Í gær, miðvikudag, í vorblíðunni á Hofsósi, undirritaði ráðherra samning við Vesturfarasetrið. Samningurinn gengur út á það að Vesturfarasetrið muni annast gerð bryggju á Hofsósi sem mun tengjast því hlutverki setursins að sýna þær aðstæður sem ríktu á þeim tíma sem ferðir Íslendinga til Vesturheims stóðu sem hæst.
Samgönguráðuneytið mun leggja safninu til fjórar milljónir króna til þess að unnt sé að standa að gerð bryggjunnar, enda komi staðfest framlög sem tryggi verklok verksins.
Með þessu framlagi vill samgönguráðuneytið leggja sitt af mörkum til eflingar starfi Vesturfarasetursins á Hofsósi, en safnið er hluti af þeirri áætlun íslenskra stjórnvalda að gera staðinn að sérstökum minningar- og þjónustustað fyrir fólk af íslenskum ættum sem býr í Norður-Ameríku.