Skýrsla Umferðarstofu um umferðarslys á síðasta ári var kynnt á blaða-mannafundi í dag. Sturla Böðvarsson samgöngu-ráðherra sagði við það tækifæri að slysin á síðasta ári hefðu verið of mörg og ekki í samræmi við markmið umferðar-öryggisáætlunar um fækkun slysa. Í fyrra lést 31 í 28 slysum en árið 2005 létust 19 manns í 16 slysum. Í fyrra slösuðust 153 alvarlega en þeir voru 129 árið 2005. Tvöfalt fleiri karlar en konur slösuðust í fyrra.

Fram kemur í skýrslu Umferðarstofu að 23 þeirra sem létust í fyrra hafi verið bílstjórar eða farþegar í bílum, fjórir gangandi vegfarendur, þrír á bifhjólum og einn hestamaður. Í greiningu á orsökum banaslysanna kemur fram að 13 hafi látist þar sem of mikill hraði var meðal orsaka og að átta manns hafi látist þar sem ölvunarakstur kom við sögu. Þá létust 9 manns, ökumenn eða farþegar, sem ekki voru með bílbelti en í fjórum tilvikum liggur ekki fyrir hvort bílbelti voru notuð.

Í ávarpi sínu við kynningu skýrslunnar sagði samgönguráðherra meðal annars að leita verði áfram allra leiða til að draga úr áhrifum slysa. Nauðsynlegt sé að vinna áfram að því að bæta mannvirkin og gera umhverfi vega þannig úr garði að það auki ekki áhættu heldur dragi úr áhrifum slysa. ,,Og ég segi við þurfum að halda áfram aðgerðum vegna slysavarna og ég legg áherslu á þetta – að halda áfram. Ýmislegt hefur sem betur fer verið gert. Við höfum eflt stórlega eftirlit á þjóðvegum og hert viðurlög við brotum. Við höfum eflt áróður og fræðslu. Við höfum breytt hönnunarforsendum við vissar aðstæður við vegi og tekið upp nýja gerð vegriða.

En eitt stærsta atriðið í alltof mörgum orsökum umferðarslysa er kannski það erfiðasta viðureignar: Hegðunin. Af hverju hegðum við okkur ekki betur í umferðinni? Ef hegðun okkar myndi lagast og áhrif betri hegðunar bætast við áhrif af betri mannvirkjum, meiri þekkingu og meira aðhaldi þá værum við á betri braut í umferðaröryggismálum. Að því skulum við stefna.”

Skýrsluna í heild sinni má finna hér