Fyrr í dag hélt samgönguráðherra blaðamannafund í Bláa lóninu til að kynna nýútkomna skýrslu um heilsutengda ferðaþjónustu.
Um síðustu áramót skipaði samgönguráðherra nefnd um heilsutengda ferðaþjónustu.
Formaður nefndarinnar var Anna G. Sverrisdóttir, rekstrarstjóri Bláa Lónsins en í nefndinni voru einnig Guðrún Bergmann, framkvæmdastjóri, Guðmundur Björnsson, yfirlæknir, Knútur Óskarsson, framkvæmdastjóri Come-2 Iceland, Ómar Einarsson, framkvæmdastjóri ÍTR og Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands.

Fékk nefndin það verkefni að gera tillögur til ráðherra varðandi framtíð heilsutengdrar ferðaþjónustu enda uppbygging hennar eitt þeirra áhersluatriða sem ríkisstjórnin setti fram í stefnuyfirlýsingu sinni.

Nefndin byggði störf sín m.a. á starfi annarra nefnda sem fjallað hafa um sama efni, m.a. á vegum heilbrigðisráðuneytis og á stefnumótun samgönguráðuneytis í ferðamálum. Í stefnumótuninni segir: Stefnt skal að því að auka ferðamennsku í tengslum við heilsubót og heilbrigði, þar sem lögð verður áhersla á þá þætti þar sem Ísland hefur sérstöðu,, einnig að hefja markaðssetningu á almennri heilbrigðisþjónustu.

Í lokaskýrslu nefndarinnar koma fram fjölmargar tillögur um hvernig auka megi veg heilsutengdrar ferðaþjónustu m.a. með umbótum í mennta- og umhverfismálum en þeir ferðamenn sem notfæra sér heilsutengda feðarþjónustu í fríum sínum eru ákaflega kröfuharðir hvað þjónustu og allt ytra umhverfi varðar.

Mikið er fjallað um ímynd landsins og lögð áhersla á að ísland verði skilgreint og auglýst erlendis sem “heilsuland”. Nauðsynlegt er að huga frekar að rannsóknum á eiginleikum vatns, kísils og leirs hér á landi og að til samstarfs komi með ferðamálayfirvöldum og Orkustofnun á þessu sviði.

Fjölmargar fleiri tillögur koma fram í skýrslu nefndarinnar, m.a. er fjallað um flokkun heilsubaða, vöruþróun innan heilsutengdrar ferðaþjónustu, vörumerki landsins, gæðamál, íþróttir og útivist. Samgönguráðherra mun senda Markaðsráði ferðaþjónustunnar og Ferðamálaráði tillögur nefndarinnar til frekari úrvinnslu og eftirfylgni.

Í samræmi við tillögur nefndarinnar hefur samgönguráðherra ákveðið að efna til sérstakra hvatningarverðlauna í heilsutengdri ferðaþjónustu.

Skýrslan í heild sinni er HÉR (Adobe Acrobat skjal).