Fyrr í dag var skrifað undir samning á milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Landssíma Íslands hf. um rekstur strandarstöðva.
Á blaðamannafundi sem samgönguráðherra boðaði til í dag, þriðjudag, á Miðbakka Reykjavíkurhafnar undirrituðu samgönguráðherra og fjármálaráðherra ásamt með forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar og forstjóra Landssíma Íslands hf. samning um strandarstöðvaþjónustu við skip við Íslandsstrendur.

Samningurinn er á milli Póst-og fjarskiptastofnunar f.h. ríkisins við Landssíma Íslands hf. um þjónustu við strandarstöðvar. Samningurinn gildir til 1. janúar 2003 hið lengsta. Áætlaður kostnaður ríkisins vegna þjónustunnar er tæpar 440 mkr. á tímabilinu.

Mikilsverðir öryggishagsmunir eru tengdir strandarstöðvum en rekstur þeirra hefur verið í höndum Póst-og símamálastofnunar, Pósts og síma hf. og nú síðast Landssíma Íslands hf. Verulegt tap hefur alla tíð verið af starfseminni sem hefur gert það að verkum að Landssíminn hefur leitað leiða til hagræðingar. Vegna væntanlegrar sölu fyrirtækisins og aukinnar áherslu á að fjarskiptaþjónusta lúti sjónarmiðum samkeppnisrekstrar er óhjákvæmilegt að aflétta þeirri kvöð af Landssímanum að hann starfræki strandarstöðvar með umtalsverðu tapi.