Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri flutti í dag eftirfarandi ávarp í nafni samgönguráðherra sem gat ekki verið viðstaddur vegna ríkisstjórnarfundar.
Ráðstefnustjóri, ágætu fundarmenn
Sem ráðherra siglingamála vil ég þakka aðstandendum siglingadaga fyrir merkilegt frumkvæði sem þeir sýna og fyrir að hafa leitað eftir samstarfi við nágranna okkar Grænlendinga.
Siglingar eru okkur Íslendingum mikilvægar. Þær eru í raun lykill okkar að mörkuðum heimsins og öllum viðskiptum. Það er því mikilvægt að við séum vakandi fyrir öllum möguleikum okkar til þess að auka umsvif á hafinu og tryggja hagsmuni okkar í flutningum til og frá landinu. Það er í fullu gildi að sjálfstæði okkar er háð því að við getum ráðið siglingum til landsins og viðskiptum við aðrar þjóðir.
Viðskiptafrelsið, sem Jóni Sigurðssyni frelsishetjunni okkar var svo hugfólgið, er því undirorpið að við getum sjálf ráðið för um hafið og tryggt hagkvæmni með frjálsum siglingum. Jafnframt þurfum við að hafa augastað á útrásarmöguleikum okkar í siglingum svo sem með því að huga að opnun norðaustur siglingaleiðarinnar fyrir Norðurheimskautið, en unnið er að því að kortleggja möguleika okkar sem tengjast þeirri siglingaleið, opnist hún. Þegar undirbúningsvinnu er lokið mun samgönguráðuneytið leggja á ráðin hvaða stefnu eigi að taka í því að Ísland geti orðið umskipunarhöfn fyrir stórflutninga milli heimsálfa ef norðausturleiðin opnast.
Í ár förum við Íslendingar með formennsku í Norrænu samstarfi. Í næsta mánuði munum við, ráðherrar samgöngumála Norðurlandanna, eiga fund hér á Íslandi og bera saman bækur okkar í samgöngumálum og þar með í siglingamálum. Það er ekki tilviljun að í ár er lögð sérstök áhersla á Vestur- Norðurlöndin, Færeyjar, Grænland og Ísland í þessu norræna samstarfi. Meðal þess sem á ráðherrafundinum verður til umræðu er hvernig megi auka samskipti milli þessara landa á vettvangi samgangna. Í því skyni var að mínu frumkvæði tekin ákvörðun um það að láta vinna rækilega úttekt og greiningu á samgöngum milli landanna. Tilgangurinn er að bæta samgöngurnar og gera þær hagfelldari.
Var Háskólanum á Akureyri falið það verkefni og munu þeir sem það verk vinna kynna niðurstöður sínar á fundi ráðherranna á Egilstöðum í ágúst n.k. Verður fróðlegt að að heyra hvað kemur úr þeirri vinnu. Ég mun taka ákvörðun um framhaldið að því loknu.
Samgönguráðuneytið íslenska hefur átt mjög gott samstarf við vini okkar og nágranna á Grænlandi. Við höfum átt í samstarfi innan SAMIK, sem er samstarfsvettvangur á sviði ferðamála og við höfum einnig átt gott samstarf á sviði flugmála, en í gildi er samningur milli samgönguráðuneytisins og grænlensku landsstjórnarinnar þar sem veittur er styrkur vegna flugs til Suður Grænlands á milli Reykjavíkur og Narsarsuak.
Eru bundnar miklar vonir við að þessar auknu flugsamgöngur geti eflt ferðaþjónustu í báðum löndunum. Bendir allt til þess að svo geti orðið.
Og einnig þarf að horfa til siglinga til Grænlands héðan frá Ísafirði. Það hefur svo sem verið gert áður að huga að auknum siglingum milli Grænlands og Íslands. Er þess að vænta að við getum tekið höndum saman um að bæta siglingarnar milli landanna, báðum þjóðum til hagsbóta. Vil ég nota þetta tækifæri til þess að lýsa vilja mínum, sem samgönguráðherra, að vinna að samkomulagi milli landanna um siglingar sem gætu verið hagkvæmar. Hljótum við að skoða í því samhengi siglingar frá Ísafirði.
Við leggjum allt traust okkar á skipafélögin íslensku og grænlensku sem hafa mikla reynslu við að sigla milli landanna og hafa sett upp þjónustukerfi, sem byggja verður á. Mun samgönguráðuneytið taka upp viðræður við grænlensku landstjórnina á sömu nótum og við höfum gert á sviði flugsins og ferðamálanna.
Að lokum vil ég fagna þessu frumkvæði sem Ísfirðingar sýna með Siglingadögunum og vænti þess að eiga gott samstarf við þá sem að Siglingadögum standa.