Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær fjallar Sturla Böðvarsson um mikilvægi siglingaöryggismála fyrir Íslendinga. Í því samhengi sker ráðherrann upp herör gegn vanbúnum skipum sem sigla um strendur landsins. Grein samgönguráðherra er eftirfarandi:


Skorin upp herör gegn vanbúnum skipum

Á vettvangi siglingaöryggismála er um þessar mundir mikið rætt og ritað um siglingar og hafnavernd. Árlega farast þúsundir sjófarenda sem sigla um höfin og við strendur landa. Hafið tekur þennan mikla toll af þeim sem nýta sér siglingar. Um er að ræða bæði farmenn, fiskimenn og farþega sem margir hverjir eru óafvitandi að sigla á vanbúnum undirmálsskipum, sem ættu ekki að vera á siglingu, oft við erfiðar aðstæður á hafsvæðum þar sem allra veðra er von.

Við Íslendingar eigum mikið undir siglingum og sjómennsku. Því er okkur mikilvægt að fylgjast vel með því sem er að gerast á alþjóðavettvangi á sviði siglingaöryggismála. Þess vegna þurfum við að halda uppi ströngu eftirliti með þeim skipum sem sigla í lögsögu okkar og koma til hafna. Liður í því að tryggja öryggi í siglingum á hafinu er svokallað hafnaríkiseftirlit en Ísland er aðili að samþykktinni um hafnarríkiseftirlit.

Í byrjun nóvember var efnt til fundar í Vancouver í Kanada um hertar aðgerðir gegn vanbúnum skipum, sem í skjóli hentifána sigla án þess að forsvaranlegt eftirlit sé með viðhaldi þeirra, þjálfun áhafna og endurnýjun búnaðar. Til þessa fundar voru boðaðir ráðherrar siglingamála þeirra landa sem staðfest hafa samþykktir um hafnaríkiseftirlit auk fulltrúa alþjóðastofnana á sviði siglingamála. Var undirrituð yfirlýsing þar sem aðildarþjóðirnar herða enn á áformum sínum og aðgerðum til að tryggja öryggi sjófarenda með svokölluðu hafnarríkiseftirliti.

Árlega ferst fjöldi skipa sem valda mengun hafs og stranda. Fáar þjóðir eiga jafn mikilla hagsmuna að að gæta í siglingaöryggismálum og Íslendingar. Í hafnir landsins koma árlega um 350 skip. Flest eru sem betur fer í góðu lagi og um borð vel menntaðar og vel þjálfaðar áhafnir. Hafnarríkiseftirlitið kannar ástand skipa og stundum eru skip sett í farbann. Í Vancouver samþykktinni er gert ráð fyrir að herða enn eftirlitið með undirmálsskipum en þau finnast á öllum skipaleiðum. Þjónusta þeirra er ódýr og margir freistast til að taka tilboðum um flutning með þeim. Svokölluð útflöggun flutningaskipa er að verða regla fremur en undantekning. Útflöggun þýðir að skipafélög skrá flota sinn hjá ríkjum sem talin eru gera minni kröfur um eftirlit og réttindi sjómanna. Það kemur síðan í hlut ríkja, sem eiga allt undir siglingum og öruggum og góðum höfnum, að fylgjast með þeim skipum sem sigla í efnahagslögsögu þeirra og nota hafnirnar. Eins og tölur um látna sjófarendur sýna er um að ræða mjög alvarlegt viðfangsefni. Fylgifiskur undirmálsskipa er aukið álag á björgunarsveitir sem oft eru sjálfboðaliðar og taka á sig mikið starf í samræmi við hugsjónir slysavarna- og björgunarfélaga.

Í samræmi við alþjóðlegar skyldur okkar hefur hafnarríkiseftirlitið verið eflt í þeim tilgangi að tryggja þá hagsmuni okkar sem felast í öryggi skipa sem við landið sigla og til að varna mengun hafanna sem vissulega fylgir sjóslysum.

Yfirskrift Vancouver yfirlýsingar aðildarríkjanna er ,,Styrkja skal feril ábyrgðar“ (Strenghtening the circle of responisbility). Yfirlýsingin miðar að því að koma í veg fyrir að undirmálsskip sigli um höfin. Í þessu sambandi var einkum skírskotað til ábyrgðar og hlutverks fánaríkja, flokkunarfélaga, farmeigenda, tryggingarfélaga, banka, Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Samkvæmt yfirlýsingunni skal m.a. vinna að bættu upplýsingastreymi á milli aðila um skip og aðgerðir. Stefnt er að því að vinna upplýsingar, greina áhættuskip, og einbeita kröftum að því að skoða þau en hlífa þeim útgerðum sem eru þekktar af því að hafa hlutina í lagi.

Í samþykktinni leggja ríkin einnig áherslu á að framfylgja alþjóðasamþykktum sem er beint gegn þreytu og of miklu vinnuálagi. Þá er komið inn á mikilvægi siglingaverndar og sammælast ríkin um að framfylgja nýjum kröfum af fullum þunga. Ríkin lýsa einnig yfir vilja sínum til þess að framfylgja ýmsum nýjum samþykktum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, sem beint er gegn mengun. Geta má þess að mörg ríki komu inn á nauðsyn þess að fylgjast vel með olíuflutningaskipum og einnig að skilgreina tiltekin hafsvæði sem viðkvæm svæði fyrir skipaumferð. Loks miða ríkin við að leggja Alþjóðasiglingamálastofnuninni lið við að útfæra væntanlegar úttektir hennar á skoðunarstörfum aðildarríkja sinna.

Í ræðu minni fyrir Íslands hönd vakti ég athygli á mikilvægum atriðum samþykktarinnar og hvatti ríkin til að framfylgja ákvæðum hennar varðandi staðfestingu alþjóðasamþykkta um kröfur til fiskiskipa. Ráðstefnan var vel sótt og lýstu öll ríkin yfir stuðningi sínum við yfirlýsingu hennar.

Starfsmenn Siglingastofnunar hafa það vandasama hlutverk að fylgja eftir þeim reglum sem settar hafa verið. Ég vænti þess að íslenskir útgerðarmenn og sjómenn sýni því verkefni skilning. Það varðar framtíðar hagsmuni atvinnulífs okkar jafnt í siglingum, fiskveiðum sem í iðnaði. Við Íslendingar eigum allt undir traustum og öruggum siglingum til landsins. Það er þess vegna sem við eigum að skera upp herör gegn siglingu vanbúinna skipa við strendur landsins.