Samgönguráðherrar Evrópuríkjanna hafa með sér reglulegt samstarf, sem haldið er utan um af samtökum þeirra, European Conference of Ministers of Transport (ECMT). Samtökin reka skrifstofu í París í höfuðstöðvum OECD. Samgönguráðherrar Bandaríkjanna, Kanada, Japan, Maracco, Mexíco og Kóreu hafa setið fundi ECMT og átt aðild að samþykktum þeirra. EMCT hélt nýverið árlegan fund sinn, og var hann haldinn í Búkarest í Rúmenínu. Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson sótti fundinn.
Fundarstaður var höll fyrrum einvaldsins illræmda, Nicolae Ceausescu, sem hann lét reisa á valdatíma sínum og nefndi „Hús fólksins“. Höllin er sögð vera næst stærsta bygging veraldar og er hlaðin ótrúlegum íburði sem er í engu samræmi við aðrar byggingar sem reistar hafa verið í landinu. Er hún óneitanlega skelfilegt dæmi um þá hrikalegu stjórnarhætti sem viðgengust á tímum Kommúnistastjórnarinnar þar sem valdinu var beitt gegn fólkinu og fjármunum þjóðarinnar sóað meðan almenningur leið skort. Heimsóknin til Rúmeníu verður ógleymanleg ekki síst fyrir þá fátækt sem blasir við í þessu landi sem ætti að hafa alla möguleika til þess að vera meðal best settu landa veraldar.

Á fundi samgönguráðherranna var fjallað um fjölmörg mál sem brenna á Evrópuþjóðunum og varðar öryggi í samgöngum á vegum, í sjóflutningum og flugsamgöngum. Einnig það sameiginlega vandamál sem hryðjuverk eru. Þau ógna öllum þeim sem stunda flutninga og valda miklum áhyggjum þeim sem bera ábyrgð á samgöngumálum í veröldinni.

Umferðaröryggismál á vegum voru mikið rædd og harmað hversu stóran toll slys á vegum taka með dauða og örkumlun þeirra sem lenda í umferðarslysum. Voru lögð fram gögn um dauðsföll vegna umferðarslysa á vegum í þeim löndum sem aðild eiga að samtökunum. Samkvæmt því eru dauðsföll af völdum umferðarslysa árið 2000 mest í Austur-Evrópuríkjunum, hvort sem miðað er við íbúafjölda eða ekna kilómetra. Ef miðað er við íbúafjölda, þá eru dauðaslys í umferðinni fleirri hér á Íslandi en hjá þeim þjóðum sem við miðum okkur oftast við. Sú staða er mikið áhyggjuefni og getur ekki verið ásættanleg. Ekki verður fjallað um átæður mikilla slysa á vegum en þessi staðreynd hlýtur að kalla á sérstakar aðgerðir af okkar hálfu til þess að sporna gegn þeim þáttum í umferðinni sem valda slysum.

Hér á eftir fer ræða sem ég flutti á ársfundinum og fjallaði m.a. um samræmda samgönguáætlun og umferðaröryggismál.

Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson:
Ræða á ársfundi evrópskra samgönguráðherra, ECMT, Búkarest 29. maí 2002.

Herra formaður,

mér þykir við hæfi, hér í upphafi máls míns í dag, að óska ECMT til hamingju með þennan glæsilega ársfund hér á þessum fallega stað, í þessari stórkostlegu byggingu, sem þó á sér svo átakanlega fortíð. En fortíðin er til að læra af, og framtíðin er svo sannarlega þessa fallega lands.

Ég þakka þetta tækifærið sem ég fæ til að tala hér í dag um þessi mikilvægu málefni sem liggja fyrir fundinum. Jafnframt vil ég nota tækifærið til að þakka the secretary general, mr. Jack Short, fyrir komu hans til Íslands fyrr á þessu ári, þar sem hann tók þátt í ráðstefnu okkar um samræmda samgönguáætlun. Þetta er í fyrsta sinn sem sérlegur fulltrúi ECMT heimsækir Ísland. Samræming allra áætlana á sviði samgöngumála hefur verið í undirbúningi í ráðuneyti mínu um nokkra hríð, og varð ný heildarlöggjöf á þessu sviði að veruleika í lok síðasta þings. Heimsókn mr. Short til Íslands og þátttaka hans í ráðstefnunni um þetta efni vakti nokkra athygli, og lagði hann sitt af mörkum til að gera ráðstefnu okkar jafn árangursríka og raun bar vitni. Vil ég nota þetta tækifæri hér í dag til að þakka honum sérstaklega fyrir hans innlegg.

