Samgönguráðherra hefur lagt fyrir Alþingi skýrslur um framkvæmd flugmálaáætlunar fyrir árin 2002 og 2003. Skýrslurnar eru viðamiklar heimildir um þær miklu framkvæmdir, sem hafa staðið yfir á flugvöllum landsins og þá einkum Reykjavíkurflugvelli.

Þegar litið er á þróun fjárveitinga samanber súlurit á bls. 26 í skýrslunni 2002, þá sést að á síðasta kjörtímabili hefur orðið stökkbreyting hvað varðar fjárveitingar til framkvæmda á flugvöllum. Má glöggt sjá það á frágangi á Reykjavíkurflugvelli. Með endurbyggingu flugbrauta fylgir frágangur innan vallarsvæðisins og endurnýjun girðinga um völlinn með öryggishliðum og öðrum búnaði. Og aukinni gæslu sem nú fylgir hertum öryggiskröfum.

Má með sanni segja að ný og breytt mynd blasi við í Vatnsmýrinni eftir endurbyggingu flugvallarins. Var það verk vissulega tímabært. Það er von undirritaðs að hinir fjölmörgu starfsmenn við ferðaþjónustu sem og farþegar kunni að meta þessar umfangsmiklu aðgerðir samgönguyfirvalda í þágu flugsins á Íslandi.