Snæfellingar búa við þá kosti af náttúrunnar hendi að ein bestu fiskimið landsins eru við túnfótinn og náttúrufegurðin er þvílík að ferðaþjónustan er næst stærsti atvinnuvegur héraðsins.

Lengi vel hömluðu samgöngur þróun byggðar en nú hefur orðið sú bylting í samgöngumálum að ekki er lengur hægt að kvarta undan samgöngum við Snæfellsnes þrátt fyrir það að sitthvað sé ógert.

Þau tímamót urðu 13.desember að ný brú var opnuð á nýjum vegi yfir Kolgrafafjörð. Þetta er mikið mannvirki sem lengi hefur verið beði eftir. Undirritaður þekkir vel til á Nesinu og hefur verið þátttakandi í því lengi að leggja á ráðin um vegagerð á svæðinu. Árum saman hafði verið togast á um hvaða leið ætti að byggja upp fyrst, að norðan eða sunnan. Sem alþingismaður og samgönguráðherra lagði ég áherslu á nokkrar megin leiðir sem nú hafa að mestu orðið að veruleika.

Í fyrsta lagi að leggja veg á sunnanverður Nesinu allt inn í þjóðgarðssvæðið. Að ljúka við nýjan veg fyrir Búlandshöfða. Að leggja nýjan veg yfir Snæfellsness fjallgarðinn um Vatnaheiði. Að brúa Kolgrafafjörð með nýjum vegi frá Berserkseyri að Eiði. Að gera lagfæringar á vegi um Fróðárheiði.

Allt þetta hefur náð fram að ganga og fer ekki á milli mála að Snæfellingar eru sáttir við þessa hröðu framvindu í vegabótum. Eins og fyrr sagði er Snæfellsnes að verða eitt vinsælasta ferðamannasvæði á landinu. Eyjar Breiðafjarðar, Snæfellsjökullinn og þjóðgarðurinn eru þar megin aðdráttaraflið fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Það blasir því við að næsta framkvæmd á svæðinu verður að leggja Útnesveg í gegnum Þjóðgarðinn sem hefur sjálfan Snæfellsjökul í miðju sinni. Með Útnesvegi er byggðin innan Snæfellsbæjar vel tengd.

Með brúnni á Kolgrafafjörð er ljóst að Snæfellingar munu nota norðurleiðina sem heilsársveg enda er einungis um átta kílómetra munur á leiðunum að sunnan og norðan en um fjallveginn Fróðárheiði að fara ef norðurleiðin er valin. Norðurleiðin er því ekki síður fljótfarin en umfram allt öruggari. Það er ástæða til þess að fagna góðum áfanga sem ekki síst nýtist nemendum sem sækja nú framhaldsskóla Snæfellinga.

Fyrir áhugasama þá er hér að finna kort sem sýnir vegalengdir til nokkurra staða á Snæfellsnesi.