Dæmalaus umræða hefur farið fram í vikublaðinu og vefritinu BB á Ísafirði um skipulagsbreytingar hjá Vegagerðinni.
Lengst hefur gengið Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, eins og oft áður, og einnig leiðarahöfundur BB, sem talar um að „enn ein atlagan hafi verið gerð að Ísafirði“. Þá rauk Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, í blöðin til að lýsa undrun sinni á því að samgönguráðherra skuli ekki hafa leitað umsagnar hans um skipulagsbreytingar. Minna mátti það ekki nú ekki vera. Kristinn H. Gunnarsson heldur því fram að verið sé að „gengisfella Ísafjörð“ með skipulagsbreytingum sem gerðar eru m.a. vegna breyttrar kjördæmaskipunar. Hann bætti um betur og lagði land undir fót til vegamálastjóra til þess að ræða málið, sem varaformaður samgöngunefndar, ef marka má frétt BB. Kristni hefur oft verið hugleikin umræðan um skiptingu valdsins í samfélaginu. Minnir hann oft á vald þingsins annars vegar og ríkisstjórnar og ráðherra hinsvegar. Ég velti því fyrir mér hvaðan þingmanni kemur vald til þess að hafa afskipti af innra skipulagi stofnana? Í viðtali við BB undrast þingmaðurinn að ekki skuli hafa verið haft samráð við þingmenn um skipulagsbreytingar hjá Vegagerðinni og beinir þeirri gagnrýni að samgönguráðherra. Ekki minnist ég þess að þingmaðurinn hafi gert sambærilegar athugasemdir við breytingar á skipulagi Rarik sem hafa staðið yfir. Hvað þá að hann hafi gengið á fund forstjóra þeirra ríkisstofnunar eins og hann hefur gert gagnvart Vegagerðinni. Þannig er sýndarmennskan alger þegar hann lætur að því liggja að hann vinni að því að ná fram breytingum hjá Vegagerðinni. Staðreyndin er sú að þingmaðurinn Kristinn H. Gunnarsson hefur ekkert með þetta að gera. Og ég geri ekki ráð fyrir því að nokkrum öðrum þingmanni komi til hugar að til hans verði leitað með þá sérfræðivinnu sem felst í því að breyta innra skipulagi ríkisstofnunar. Til þess voru fengnir þrautreyndir stjórnendur, sem unnu með yfirstjórn Vegagerðarinnar að því að gera breytingar til hagsbóta fyrir starfsemi Vegagerðarinnar og þá einkum í starfsstöðvum úti á landi þar sem fjölga skal starfsmönnum samfara auknum verkefnum, en ekki fækka líkt og látið er í veðri vaka.
Upphlaup þingmannsins breytir samt engu um það að á vegum samgönguráðuneytisins er og verður unnið að því að efla starfsstöðvar Vegagerðarinnar út um landið. Ekki síst á Ísafirði. Skipulagsbreytingarnar eru liður í því og munu frekari ákvarðanir verða kynntar áður en langt um líður. Ástæða er til að minna á þá staðreynd að á vegum stofnana og fyrirtækja, sem heyrðu undir samgönguráðuneytið, voru á síðasta kjörtímabili flutt um hundrað störf frá höfuðborgarsvæðinu í starfsstöðvar á landsbyggðinni. Ég minnist þess ekki að þingmennirnir Kristinn H. Gunnarsson eða Jón Bjarnason hafi lagt þeim verkum sérstakt lið.