Á hádegisverðarfundi SAF um Keflavíkurflugvöll undir yfirskriftinni ,, Er gjaldtaka á Keflavíkurflugvelli hamlandi fyrir íslenska ferðaþjónustu?“ kom eftirfarandi m.a. fram í ræðu ráðherra:

Samtök ferðaþjónustunnar standa hér í dag fyrir fundi um samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar. Nokkur umræða var um þessi mál í kjölfar frétta um að flugfélagið GO hyggðist ekki ætla að bjóða uppá áætlunarflug til Keflavíkur í sumar, líkt og í fyrra.

Ég vil hér strax í upphafi nefna að ekki fer á milli mála að mikil uppbygging hefur átt sér stað á Keflavíkurflugvelli, sér í lagi síðustu fimmtán ár eða svo. Þjónustustig vallarins hefur aukist hröðum skrefum, og hefur ríkissjóður lagt til aukinnar þjónustu á vellinum háar fjárhæðir á undanförnum árum.

Ég sagði á fundi í morgun um gildi ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík, sem mörg ykkar hafið kannski verið á, að með þeirri ákvörðun, að byggja ráðstefnumiðstöð í Reykjavík, horfum við til framtíðar, líkt og gert var þegar ákveðið var að ráðast í byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Aðstaðan til móttöku ferðamanna í Keflavík, í byrjun níunda áratugarins, var ekki til mikillar fyrirmyndar. Þegar ákvörðun var tekin um byggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar voru margir til að gagnrýna hana, og töldu enga þörf á þvílíkri fjárfestingu í innviðum ferðaþjónustunnar.

Allir sanngjarnir menn sjá hve mikilvæg Leifsstöð er ferðaþjónustunni og ljóst að sú umferð sem fer þar um í dag gæti á engan hátt farið um völlinn, ef ekki hefði verið ráðist í byggingu nýrrar flugstöðvar. Hæpið er að íslensk ferðaþjónusta, og í raun þjóðarbúið allt, hefði notið þeirra hundruða milljarða gjaldeyristekna, sem greinin hefur skilað frá opnun flugstöðvarinnar, – ef ekki hefði verið blásið á þessa gagnrýni á sínum tíma og flugstöðin reist.

Stækkunin á Leifsstöð, sem nýverið var tekin í gagnið, er ekki síst tilkomin vegna skuldbindinga okkar gagnvart Schengen-samkomulaginu. Ráðist var í milljarða fjárfestingu, til að tryggja sem best fljótt og öruggt flæði farþega um völlinn, sem var óumdeilanlega mjög mikilvæg aðgerð af hálfu stjórnvalda til að auka enn frekar samkeppnishæfni vallarins.

Þessi hraða uppbygging í þjónustu Keflavíkurflugvallar skiptir samkeppnishæfni hans verulegu máli. Stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum til að skapa samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar með mikilli fjárfestingu í Leifsstöð, en jafnframt hefur verið lagt í umtalsverðar fjárfestingar í flugvellinum sjálfum.
Hið opinbera hefur tryggt að Keflavíkurflugvöllur er tæknilega fullkominn völlur sem stenst allan samanburð á því sviði. Þá er öll aðstaða gagnvart farþegum til mikillar fyrirmyndar, en hún skiptir einnig verulega miklu máli þegar talað er um samkeppnishæfni vallarins.

Þjónustustig Keflavíkurflugvallar er því að mínu mati hátt. Flugvöllurinn uppfyllir allar öryggiskröfur sem gerðar eru til fullkomnustu alþjóðaflugvalla. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir samkeppnishæfni vallarins hve stutt er í góða varaflugvelli. Það skiptir ekki svo litlu máli þegar rætt er um samkeppnishæfni hans.

Ég vil sérstaklega nefna hér í dag, hve allar aðflutningsleiðir að flugvellinum skipta miklu. Vegakerfið að vellinum er gott, og stendur enn til bóta. Umræðan um tvöföldun Reykjanesbrautar hefur lengi verið til staðar, en nú hillir loks undir að framkvæmdir við tvöföldunina hefjist..

Hvað varðar almenningssamgöngur við flugvöllinn, þá má að ósekju segja að þær mættu vera betri. Hótelaðstaða við völlinn er aftur á móti mjög góð, enda stutt í góða þjónustu á því sviði í Keflavík. Að því leytinu til er samkeppnishæfni flugvallarins góð.

