Ég vil þakka ritstjórum Vesturlands fyrir að gefa mér tækifæri til þess að setja nokkrar línur í blaðið sem kemur út á Sjómannadaginn. Vil ég nota tækifærið og senda sjómönnum bestu óskir í tilefni dagsins. Það má með sanni segja að það gefi á bátinn hjá okkur Íslendingum um þessar mundir. Það er því ríkari ástæða til þess en nokkru sinni fyrr að við tryggjum hagsmuni okkar inná við og útá við með því að treysta á  trúverðuga stefnu Sjálfstæðisflokkksins í málefnum þjóðarinnar.

Í  áttatíu ár hefur Sjáfstæðisflokkurinn  átt samleið með þjóðinni. Flokkurinn hefur  ekki skipt um kennitölu líkt og vinstri flokkarnir gerðu eftir að hugmyndafræðin sem þeir reistu allt sitt á hrundi til grunna með Sovétinu og Framsókn riðaði til falls með SÍS.

Undir farsælli forystu tókst okkur að byggja öflugt samfélag

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður  í  heimskreppunni árið 1929. Trúin  á frelsið og einstaklingsframtakið, þar sem stétt vann með stétt, var leiðarljós flokksins strax í upphafi.  Flokkurinn tók þátt í stofnun lýðveldisins, mótaði uppbyggingu eftir síðari heimsstyrjöldina, leiddi inngöngu Íslands í NATO,  hafði forystu í viðreisnarstjórninni, sem varði í heil tólf ár, og sá um  að innleiða frelsi í viðskiptum m.a. með þátttöku  í EFTA samstarfinu. Hann stuðlaði að virkjun fallvatnanna og kom á stóriðjuframkvæmdum. Flokkurinn leiddi baráttuna fyrir útfærslu fiskveiðilögsögu í 200 mílur. Og Sjálfstæðisflokkurinn hafði forystu í ríkisstjórn í heil átján ár  á mesta framfaraskeiði þjóðarinnar þegar við gerðumst aðilar að EES samningnum með Normönnum. Á þeim tíma varð ótrúleg uppbygging innviða á vegum ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Hrein bylting varð á öllum skólastigum í  heilbrigðismálum og samgöngum.  Á mælikvarða allra var staða okkar talin öfundsverð í aðdraganda kosninganna vorið 2007 eftir sextán ára forystu flokksins.

Eftir kosningarnar 2007 var staða Sjálfstæðisflokksins það öflug og staða þjóðarbúsins  slík að Framsókn, Samfylkingin og Vinstri grænir rifust um að koma með okkur í ríkisstjórn. Eftir að stjórnin var mynduð með Samfylkingunni varð Steingrímur J. svo reiður að hann mátti vart mæla og lagði fæð á okkur sjálfstæðismenn  fyrir það að hafa valið Samfylkinguna til samstarfs fram yfir VG. Hann mat aðstæður þannig þá, eftir sextán ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins, að það væri samt sem áður eftirsóknarvert að komast í stjórn með þeim flokki. Samstarfið við Samfylkinguna gekk hins vegar ekki vel og ráðherrar flokksins unnu gegn stjórninni frá fyrsta degi; töluðu niður gjaldmiðilinn, um leið og klifað var á ESB aðild.  Mörg ráðuneyta Samfylkingarinnar voru nánast stjórnlaus og flest verkasmá.

Síðan kom bankahrunið og það fór sem fór í samstarfinu við Samfylkinguna. Þegar á reyndi var Samfylkingin ekki samstarfshæf.  Samfylkingin hljóp frá öllu og sveik okkur sjálfstæðismenn, þjóðina og í raun formann sinn einnig. Viljinn til þess að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn réði þar för. Sú framganga mun lengi verða í minnum höfð. Allt endurmat okkar sjálfstæðismanna  þarf að fara fram í ljósi þess sem hér er dregið fram.
Sjálfstæðismenn eiga ekki að taka því þegjandi að vera kennt um heimskreppuna og  glannaskap og bruðl bankamanna sem kunnu ekki fótum sínum forráð í frelsi hins evrópska regluverks sem átti að tryggja okkur fyrir óvæntum áföllum. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið virtust ekki standa vaktina eða koma aðvörunarorðum til þeirra sem þurftu viðvörun eða traustar og réttar upplýsingar. Það er mjög alvarlegt að Alþingi var haldið óupplýstu um þær alvarlegu horfur um stöðu bankanna sem ráðherrum hafði verið kynntar.

Andstæðingar okkar sjálfstæðismanna reyna að kenna hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um hrun bankanna og kreppuna alla. Framtíðin mun leiða það sanna í ljós þegar Rannsóknarnefnd Alþingis hefur unnið sitt verk. Það liggur hinsvegar fyrir að það voru alvarleg pólitísk  mistök að ganga til samstarfs við Samfylkinguna. Ég var á móti því á sínum  tíma og lýsti þeirri skoðun minni við formann og varaformann flokksins á fundi sem þau áttu með ráðherrum  flokksins  eftir kosningarnar vorið 2007. Ég taldi að við ættum að láta reyna á viðræður við VG. Það var því miður ekki gert. Þessa afstöðu opinberaði ég ekki af  hollustu við formanninn sem hafði umboðið til stjórnarmyndunar.

Evrópusambandið og hagsmunir Íslands
Stærsta verkefni  stjórnmálamanna okkar verður um sinn að fást við afleiðingar kreppunnar og þau vandræði sem fylgja í kjölfarið á henni. Samfylkingin  telur að leysa megi allan okkar vanda með því að ganga í Evrópusambandið. Það er mikið ofmat enda liggur ekkert annað fyrir en að við verðum að undirgangast ákvæði Rómarsáttmálans er varðar yfirráð auðlinda og stjórn fiskveiðanna. Samfylkingin virðist vera tilbúin að fórna öllu til þess að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu.  Sjálfstæðisflokkurinn verður að berjast gegn vinnulagi Samfylkingarinnar í þessu máli og koma í veg fyrir að við göngum til samninga undir forystu hennar. Að mínu mati er engum af núverandi þingmönnum Samfylkingarinnar treystandi fyrir því að halda á hagsmunum okkar gagnvart Evrópusambandinu.  Það blasir við öllum sem vilja sjá að forystumenn Evrópusambandsins eru komnir á stjá til þess að lokka okkur til samninga á forsendum Samfylkingarinnar. Sett eru fram gylliboð í sjávarútvegsmálum sem ekki er vert að treysta. Við verðum að vera á verði og umfram allt snúast til varnar gegn Evrópusambandsdekrinu og alvarlegri atlögu að grunnatvinnuvegum okkar sem eru kjölfestan í Norðvesturkjördæmi.

Og nýjasta útspil forsætisráðherra er að verðtryggingu fjárskuldbindinga megi fella niður ef gengið verður inn í Evrópusambandið.  Ómerkilegri málflutningur hefur ekki verið viðhafður  í íslenskum stjórnmálum. Það er von mín að sjálfstæðismenn á Alþingi haldi vöku sinni. Þar er verk að vinna.