Herrar mínir og frúr.

Fyrst vil ég leyfa mér að þakka þann heiður sem mér og konu minni  er sýndur með því að vera hér viðstaddur í dag þegar skipi Samskipa er gefið nafnið Arnarfell. 

Ég vil  jafnframt óska frú Ingibjörgu Kristjánsdóttur til hamingju með glæsilega og eftirminnilega athöfn við að gefa skipinu nafn.

Það er fátítt að samgönguráðherra frá Íslandi fái tækifæri til þess að vera viðstaddur þegar tekið er á móti nýju flutningaskipi í eigu íslensks skipafélags. Ég vil því færa eigendum skipafélagsins Samskipa  hamingjuóskir frá íslenska samgönguráðuneytinu. Ég vona að hið nýja skip megi sigla án áfalla  um heimsins höf og skipið verði farsæll farkostur þeirri áhöfn sem skipinu mun stýra milli stranda.
Skipið ber handverki og hönnun þýskra skipasmiða gott vitni og er ástæða til þess að óska skipasmíðastöðinni til hamingju með glæsilegt skip.

Við Íslendingar eigum mikið undir því að siglingar til og frá landinu séu tryggar og hagkvæmar. Sjálfstæði okkar hefur ekki síst verið háð því að verslun væri frjáls og siglingar tryggar. Við Íslendingar fögnum því framtaki öflugra skipafélaga sem tengja Ísland við megin markaði veraldar og flytja til okkar nauðsynleg  aðföng frá öðrum löndum.

Það er von mín að samstarf íslenskra skipafélga og þýskra skipasmíðastöðva megi verða til  þess að ítrasta öryggis sé jafnan gætt í siglingum til og frá  Íslandi og áhafnir þeirra skipa sem Íslandi þjóna njóti besta aðbúnaðar svo sem þetta  glæsilega skip gefur vissulega vonir um.

Megi gæfan fylgja för þessa skips.

Ræðuna á ensku má finna hér.