Eitt verður þó að hafa í huga, þegar rætt er um samkeppnishæfnina, að umferðin um völlinn er ekki sambærileg við þá flugvelli sem helst hafa verið nefndir, t.d. Kaupmannahöfn og München. Þó er það þannig, að ef í stuttu máli er farið yfir þá gjaldtöku sem á sér stað á vellinum, má þar nefna flugvallarskattinn, lendingargjöldin, innritunargjald, og loks þjónustugjöld vegna allrar afgreiðslu, að samanburðurinn er oft erfiður.

Vissulega má alltaf deila um hvort gjaldtaka hins opinbera í tengslum við flugið sé of há. Þó er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að ef tekið er dæmi af hinni hefðbundu umferð um vegakerfi landsins, þá stendur hún algjörlega undir rekstri þess. Allar nýframkvæmdir, viðhald og þjónusta við vegakerfið er greidd af umferðinni, af notandanum. Þessu fer víðsfjarri í fluginu.

Miklar fjárhæðir eru borgaðar með rekstri flugvallanna í landinu, þannig að sú krafa sem uppi er af ýmsum um lækkun opinberra gjalda er að mínu mati ekki fyllilega sanngjörn þegar litið er til þess hvernig rekstri flugvalla í landinu er háttað og tekna aflað til þess rekstrar.

Fram hafa komið hugmyndir um mishá gjöld, t.d. að lækka þau umtalsvert yfir vetrartímann, þ.e. utan háannar. Ég tel vandséð hvernig standa eigi að þannig regluverki, því sá kostur, að rýra tekjur flugmálaáætlunar er ekki fýsilegur. Þó tel ég koma til greina að frekar verði unnið að markaðssetningu flugvallanna á landsbyggðinni, líkt og Markaðsráð ferðaþjónustunnar gerir nú í sumar í samstarfi við þýska flugfélagið LTU.

Eitt sem ég vil sérstaklega nefna hér, er að stjórnvöld hafa enn frekar aukið samkepnnishæfni vallarins með því að opna fyrir samkeppni á allri afgreiðslu á vellinum í samræmi við EES reglur. Þetta var síðan staðfest með reglugerð sem ég setti í vetur. Þar með ættu að vera enn betri skilyrði fyrir samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar.

Nokkrar deilur hafa verið innan Evrópu vegna þeirrar staðreyndar að nokkur ríki hafa misháa farþegaskatta, annars vegar í innanlandsflugi og hins vegar í millilandaflugi. Sama fyrirkomulag hefur alla tíð verið viðhaft hér á landi.
Nú er svo komið að Eftirlitsstofnun EFTA hefur verið að fara yfir þessi mál, og gert athugasemdir við þessa gjaldtöku, á þeim forsendum að ekki sé heimilt að hafa misháa gjaldtöku eins og hér er. Því er ljóst að fara þarf gaumgæfilega yfir þessi mál og eru þau nú til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu. Ekkert er hægt að segja um það á þessu stigi, hvað kemur út úr þeirri skoðun, en ljóst er að verði að jafna þessa gjaldtöku, er komin upp staða sem gerir það að verkum að stokka gæti þurft upp alla tekjuhlið Flugmálaáætlunar – jafnvel með þeim afleiðingum að koma yrði á flóknu ríkisstyrkjakerfi vegna innanlandsflugsins.

Góðir fundarmenn,
að endingu vil ég undirstrika hve miklu skiptir fyrir samkeppnishæfni flugvallarins að öll öryggismál séu í fullkomnu lagi. Flugöryggismálin hafa verið sérstaklega mikið í umræðunni undanfarin misseri, bæði hér heima sem og erlendis, ekki síst í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september s.l. Nýsamþykkt loftferðalög skerpa enn frekar á öryggiskröfum sem gerðar eru til flugsins.

Sem dæmi má nefna að flugverndaráætlun fyrir Ísland verður staðfest á næstu dögum og í undirbúningi er innleiðing evrópskra reglugerða um flugvernd.

Ég tel, þegar á heildina er litið, að vel hafi verið að málum staðið varðandi Keflavíkurflugvöll af hálfu hins opinbera. Við höfum tryggt að samkeppnishæfni hans sé mjög góð. Með aukinni umferð ætti hagkvæmnin að vaxa og skapast betri skilyrði til að standast verðsamkeppni þeirra flugvalla, sem njóta mikillar stærðarhagkvæmni,G með því að bæta reksturinn og auka tekjur af starfsemi á vellinum.

Það er von mín að ferðaþjónustan og þeir sem sinna flutningum geti náð þeim árangri að auka umferðina um flugvöllinn og styrkja þannig stöðu þeirra fyrirtækja sem starfa á vettvangi flugsins og ferðaþjónustunnar