Á undanförnum mánuðum hafa skapast miklar umræður um þau áhrif sem vísindaveiðar á hrefnu gætu haft á hvalaskoðun hér við land, afkomu hvalaskoðunarfyrirtækja og þar með ferðaþjónustunnar.
Hér á eftir birtist samantekt frá Norðursiglingu á Húsavík sem er eitt þeirra fyrirtækja sem starfa við þessa tegund afþreyingar í ferðaþjónustu. Samantektin er birt hér til fróðleiks enda koma fram í henni athyglisverðar upplýsingar um stöðu hvalaskoðunar. Í samantektinni koma einnig fram skoðanir höfunda um áhrif hvalveiða á ferðaþjónustuna á Íslandi og birtast þær hér alfarið á þeirra ábyrgð.

Staðreyndir um hvalaskoðun


  • Vaxtarbroddur ferðaþjónustu.
  • Starfsemi sem skapar fjölda nýrra starfa.
  • Ný atvinnugrein sem styrkir byggð í landinu.

Hvalaskoðun er helsti vaxtarbroddur í afþreyingu ferðaþjónustu á Íslandi.
Hvalaskoðun á Íslandi hefur á fáeinum árum náð að verða ein umfangsmesta starfsemi sinnar tegundar í Norður-Evrópu.

Þriðji hver ferðamaður sem kemur erlendis frá fer í hvalaskoðunarferð, fjöldi fólks kemur hingað gagngert til að sjá hvali.

Hvalaskoðun er stunduð víða um land. Hún skapar mörg, dýrmæt störf og stuðlar að því að treysta búsetu á landsbyggðinni.

Hvalaskoðun er þjóðhagslega hagkvæm starfsemi. Að sýna hvali er mun arðsamari iðja en að veiða þá.

Tíminn vinnur með hvalaskoðun, en gegn hvalveiðum.


  • Hvalaskoðun hófst á Húsavík árið 1995. Með því var lagður grunnur að nýrri atvinnugrein sem hefur aukist að umfangi á landinu öllu meira en dæmi eru um annars staðar.

  • Árið 2002 tóku um 62.000 manns þátt í hvalaskoðunarferðum hérlendis á tímabilinu apríl-október, þar af um 7.000 Íslendingar. Þriðji hver útlendingur sem hingað kom, fór því í hvalaskoðun og 60% þessara ferðamanna tóku ákvörðun um að fara í hvalskoðun áður en þeir komu til landsins!


  • Árið 2003 eru enn slegin met í hvalaskoðun. Gestir voru ríflega 70.000 og að auki var ferðamannatíminn lengri en áður. Mun fleiri sóttu ferðir á Faxaflóasvæðinu í apríl 2003 en áður á sama tíma og eftirspurn var eftir hvalaskoðun á Faxaflóa alveg til loka október, mun lengur en áður.


  • Beinar tekjur af hvalaskoðun á Íslandi frá upphafi eru hátt í 10,5 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði yfir 800 milljóna íslenskra króna. Til samanburðar má geta þess að áætlaðar tekjur af ,,hvalveiðum í vísindaskyni“ 1985-´89 voru 3-4 milljónir dala, allt að 300 milljónir króna.

  • Hvalaskoðun er stunduð frá 9 stöðum á landinu: Húsavík, Dalvík, Hauganesi, Ólafsvík, Stykkishólmi, Keflavík, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og Reykjavík.

  • Hrefna er algengasti hvalurinn sem ferðamenn sjá hér við land, í níu af hverjum tíu skoðunarferðum. Hvergi annars staðar í heiminum hefur hrefnan slíkt vægi í hvalaskoðun, sem augljóslega gerir atvinnugreinina að sama skapi sérstaklega viðkvæma gagnvart hrefnuveiðum.

  • Stjórnvöld heimiluðu hrefnuveiðar í rannsóknarskyni hér við land síðastliðið sumar. Sú ákvörðun hafði strax bein og sannanleg áhrif: erlendir gestir afpöntuðu Íslandsferðir. Bókanir í hvalaskoðunarferðir voru dregnar til baka. Íslenskum stjórnvöldum og ferðaþjónustuaðilum bárust mótmælabréf af ýmsu tagi og berast enn.

,,Norsku rökin“ eru haldlítil til stuðnings hvalveiðum við Ísland.

Formælendur hvalveiða við Ísland benda á Noreg til stuðnings máli sínu og fullyrða að þar skoði menn og veiði hvali. Hvalaskoðun og hvalveiðar fari þar vel saman og sama geti gerst á Íslandi. Þarna er aðeins hálf sagan sögð og rangtúlkuð að auki.


  • Norðmenn veiða vissulega hrefnu en hvalaskoðun þar byggist á búrhval og háhyrningi.

  • Hvalaskoðun hófst í Noregi árið 1987, 8 árum áður en þessi starfsemi hófst á Íslandi. Samt er staðan sú að aðeins fóru u.þ.b. 19.000 ferðamenn í hvalaskoðunarferðir í Noregi sumarið 2003 en 72.000 á Íslandi.

