Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson og atvinnumálaráðherra grænlensku heimastjórnarinnar, Finn Karlsen hafa undirritað ferðamálasamstarf landanna til þriggja ára. Þetta er í fjórða sinn sem slíkur samningur er gerður á milli Íslands og Grænlands. Framlag landanna til samstarfsins er 10 milljónir króna á ári.
Tilgangur samningsins sem nefnist SAMIK – Samstarf Íslands og Kalallit Nunaat, er að auka ferðalög á milli Íslands og Grænlands og hefur þegar verið auglýst eftir umsóknum í sjóðinn, bæði hér á landi og í Grænlandi. Auglýsingin er einnig birt á heimasíðu samgönguráðuneytis.

Sex fulltrúar skipa stjórn SAMIK og hefur samgönguráðherra skipað Birgi Þorgilsson, fyrrv. ferðamálastjóra, Helgu Haraldsdóttur, deildarstjóra og Sigurð Aðalsteinsson, flugmann sem sína fulltrúa í stjórnina.