Þriðjudaginn 18. desember undirrituðu samgönguráðherra, fjármálaráðherra, Hafnarsjóður Seyðisfjarðar og Seyðisfjarðarkaupstaður samkomulag um fjármögnun og tilhögun framkvæmda við nýtt ferjulægi á Seyðisfirði í tengslum við stækkun farþegaferjunnar Norrænu.
Í samkomulaginu er kveðið á um hlutverk og skyldur ríkis og sveitarfélagsins við framkvæmdirnar ásamt kostnaðarskiptingu. Ein af forsendum þess er að gerður hefur verið sérstakur hafnarsamningur milli Hafnarsjóðs Seyðisfjarðar og P/F Smyril line sem rekur farþegaferjuna Norrænu. Samningurinn tryggir Hafnarsjóði Seyðisfjarðar tekjur af rekstri hafnarinnar ásamt því að P/F Smyril line lýsir því yfir að fyrirtækið muni halda uppi siglingum til Seyðisfjarðar næstu árin. Samningur Hafnarsjóðs Seyðisfjarðar og P/F Smyril line var undirritaður 5. desember sl.

Fyrirkomulag fjármögnunarinnar er nýjung hér á landi þar sem tekjustreymi hafnarinnar er tryggt með samningum við þann aðila sem kemur til með að nýta aðstöðuna. Framkvæmdin mun hins vegar einnig nýtast til uppbyggingar á annarri þjónustu á Seyðisfirði enda verður aðstaða til að taka á móti allt að 40 þús. bt. skipum.

Framkvæmdir við ferjulægið er umfangsmikið verkefni. Byggður verður nýr
170 metra langur viðlegukantur með 10 metra dýpi nálægt miðbænum innst í firðinum. Þá verður reist nýtt farþega- og tollafgreiðsluhús og smíðuð ný ekjubrú fyrir bíla og landgangur fyrir farþega. Samhliða verður unnið að holræsagerð á vegum Seyðisfjarðarkaupstaðar og vegaframkvæmdum á vegum Vegagerðainnar til þess að tengja vegakerfið við ferjulægið. Meðal annars verður byggð ný brú yfir Fjarðará og þar með næst bein tenging yfir á Fjarðarhöfn þar sem núverandi ferjulægi er. Í samkomulaginu er kveðið á um að aðilar skuli leita leiða til þess að lækka kostnað við fyrirhugaðar framkvæmdir og taka þátt í sameiginlegu útboði ef það má verða til þess að ná meiri hagkvæmni. Samgönguráðherra hefur stofnað starfshóp undir forystu Siglingastofnunar Íslands með fulltrúum Vegagerðarinnar, Seyðisfjarðarkaupstaðar og
Hafnarsjóðs Seyðisfjarðar. Verkefni starfshópsins er að samræma framkvæmdir þessara aðila við ferjulægið og leita leiða til þess að vinna verkið á sem hagkvæmastan hátt.

Frumkostnaðaráætlanir gerir ráð fyrir 6 – 700 m.kr. kostnaði við heildarframkvæmdir.