmyndir mínar að að ná fram að ganga er mikilvægt að þingmenn kjördæmisins standi saman og þá ekki síst stjórnarliðar en telja verður að Kristinn H. Gunnarsson sé í þeim hópi sem þingmaður Framsóknarflokksins.

Það er hinsvegar rétt hjá þingmanninum að á árinu hafa framlög ríkisins til umferðaröryggismála verið aukin um allt að 1.000 m.kr. Sú aukning kemur m.a. til af frumkvæði samgönguráðuneytisins og í kjölfar kröftugrar umræðu um umferðaröryggismál. Vert er að minna á  mikla og stöðuga aukningu á umferð á megin umferðaræðum við höfuðborgina og hörmuleg umferðarslys á þeim leiðum. Með afgerandi hætti var ákveðið að bregðast skjótt við m.a. með aukinni áherslu á umferðareftirlit og sérstöku átaki í umferðaröryggismálum. Það er mál manna að með ákvörðun um að leggja fjármuni til umferðaröryggisaðgerða og með hertu eftirlliti hafi verið brugðist með skýrum hætti við kröfum þjóðarinnar um aukið öryggi í umferðinni. Það er því mjög undarlegt hjá þingmanninum að gera þær aðgerðir tortryggilegar með því að tengja þær færslu fjármuna vegna vegagerðar um Arnkötludal milli áranna 2007 og 2008.  

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.