Skrif mín hér á heimasíðunni um vinnubrögð Helga Laxdal urðu honum tilefni til nýrrar fjölmiðlaútrásar. Helgi Laxdal bregður ekki vana sínum í viðtali við blaðamann Fréttablaðsins sl. laugardag. Þar sannar hann það sem ég hef haldið fram, að málflutningur hans er ekki samboðinn formanni stéttarfélags og augljóst að sannleikanum verður hver sárreiðastur.
Viðtalið við Helga í Fréttablaðinu er með miklum ólíkindum. Málflutningur hans er hinsvegar í samræmi við það sem starfsfólk samgönguráðuneytisins þekkir og hefur mátt þola. Hann leggur mönnum til orð og gjörðir, án þess að nokkur fótur sé fyrir orðum hans, og hikar ekki við að sverta æru manna líkt og hann gerir í viðtalinu þegar hann ásakar mig um að „væna aðra um óheiðarleika“ og „um svindl og svínarí“! Enga slíka orðanotkun getur hann rakið til mín. Með þessum málflutningi og staðhæfingum hefur hann skapað sér einstaka stöðu. Er þetta trúverðugur málflutningur formanns stéttafélags? Ég fæ ekki séð hvernig Helgi ætlar sér að ná árangri fyrir Vélstjórafélagið með þess háttar framkomu. Er ekki líklegt að menn sem beita slíkum málflutningi komi sér úr húsi hjá þeim sem verða fyrir svona vinnubrögðum? Öll hans viðbrögð og allar hans umsagnir um málefni vélstjóra og siglingamál verða skoðuð í því ljósi að skortur á málefnalegri umræðu og vandaðri vinnubrögðum gera hann vart að trúverðugum talsmanni. Á það verður að reyna á næstunni.
Hvað varðar umfjöllun hans um prófkjör þá fer hann með rangt mál og er það honum til lítils sóma.
Það má með sanni segja um samskipti ráðuneytisins við Helga Laxdal að lengi má manninn reyna. Á næstu mánuðum mun koma í ljós hvaða stefnu hann tekur í samstarfi á sviði siglingamála. Það er vonandi að vélstjórar velji með honum í stjórn sína bestu menn. Það mun ekki af veita.
St.B