Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tillögur sínar um samgöngur til Vestmannaeyja, í ljósi lokaskýrslu starfshóps sem fjallaði um framtíðarmöguleika í samgöngum við Vestmannaeyjar.
Samgönguráðherra lagði til á ríkisstjórnarfundinum að ferjulægi í Bakkafjöru verði framtíðartenging milli Vestmannaeyja og lands. Lokið verði við nauðsynlegar rannsóknir og undirbúning svo framkvæmdir geti hafist svo fljótt sem auðið er. Áætlað er að á næsta ári fari fram umhverfismat, hönnun og öflun annarra leyfa vegna framkvæmdarinnar.
,,Að teknu tilliti til þeirrar niðurstöðu starfshópsins að ekki sé réttlætanlegt að leggja til að farið verði í frekari rannsóknir varðandi gerð jarðganga milli lands og Vestmannaeyja og þess hversu fýsilegur kostur ferjulægi í Bakkafjöru er miðað við þær rannsóknir sem unnar hafa verði var ekkert því til fyrirstöðu að taka ákvörðun í málinu,”segir samgönguráðherra. ,,Það verður ánægjulegt að sigla milli lands og Eyja á hálftíma árið 2010”.
Þangað til verður hugað að því hvernig best er hægt að tryggja hámarks nýtingu á núverandi samgönguleiðum með þarfir Vestmannaeyinga og ferðamanna að leiðarljósi. Í því sambandi mun samgönguráðherra eiga frekari viðræður við fulltrúa bæjarstjórnar Vestmannaeyja og fara nánar yfir stöðu þeirra mála.