Í störfum mínum sem samgönguráðherra hef ég lagt ríka áherslu á að samtvinna sem frekast er unnt hina ólíku þætti samgöngukerfisins, líkt og svo rík áhersla hefur verið lögð á í störfum ECMT. Með samþykkt frumvarps um samræmda samgönguáætlun er þessi stefna mín stðafest og eftir henni verður unnið næstu árin. Ég vildi samt hér í dag benda ykkur á þá þróun sem átt hefur sér stað á Íslandi, þar sem flutningamagn í strandflutningum hefur ekkert aukist undanfarin tíu ár en viðkomustöðum hefur fækkað út þrjátíu í tíu, og uppbygging vegakerfisins hefur verið meginmarkmið hins opinbera í samgöngumálum. Ég bendi á þetta, því aðstæður á Íslandi eru þannig, að litið er á þessa þróun bæði sem neikvæða og jákvæða.

Hvatinn til að byggja upp landsamgöngur er orðinn mun meiri en fyrr, og mikilvægi þess að uppbygging landsamgangna verði hraðari en áður er fleirum ljósara. Meiri umferð kallar jú á meiri og hraðari uppbyggingu. Hins vegar hefur þessi þróun kallað á frekari umræðu um umhverfismál og jafnframt leitt af sér frekari slysahættu. Ég bendi á þetta, þar sem sett eru fram meginmerkmið í Hvítbók Evrópusambandsins um að draga úr þungaumferð um hið hefðbundna vegakerfi. Þessi meginmarkmið eru fyllilega skiljanleg í miðri Evrópu, en eru þó ekki í samræmi við þann veruleika sem blasir við mér sem samgönguráðherra á Íslandi. Raunveruleiki okkar er annar en sá er blasir við á meginlandi Evrópu. Umferðarþungi er lítill miðað við það sem hér er við að etja, og því ekki á allan hátt um sambærileg vandamál að ræða. Því er uppbygging landsamgangna mitt helsta markmið sem samgönguráðherra. Tel ég það þjóna best íslenskum hagsmunum.

Varðandi umræðuna um aukið umferðaröryggi, þá er staðan sú á Íslandi að umferðaröryggi verður að teljast nokkuð gott – miðað við heildarfjölda dauðsfalla borið saman við milljón ökutæki. Samt er það svo, að það hefur reynst okkur, sem öðrum þjóðum, erfitt að fækka dauðaslyslum eftir að ákveðnu marki er náð. Það virðist vera nokkurskonar ósýnilegur þröskuldur sem er erfitt að stíga yfir. Því tel ég nauðsynlegt að farið verði í það af auknum krafti að takast á við þennan vanda og reyna að skilgreina nýjar aðferðir svo takast megi að lækka frekar þann toll sem umferðin tekur. Við þurfum nýar aðferðir og nýja tækni því þessi tollur mannsílfa er algjörlega óásættanlegur að mínu mati. Einnig vil ég víkja að ábyrgð yfirvalda. Til dæmis er skipting ábyrgðarinnar á milli ráðuneyta á Íslandi með þeim hætti að samgönguráðuneytið kemur aðeins lítillega að umferðaröryggismálum – og þá einna helst með uppbyggingu og hönnun vegakerfisins. Mér skilst að þetta vandamál sé einnig víðar í aðildarlöndum ECMT. Mín skoðun er sú að ábyrgð á umferðaröryggismálum á ekki að vera dreifð, heldur saman komin á einum stað. Með þeim hætti á að vera hægt að taka mun markvissar á þessu vandamál og samtengja þær aðgerðir sem í verður ráðist.

Varðandi framtíðarstefnu ECMT, þá væri það spennandi kostur út frá hagsmunum Íslands, að samtökin litu til samgöngukerfisins sem stærri heildar en nú er. Á Íslandi, líkt og áður sagði, er einn samgöngumáti ríkjandi, sem er hið hefðbundna vegakerfi. Við höfum hvorki járnbrautir né skipgengar vatnaleiðir, en flugsamgöngur, bæði innan landsins og milli landa, og skipasamgöngur, eru landinu mjög mikilvægar. Eins og ég sagði í upphafi minnar ræðu þá erum við á Íslandi farnir að líta á öll þessi samgöngukerfi saman. Við tökum ekki ákvarðanir án þess að kanna áhrifin á kerfið í heild. Þess vegna held ég að til lengdar sé nauðsynlegt að ECMT hafi sömu möguleiki í sínum samanburði og tölfræði.

Ágætu ráðstefnugestir,
ég vil að endingu þakka góðan og vandaðan undirbúning þessa ársfundar, um leið og ég óska þess að fundurinn eigi eftir að vera bæði í senn, árangursríkur en jafnframt skemmtilegur og eftirminnilegur okkur öllum, er sækjum þennan fund allstaðar að úr álfunni.