Ekki er nokkrum vafa undirorpið að stafræn tækni í sjónvarpsþjónustu mun valda þáttaskilum í þróun sjónvarps hér á landi á næstu árum. Helstu kostir stafræns sjónvarps, umfram núverandi hliðrænt kerfi, eru betri mynd- og hljóðgæði, bætt nýting ljósvakans, öruggara kerfi, lægri kostnaður við dreifingu, auðveldari samruni við önnur fjarskipti, fleiri kostir fyrir upplýsingasamfélagið og aukinn möguleiki á gagnvirkni.
Stafrænu sjónvarpi fylgir hins vegar ákveðinn kostnaður, s.s. vegna endurnýjunar dreifi- og aðgangskerfa, umbóta á móttökubúnaði neytenda og endurskipulagningar tíðnisviðsins.
Í greinargerð sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) vann fyrir samgönguráðuneytið um undirbúning og innleiðingu stafræns sjónvarps á Íslandi, er m.a. fjallað um ýmsa þætti er varða stafrænt sjónvarp hérlendis og aðkomu stjórnvalda að ákvörðunum um stafrænt sjónvarp. Í þeim tilgangi að mynda breiða samstöðu um þá útfærslu á dreifikerfi fyrir stafrænt sjónvarp, sem hagkvæmasta megi telja fyrir samfélagið og neytendur, naut PFS ráðgjafar vinnuhóps sjónvarps- og fjarskiptafyrirtækja við gerð skýrslunnar. Ég tel afar brýnt og raunar grundvallaratriði að við uppbyggingu stafræns sjónvarps á Íslandi verði lögð áhersla á að dreifing verði tryggð til landsmanna, óháð búsetu. Einnig, að við uppbyggingu stafræna dreifikerfisins verði leitast við að ná jafn mikilli útbreiðslu fyrir dreifingu og RÚV gerir í dag og að við útfærslu aðgangskerfis (myndlykla) verði stuðlað að hagkvæmri og einfaldri uppbyggingu, þannig að notendur þurfi aðeins einn myndlykil – enda er ljóst að verulegur kostnaður mun liggja í endabúnaði notenda.
Forstjóri Norðurljósa og stafrænt sjónvarp
Í Morgunblaðinu sl. þriðjudag er ítarleg og vönduð umfjöllun um stafrænt sjónvarp á Íslandi. Í blaðinu er gerð glögg grein fyrir þeim mismunandi dreifileiðum sem mögulegar eru til að dreifa stafrænu sjónvarpi og rætt við forsvarsmenn þriggja helstu sjónvarpsstöðva landsins, Norðurljósa/Stöðvar 2, RÚV og Skjás 1.
Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við þau ummæli forstjóra Norðurljósa í umfjöllun Morgunblaðsins, þar sem hann furðar sig á því að dreifing Landssíma Íslands á móttökurum á vegum Breiðvarpsins sé ekki stöðvuð þegar ekki liggur fyrir hvort það sé hagkvæmt eða ekki. Við þessu er það að segja að það starf sem unnið hefur verið vegna innleiðingar stafræns sjónvarps af hálfu samgönguráðuneytisins tengist Landssímanum ekki á nokkurn hátt. Ráðuneytið hefur hvorki úrræði né áhuga á að hlutast til um vinnulag hjá Landssímanum við rekstur einstakra eininga. Ef í ljós kemur að aðgerðir Landssímans reynist óhagkvæmar munu stjórnendur fyrirtækisins bera ábyrgð á því. Hafa ber þó í huga að Síminn hefur hins vegar veitt þjónustu á þessu sviði sem stendur yfir 30.000 heimilum til boða.
Þá heldur forstjórinn því fram að samgönguráðherra ásamt öðrum ráðherrum hafi ekki sett sig inn í það hvað stafrænt sjónvarp er. Þessi skeytasending forstjórans er mjög undarleg og sýnir ótrúlegan hroka. Varla er ástæða til að svara þessu, en þó er nauðsynlegt að rekja þá vinnu sem ég hef þegar staðið fyrir, ef það mætti verða forstjóranum til fróðleiks, um leið og minnt er á að forstjóri Norðurljósa, sem var þá stjórnarformaður að mig minnir, átti í viðræðum um stafrænt sjónvarp við undirritaðan vegna áforma fyrirtækisins um tilraunasendingar. Ég fól PFS að vinna skýrslu um stafrænt sjónvarp. PFS setti á fót vinnuhóp við gerð skýrslunar, þar sem öllum hagsmunaaðilum var gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri eins og eðlilegt var. Eftir að hafa farið vandlega yfir skýrsluna, skipaði ég starfshóp sem á að gera tillögu um rekstrarform dreifikerfis, útboð, greiðslufyrirkomulag og kostnaðaráætlun. Ég hef því fylgst grannt með og unnið markvisst að innleiðingu stafræns sjónvarps á Íslandi.
Forstjóri Norðurljósa gagnrýnir jafnframt þann stutta tíma sem starfshópnum er ætlaður, þar sem ekki sé hægt að taka ákvörðun um dreifileið fyrr en kostnaður liggi fyrir. Í minnisblaði sem fylgdi skipunarbréfi starfshópsins kemur fram að hópnum sé ætlað að gera kostnaðaráætlun. Tímamörkin, sem ég setti fram, eru vissulega metnaðarfull en ekki þarf að efast um það að ákvörðun um innleiðingu verður ekki tekin nema að kostnaðaráætlun liggi fyrir og undirbúningi lokið og samkomulagi náð um þær leiðir sem valdar verða.
Loks vil ég undirstrika þá von mína að stjórnendur sjónvarpsfyrirtækjanna sýni þessu mikilvæga máli áfram áhuga svo það nái fram að ganga neytendum til hagsbóta.