Föstudaginn 14. febrúar síðastliðinn var undirritað samkomulag um gerð skýrslu um áhrif Hvalfjarðarganga á búsetuþróun og –skilyrði á Vesturlandi. Að verkefninu standa Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Samgönguráðuneytið, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Vegagerð ríkisins, Spölur og Byggðastofnun. Stefnt er að verklokum fyrir júnílok 2003.

Það hefur lengi legið fyrir að Hvalfjarðargöng hafa mikil áhrif á Vesturlandi. Ekki einungis á svæðin næst þeim heldur einnig og ekki síður þau sem fjær eru. Í skýrslunni verður reynt að svara spurningum um vannýtt atvinnutækifæri og áhrif á mannlíf svæðanna í víðasta skilningi. Freistast verður til þess að nota vísindalegar aðferðir; verkfræði, hagfræði og félagsfræði, til að mæla þessi áhrif og vonandi geta þeir sem að verkefninu standa notað niðurstöður þess til að stýra jákvæðum þáttum til framfara í framtíðinni og draga úr neikvæðum þáttum.

Framkvæmd verkefnisins verður í höndum verkefnisstjórnar sem fulltrúar samningsaðilanna skipa. Verkið verður að mestu unnið af Atvinnuráðgjöf Vesturlands. Ólafur Sveinsson mun stýra því en um fræðilega vinnslu sér Vífill Karlsson. Hugmynd að vinnslu þessa verkefnis er komin frá Gísla Gíslasyni bæjarstjóra og formanni Spalar.

Heimild : www.akranes.is


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Undirritun samkomulagsins 14. febrúar síðastliðinn