Efna á til sjö borgarafunda á morgun, fimmtudaginn 14. september kl. 17.15. Tilefnið er alda umferðarslysa að undanförnu og er yfirskrift fundanna sem verða haldnir á sama tíma: Nú segjum við stopp.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur ákveðið að herða á ýmsum aðgerðum á sviði umferðaröryggismála í kjölfar tíðra slysa í umferðinni. Í ár hafa 19 manns látist í umferðarslysum, jafnmargir og allt síðasta ár. Fundaherferðin hefur verið skipulögð af samgönguráðuneyti og Umferðarstofu í samstarfi við ýmsa aðila sem láta sig umferðaröryggismál varða.

Borgarafundirnir verða haldnir í Reykjavík, Reykjanesbæ, á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Ísafirði og í Borgarnesi. Markmið þeirra er að hvetja almenning í landinu til þess að hugleiða þær fórnir sem umferðin krefst og drúpa um leið höfði í virðingu við þá sem látið hafa lífið í umferðarslysum á árinu.

Sturla Böðvarsson flytur ávarp á fundinum í Reykjavík. Sama ávarp verður lesið á hinum fundunum og verða þeir allir með sama sniði. Auk ávarps ráðherra verða flutt stutt erindi fólks sem hefur upplifað það áfall og þá sorg sem fylgir alvarlegum slysum í umferðinni og lögreglu- eða sjúkraflutningamenn munu lýsa reynslu sinni af vettvangi. Þá verður flutt tónlist og fundunum lýkur með bæn.

Á fundunum verður kynnt vefsíða þar sem unnt er að skrá nafn sitt undir heit um bætta hegðan í umferðinni og í Reykjavík mun samgönguráðherra skrifa nafn sitt á síðuna svo og fulltrúar annarra stjórnmálaflokka.

Í Reykjavík fer fundurinn fram í Hallgrímskirkju, í Borgarnesi í Borgarneskirkju, í Ísafjarðarbæ í Ísafjarðarkirkju, á Akureyri í Akureyrarkirkju, á Egilsstöðum í sal Menntaskólans, á Selfossi í sal Fjölbrautaskólans og í Reykjanesbæ í Stapanum.