Þorvaldur Hjaltason, framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir nokkru. Þar fjallaði hann um samgöngumál með þeim hætti að ekki verður undan því vikist að fjalla um málið frá sjónarhóli samgönguráðherra.  

Inntak greinar framkvæmdastjórans var að samgönguráðherra stæði gegn samgöngubótum í þágu Sunnlendinga. Slík skrif eru að jafnaði ekki svara verð en í ljósi þess að framkvæmdastjórinn skrifaði í nafni sveitarfélaganna er nauðsynlegt að skýra stöðu mála fyrir lesendum og ekki síst Sunnlendingum.

Fjárlög ráða för


Ég geri ráð fyrir því að framkvæmdastjórinn átti sig á því að það þarf fjármuni til framkvæmda í vegagerð. Ríkisstjórnin leggur meginlínur um skiptingu ríkisútgjalda eftir málaflokkum sem Alþingi afgreiðir síðan endanlega með fjárlögum. Við gerð Samgönguáætlunar er að sjálfsögðu miðað við fjárlög og langtíma áætlun um fjárlög þegar fjármunum er skipt milli verkefna í vegagerð.

Ég geri líka ráð fyrir því að sveitarfélög á Suðurlandi verði með sama hætti að semja sig að siðaðra manna háttum í stjórn fjármála og miða við löglegar tekjur til útgjalda en ekki óskhyggju svo gera megi allt fyrir alla.

Mér er vel ljóst að mörg verkefni við vegagerð bíða úrlausnar á Suðurlandi. Það gildir einnig um alla aðra landshluta. Til þess að gefa lesendum mynd af því stóra verkefni að tvöfalda Suðurlandsveg frá Reykjavík til Selfoss vil ég setja upp meðfylgjandi yfirlit. Rétt er að árétta þá stefnu, sem ég hef markað, að leggja eigi veginn sem svokallaða 2+1 veg með vegriði, sem aðgreinir akstursstefnur, svo fyllsta öryggis sé gætt. Eftir þeirri stefnu vinnur Vegagerðin. Geri ég ráð fyrir að því marki verði náð á gildandi áætlunartímabili. Er unnið að framkvæmdum við fyrsta áfanga með nýrri braut um Svínahraun. Í framtíðinni verður þessi hluti hringvegar væntanlega tvöfaldaður með sama hætti og Reykjanesbraut og Sundabraut.. Fyrsti áfangi þessa stóra verkefnis verður leiðin milli Hveragerðis og Selfoss ásamt nýrri brú á Ölfusá.

Kostnaður við fjórar akreinar


Leiðin frá Rauðavatni að Selfossi er um 45 km löng. Miðað við reynslutölur Vegagerðarinnar frá Reykjanesbraut má áætla að kostnaðurinn við hvern km við tvöföldun sé a.m.k. 100 m.kr. þar sem aðstæður eru svipaðar. Síðan þarf að bæta við kostnaði við brýr og ræsi, lagningu vegar á mýrarkafla og heildarkostnaður yrði því um fimm milljarðar króna eingöngu við gerð vegarins sjálfs.

Ef farið verður í að tvöfalda veginn væri eðlilegt að gera þá kröfu að öll vegamót verði mislæg eins og á Reykjanesbrautinni. Einnig þyrfti þá að fækka vegamótum miðað við það sem nú er, sem mundi kalla á gerð einhverra hliðarvega. Ekki er til skipulag af tengingum miðað við að á honum verði mislæg gatnamót, en búast má við því að gatnamót yrðu a.m.k. á eftirtöldum stöðum:



  • T-gatnamót við Heiðmerkurveg

– Krossgatnamót við Hafravatnsveg


  • – Krossgatnamót austan við Hólmsá


  • – T-gatnamót við Bláfjallaveg


  • – Krossgatnamót við Litlu kaffistofuna


  • – Krossgatnamót við Skíðaskála – Hellisheiðarvirkjun


  • – Krossgatnamót við Hveragerði


  • – Tvenn krossgatnamót á kaflanum Hveragerði – Biskupstungnabraut.

Samtals eru þetta sjö krossgatnamót og tvenn T-gatnamót.

Gert er ráð fyrir að mislæg krossgatnamót kosti um 200 – 300 m.kr. en mislæg T-gatnamót um 150-200 m.kr. Samtals má því áætla að kostnaður við gatnamót á Suðurlandsvegi gæti numið rúmum tveimur milljörðum króna.

Gera þarf safnvegi við hlið Suðurlandsvegar og gæti sá kostnaður numið a.m.k. 200 m.kr. og aukakostnaður við brýr, ræsi og erfiðari undirstöðu um 500 m.kr. Samtals gæti því kostnaður við fjögurra akreina veg numið 7-8 milljörðum króna.

Áætlaður kostnaður við að leggja þríbreiðan veg frá Rauðavatni að Selfossi


Í áætlunum Vegagerðarinnar hefur verið gert ráð fyrir að tvöfalda þyrfti veginn frá Rauðavatni að Hafravatnsvegi, en svokallaður 2+1 vegur mundi nægja í næstu framtíð austan við Hafravatnsveg. Frá Rauðavatnið að Hafravatnsvegi eru 3,4 km. Kostnaður við 2+1 veg þar gæti verið um 400 m.kr. og mislæg gatnamót og safnvegir gætu kostað um 600 m.kr.

Frá Hafravatnsvegi að Selfossi eru um 22 km, sem ekki eru með þremur akreinum nú þegar. Kostnaður við að breikka veginn um eina akrein hefur verið áætlaður um 750 m.kr. og er þá ekki gert ráð fyrir miðjuvegriði, en það er talið auka öryggi vegarins töluvert. Talið er að kostnaður við miðjuvegrið sé um 10 m.kr. á hvern km. eða um 400 m.kr. alla leiðina. Þessu til viðbótar koma breytingar á ræsum og brúm sem gætu kostað um 200 m.kr. Einnig þyrfti að gera ráð fyrir lagfæringum á þeim hluta vegarins sem í dag er þrjár akreinar, sem eru um 17 km, og gæti það numið um 200 m.kr. Fækka þyrfti vegamótum og lagfæra á leiðinni, annað hvort með stefnugreiningu eða hringtorgum. Samtals gæti þurft að byggja sjö stefnugreind gatnamót og þrjú hringtorg. Kostnaðurinn við það gæti verið 250-300 m.kr. Samtals gætu þær vegabætur miðað við 2+1 veg frá Rauðavatni til Hafravatnsvegar og þriggja akreina veg með miðjuvegriði frá Hafravatnsvegi að Selfossi kostað frá 2,5 til 3.0 m.kr.

Samgönguáætlun er langtímaverkefni


Af þessari samantekt má sjá að um verulega stórt verkefni er að ræða. Og þá eru ekki talin önnur mikilvæg verkefni í samgöngumálum á Suðurlandi og sveitarstjórnir hafa lagt áherslu á. Við endurskoðun Samgönguáætlunar verða öll þessi verkefni til skoðunar. Næstu misserin verður hinsvegar unnið eftir gildandi áætlun, sem gerir ráð fyrir tilteknum mikilvægum áfanga. Að lokum er nauðsynlegt að árétta að framkvæmdir í vegagerð eru langtímaverkefni og þess vegna er Samgönguáætlun unnin og afgreidd af Alþingi í þeim tilgangi að vinna skipulega að uppbyggingu samgöngukerfisins í landinu til hagsbóta fyrir landsmenn alla