  • Erlendum ferðamönnum í Noregi hefur fækkað mjög undanfarin ár en þeim fjölgað á Íslandi.

  • Hvalaskoðun er brotabrot af ferðaþjónustu í Noregi en er verulegur þáttur og vaxtabroddur í ferðaþjónustu á Íslandi.

  • Hvalveiðar Norðmanna eru afar umdeildar, ekki bara á alþjóðavettvangi heldur og innanlands líka. Dæmi:

    • Trygve Hegnar, eigandi fjármálaritanna Finansavisen og Kapital, er áhrifamesti fjölmiðlamaðurinn í fjármála- og viðskiptalífi Noregs. Hann fjallaði um hvalveiðar Norðmanna í Finansavisen í haust og færði rök fyrir að þær ættu ekki framtíð fyrir sér. Hvalveiðarnar myndu sjálfkrafa lognast út af þrátt fyrir kokhreysti formælenda samtaka norskra hvalfangara. Hvalveiðar væru grein sem fáein hundruð manna hefðu hagsmuni af, markaður væri ekki til fyrir hvalkjöt og norsk stjórnvöld háðu vonlausa baráttu á alþjóðavettvangi fyrir hvalveiðum. Fullyrt væri að tekjur af hvalaskoðun í Noregi væru mun ábatasamari atvinnugrein þar en hvalveiðar.

Ályktun: hvalaskoðun á framtíðina fyrir sér, hvalveiðar ekki.


  • Hvalaskoðun er orðin stór og mikil grein á meiði ferðaþjónustu á Íslandi. Hún hefur alla burði til að stækka hlut sinn enn frekar enda í takt við nútíma viðhorf og tíðarandann yfirleitt.

  • Hvalaskoðun bætir ímynd Íslands á alþjóðlegum vettvangi og stuðlar að áhuga útlendinga á landinu og því sem það hefur upp á að bjóða. Málið varðar þannig öðrum þræði viðskiptahagsmuni Íslendinga erlendis í víðum skilningi.

  • Ákvörðun um að hefja hvalveiðar við Ísland á nýjan leik mun hafa bein áhrif á ferðaþjónustuna, skaða ímynd Íslands á alþjóðavettvangi sem og viðskiptahagsmuni.

  • Þeir, sem hvetja til þess að hvalveiðar verði hafnar, segja að það sé í samræmi við ,,vilja þjóðarinnar“ og vísa til niðurstöðu í skoðanakönnunum þar að lútandi. Því er til að svara að fólk tengir gjarnan spurninguna um hvalveiðar við rétt þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar um nýtingu auðlinda sinna. Það er vissulega sjónarmið sem ber að virða, en jafnvíst er að svörin yrðu á annan veg ef menn stæðu frammi fyrir raunverulegum neikvæðum afleiðingum hvalveiða á efnahagslíf, viðskiptahagsmuni og ímynd þjóðarinnar.

  • Það fer augljóslega ekki saman að sýna hrefnu og veiða hana. Þeir sem halda slíku fram telja sig geta flutt inn rök frá Noregi máli sínu til stuðnings og segja að hvalveiðar og hvalaskoðun fari vel saman þar í landi. Slík rök eru hins vegar haldlítil hérlendis, einfaldlega af því hrefnan er ekki sýningarhvalur í Noregi öndvert við það sem hér er.

  • Viðbrögð hérlendis og erlendis við þeim hrefnuveiðum, sem heimilaðar voru í vísindaskyni sumarið 2003, ættu að vera nægilega háværar viðvörunarbjöllur til að Alþingi og stjórnvöld dragi þá einu ályktun sem unnt er að draga: Hvalveiðar í atvinnuskyni koma ekki til álita. Svo mikið er í húfi.

  • Hefjist hvalveiðar og hvalaskoðun á sama tíma á næsta ári mun það vekja mikil viðbrögð. Óraunhæft er að gera þær kröfur til ferðaþjónustunnar og hvalaskoðunarfyrirtækja að þau standi aðgerðarlaus hjá þegar tilvist þeirra verður ógnað. Hvalveiðar og hvalaskoðun á sama tíma á sömu tegund er einfaldlega ávísun á mikil átök þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar munu bíða mikið tjón.

  • Hvalveiðar myndu hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir fjölda fyrirtækja hérlendis, bæði bein og óbein áhrif á afkomu þeirra, á ferðaþjónustuna í heild sinni og þar með á sjálft þjóðarbúið. Hvalveiðar verða þar að auki ekki ábatasamur atvinnuvegur í fyrirsjáanlegri framtíð. Engum hefur tekist að sýna fram á að þær byggi á efnahagslegum rökum, hvað þá umhverfisvænum. Engum, ekki einu sinni hörðustu hvalveiðasinnum á Íslandi og í Noregi hefur tekist það.