Á vettvangi samgönguráðuneytisins hefur verið unnið að fjölmörgum málum, sem ég vil gera lauslega grein fyrir hér á heimasíðunni minni til fróðleiks fyrir þá sem hana lesa.
Í fréttabréfi, sem gefið var út í byrjun síðasta árs, var gerð grein fyrir skipulagsbreytingum sem gerðar voru í ráðuneytinu. Fólu þær í sér breytt verklag með nýtingu upplýsingatækninnar og verkefnaáætlunum með aðferðafræði verkefnastjórnunar.
Framtíðarsýn ráðuneytisins er skilgreind og er leitast við að haga skipulagi og framkvæmdum á sviði samgöngumála og fjarskipta á þann veg að við getum með sanni sagt að við séum ávallt í fremstu röð meðal þjóða við að veita almenningi þjónustu.
Helstu lykilþættir í stefnu ráðuneytisins eru að:
· Tryggja að grunnkerfi þjóðfélagsins í samgöngum, flutningum og fjarskiptum séu í takt við þarfir þjóðfélagsins.
· Stuðlað verði að skilvirku og hagkvæmu rekstrarumhverfi í samgöngum, flutningum og fjarskiptum.
· Stuðlað að því að allir landsmenn hafi aðgang að fjarskiptum með því að treysta virka samkeppni í sessi.
· Stefna ráðuneytis verði ein forsenda byggðastefnu.
· Efla starfsstöðvar samgöngumála á landsbyggðinni.
· Löggjöf í málaflokkum ráðuneytis sé einföld og aðgengileg.
Rafræn stjórnsýsla
Lögð er áhersla á að nýta vef ráðuneytisins sem best, og efla þannig í reynd rafræna stjórnsýslu. Markmiðið er að koma á fjórum stigum rafrænnar stjórnsýslu:
1. Upplýsingar á netinu um opinbera þjónustu.
2. Almenningur geti sótt umsóknareyðublöð á netinu.
3. Ráðuneytið og stofnanir þess geti unnið úr umsóknareyðublöðum og sannreynt að þau berist frá sendanda.
4. Ráðuneytið og stofnanir þess undirbúi mál, taki ákvörðun og birti hana á netinu.
Færsla verkefna á landsbyggðina
Við upphaf kjörtímabilsins var mörkuð sú skýra stefna af hálfu ráðuneytisins að stuðla að færslu verkefna og starfa til þjónustustöðva úti á landsbyggðinni á vegum stofnana og fyrirtækja á vegum ráðuneytisins. Í bréfi, sem ráðherra sendi öllum stjórnendum stofnana, var þessi stefna kynnt en í því sagði m.a.: “Eins og kunnugt er þá hefur búsetuþróunin í landinu verið landsbyggðinni mjög óhagstæð hin síðari ár. Ástæður þeirrar þróunar eru margvíslegar. Talið er að fjölgun atvinnutækifæra á vegum opinberra aðila á höfuðborgarsvæðinu eigi sinn þátt í þessari óæskilegu þróun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að með markvissum ráðstöfunum muni ríkisstjórnin beita sér fyrir því að undirstöður byggðar í landinu verði treystar. Liður í þeirri viðleitni er að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum og staðsetja stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem unnt er. Með vísan til þessa er óskað eftir því, að áður en nýtt starfsfólk er ráðið til starfa í ný verkefni eða starfsmenn færðir milli verkefna, verði kannað hvort unnt sé að vinna viðkomandi verk utan höfuðborgarsvæðisins, og þá helst á þeim svæðum þar sem atvinnulíf er einhæft.
Þessum tilmælum hefur verið ágætlega tekið. Landssíminn hefur fært verkefni við símsvörun til símstöðva á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri. Vegagerðin hefur sett upp þjónustuver í starfsstöð sinni á Ísafirði, þar sem öll símsvörun og þjónusta við vegfarendur fer fram. Þá hefur Vegagerðin fært ákveðin verkefni til umdæmastöðva sinna og fjölgað þannig störfum. Ferðamálaráð hefur fært verkefni til skrifstofu sinnar á Akureyri, auk þess sem gerðir hafa verið samningar við upplýsingamiðstöðvar og gestastofur, sem tryggja þjónustustörf við ferðamenn á landsbyggðinni. Skrifstofa Rannsóknarnefndar sjóslysa hefur verið færð til Stykkishólms og nýtir þar starfsaðstöðu í flugstöðinni.
Af hálfu ráðuneytisins verður áfram unnið að þessu verkefni og er þess vænst að takast megi að fjölga störfum enn frekar, sem unnin eru utan höfuðborgarsvæðisins, og þannig stuðla að hagkvæmari byggðaþróun.
Ferðamál
Ferðaþjónusta er mikilvæg og vaxandi atvinnugrein. Með nýju skipulagi í ráðuneytinu er ferðaþjónusta sett undir skrifstofu ráðherra og er yfir hana settur skrifstofustjóri, sem hefur með þau mál að gera og samskipti við greinina og Ferðamálaráð. Helstu verkefni á sviði ferðamála, sem unnið hefur verið að í ráðuneytinu, eru eftirfarandi:
Iceland Naturally
Markaðsátak ferðaþjónustunnar í Norður-Ameríku með það að markmiði að auka eftirspurn á vörum og þjónustu, í samstarfi Ferðamálaráðs og utanríkisþjónustunnar við fyrirtæki og samtök undir heitinu Iceland Naturally. Hefur orðið verulegur árangur af þessu starfi, sem hófst í ársbyrjun 2000 og er ætlað að standa út árið 2004.
