Til eru þeir íslenskir fjölmiðlamenn sem leika þann leik að búa til „fréttir“ og setja af stað, án þess að fyrir þeim sé nokkur stoð í veruleikanum. Oftast beinist þessi frásagnargleði að stjórnmálamönnum sem sjaldnast vilja elta ólar við tilbúnar fréttir. Fyrir suma virðist þetta skemmtiefni.
Fyrir þá sem verða fyrir barðinu á slíkri háttsemi er það heldur hvimleitt, og aðstendur fórnalamba sögusagna verða fyrir óþægingum og aðkasti. DV og Fréttablaðið keppast við að segja þessar „ekki“ fréttir og komið hefur fyrir að Stöð 2 leyfi sér slíkan „fréttaflutning“. Og nú er Viðskiptablaðið komið í hóp prentmiðla sem leyfa sér að segja ósannar fráttaskýringar á síðum blaðsins. Er leitt til þess að vita, vegna þess að blaðið hefur verið að skapa sér þá stöðu að teljast trúverðugt og faglegt í sinni umfjöllun. Dæmi um þessar frásagnir fréttamanna sem enginn fótur er fyrir er frásögn um að ég stefni að því að verða vegamálstjóri. Viðskiptablaðið notar þessa sögu til þess að skýra einkunnagjöf í mati blaðsins á frammistöðu ráðherra. Lætur blaðið að því liggja að ég hyggist hætta stjórnmálaafskiptum, en ekki finnist staða fyrir mig. Í aðdraganda prófkjörsins var sett af stað sú flugufregn að ég stefndi að því að verða vegamálatjóri, en í þá stöðu hef ég sem samgönguráðherra skipað mætan mann. Það er skemmst frá því að segja að ekkert er hæft í þessari sögu. Það hefur ekki komið til greina af minni hálfu að „skipa“ sjálfan mig í þess stöðu, enda hef ég lagt áherslu á það að fá tækifæri til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í næstu kosningum og hef hvergi gefið til kynna að ég hyggist hætta í stjórnmálum. Í viðtali við Skessuhornið sem kom út fyrir jólin svaraði ég spurningu blaðamanns varðandi þessar sögur um væntanlegan vegamálstjóra.