Gallup hefur birt skoðanakönnun sem framkvæmd var dagana 28. nóvember til 29. desember s.l. Samkvæmt henni er staða Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mjög sterk og fengi Sjálfstæðisflokkurinn fjóra þingmenn kjörna ef kosið væri núna.

Samfylkingin fengi þrjá
þingmenn, Framsóknarflokkurinn fengi tvo og Vinstri grænir einn þingmann. Skoðanakönnunin er mikilvæg vísbending um styrk þeirra frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og virðist sem deilur um prófkjörið og eftirmáli þess hafi síður en svo veikt frambjóðendur og flokkinn í hugum kjósenda.

Það fer ekki á milli mála að skoðanakönnunin er sterk vísbending til sjálfstæðismanna í kjördæminu um að flokkurinn sé á réttri leið og að kjósendur ætli að fylkja sér um þá einstaklinga sem völdust í forystusveit flokksins í kjördæminu. Það er fagnaðarefni fyrir undirritaðan, sem gefið hefur kost á sér til þess að leiða Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu í komandi kosningum. Vonandi verður útkoma þessarar skoðanakönnunar til þess að þjappa sjálfstæðismönnum saman til frekari átaka og samstöðu í þágu íbúa kjördæmisins.