Afstaða Jóhanns Ársælssonar þingmanns Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi til landbúnaðarmála hefur stundum verið undarleg, ekki síður en skoðanir hans í sjávarútvegsmálum.
Jóhann skrifar grein í blað Samfylkingarinnar á Norðvesturlandi um „Miðstöð rannsókna í landbúnaði“. Fer hann mikinn í tilraunum sínum til þess að snúa út úr orðum mínum í ræðu, sem ég flutti við opnun nýja skrifstofuhússins á Hvanneyri nú nýverið. Þar lýsti ég því hversu vel hafi verið að verki staðið hin síðustu ár, undir forystu Magnúsar B. Jónssonar, við að uppbyggingu háskóla og rannsóknasamfélags á Hvanneyri. Lýsti ég þeirri skoðun minni að færa ætti allar rannsóknir í landbúnaði að Hvanneyri. Aðstaða og umhverfi væri þar til staðar til þess að taka við starfseminni sem nú væri á Keldnaholtinu. Höfuðborgarsvæðið væri nánast í túnfætinum á Hvanneyri og því ætti færsla rannsókna að Hvanneyri að geta verið hagkvæm fyrir borgina.

Með flutningi RALA að Hvanneyri mundi losna land til bygginga. Það gæti frelsað okkur frá því að Vatnsmýrin væri tekin undir byggð og þar með Reykjavíkurflugvöll. Sem samgönguráðherra væri ég því fylgjandi að létta pressunni af byggingarlandi í Vatnsmýrinni. Hvatti ég þingmenn til þess að standa saman um þá stefnu að efla Hvanneyri með uppbyggingu rannsókna. Ég er, og hef verið, viss um að þingmenn Norðvesturkjördæmis myndu standa saman um það að efla Hvanneyri með því að færa rannsóknir þangað. Það fólst engin ógnun í orðum mínum gagnvart þingmönnum líkt og Jóhann lætur í veðri vaka, hvorki í ræðunni né í viðtali í Skessuhorni, enda hafði ég ekki rætt þetta mál sérstaklega við þingmenn. En ræða mín var hvatning til allra sem að málum koma um að efla Hvanneyri, sem ég hef raunar mikla trú á. En Jóhann tekur sér skáldaleyfi og setur upp kenningu um hvernig lesa megi samsæri úr orðum mínum og telur sig verða að bregðast við og bjarga sínum heiðri og annarra þingmanna með því að boða til flutnings á þingsályktunartillögu um málið. Auðvitað er það aðferð Jóhanns til þess að gera ráðherrann í þingmannaliðinu tortryggilegan.

Eins og þekkt er þá er það heldur óvenjulegt eða nær fátítt að menn skori á sjálfan sig. Þingsályktanir ganga venjulega út á það að Alþingi skorar á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra. Tillaga Jóhanns felur það í sér að „Fela ríkisstjórninni að flytja hluta af starfsemi Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins við Keldnaholt til Landbúnaðarháskólans að Hvanneyri samkvæmt sérstakri áætlun sem ríkisstjórnin skal gera þar um“. Það er í fyllsta máta óeðlilegt að bjóða mér, sem ráðherra í ríkisstjórninni, að vera meðflutningsmaður að slíkri tillögu. Þannig geta menn séð hver alvaran er í þessu upphlaupi Jóhanns Ársælssonar. Færsla RALA og rannsókna til Hvanneyrar verður ekki unnin með þingsályktunartillögum. Það verk verður að vinna skipulega innan landbúnaðarins og á vettvangi landbúnaðarráðuneytisins með því að efla Hvanneyri á öllum sviðum og búa í haginn á staðnum. Fyrsta skrefið ætti að vera að fella RALA undir starfsemina á Hvanneyri og þróa starfsemina saman. Þannig mundi það gerast, en ekki með aðferðum Jóhanns Ársælssonar. Þess ber þó að geta að þetta mál er ekki nýtt. Sá ágæti fyrrverandi þingmaður, Davíð Aðalsteinsson frá Arnbjargarlæk, flutti um það tillögu á Alþingi á sínum tíma. Við Jóhann erum því ekki fyrstu áhugamennirnir um að efla Hvanneyri sem rannsókna- og háskólasetur.