Gestastofur
Gerðir samningar um rekstur gestastofa og upplýsingamiðstöðva í Snorrastofu í Reykholti og í Geysistofu í Haukadal. Er gestastofum ætlað að vera aðstaða á fjölförnum ferðamannastöðum til að veita almenningi og ferðamönnum upplýsingar og aðstoð.
Samningar við háskólastofnanir
Gerður var samningur við Hólaskóla um fjarkennslu á sviði ferðamálagreina. Með samningnum verður Hólaskóla gert kleift að vinna markvisst að því að bjóða upp á meginhluta náms ferðamálabrautar í fjarkennslu.
Heilsutengd ferðaþjónusta
Unnin var skýrsla og settar fram tillögur í árslok 2000 um heilsutengda ferðaþjónustu. Ferðamálaráði var falið að vinna áfram að útfærslu þeirra tillagna í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækin. Haldin var sérstök ráðstefna um þessa grein ferðaþjónustunnar í Bláa lóninu í desember 2001 og við það tækifæri fékk fyrirtækið sérstaka viðurkenningu Ferðamálaráðs fyrir einstakt framlag til heilsutengdrar ferðaþjónustu.
Menningartengd ferðaþjónusta.
Nefnd samgönguráðherra vann viðamikla skýrslu þar sem settar voru fram tillögur haustið 2001 um menningartengda ferðaþjónustu. Ráðinn hefur verið verkefnastjóri til að vinna að framgangi tillagna nefndarinnar, sem m.a. gera ráð fyrir að íslensk ferðaþjónusta verði í framtíðinni einnig byggð upp á tveimur meginstoðum, íslenskri náttúru og íslenskri menningu.
Framtíðarnefnd
Skipuð hefur verið framtíðarnefnd ferðaþjónustunnar undir formennsku Hrannar Greipsdóttur hótelstjóra. Vinnur nefndin að úttekt og tillögum um framtíðarverkefni greinarinnar.
Verða tillögur nefndarinnar nýttar til frekari stefnumótunar og áætlana um eflingu ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar framtíðarinnar á Íslandi, sem byggi ekki síst á menningar- og heilsutengdri ferðaþjónustu. Er nefndinni ætlað að skila endanlegri skýrslu haustið 2002.
Endurskoðun stefnumótunar ferðaþjónustunnar
Ferðamálaráði hefur verið falið að vinna að endurskoðun stefnumótunar ferðaþjónustunnar, sem unnin var fyrir árin 1996-2005. Ráðuneytið leggur áherslu á að því verki verði lokið á árinu í tengslum við starf framtíðarnefndarinnar.
Markaðsráð ferðaþjónustunnar
Í gildi hefur verið samningur við Samtök ferðaþjónustunnar og Reykjavíkurborg um markaðsaðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar. Ágæt reynsla er af starfi Markaðsráðs að mati ráðuneytisins og mun því starfi verða haldið áfram, en af fjárlögum renna 50 milljónir til verkefnisins af hálfu ráðuneytisins á næsta ári.
Framlag til markaðsmála á árinu 2002 hækkar úr 50 milljónum í 200 milljónir. Verður í byrjun ársins kynnt sérstakt átaksverkefni á sviði kynningar- og markaðsmála ferðaþjónustunnar.
Ráðstefnumiðstöð
Unnið hefur verið að athugun á því að reisa sameiginlega tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð í tengslum við ráðstefnuhótel. Er stefnt að því að undirrita samninga um það í byrjun ársins milli ríkisins og Reykjavíkurborgar. Ráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á mikilvægi þess að koma upp betri ráðstefnuaðstöðu í höfuðborginni.
Er þess að vænta að fjárfestar sjái sér hag í því að koma að því verkefni.
Samstarfssamningar á sviði ferðamála
Á sviði ferðamála eru í gildi samstarfssamningar við Nova Scotia, Færeyjar og Grænland í þeim tilgangi að efla ferðaþjónustu, samgöngur og viðskipti milli landanna. Færeyjar, Ísland og Grænland hafa stofnað sjóði undir merkjum FITUR og SAMIK, sem veita styrki til að efla samstarf landanna. Í samræmi við þessa samninga hefur verið leitast við að nýta þá í þágu ferðaþjónustunnar með auknum samskiptum og ferðum milli landanna. Hefur þessu starfi verið vel tekið.
Aðgerðir ferðaþjónustunnar í umhverfismálum
Lögð er áhersla á samstarf ferðaþjónustunnar og þeirra sem fara með umhverfismál samkvæmt staðardagskrá 21. Ferðaþjónustufyrirtækinu Íshestum var veitt umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs á ferðamálaráðstefnunni í október 2001.
Endurskoðun laga um Ferðamálasjóð
Staða Ferðamálasjóðs hefur verið mjög óviss, þar sem efnahagur hans hefur veikst mjög og hann því ekki geta verið sá bakhjarl, sem honum hafði verið ætlað að vera ferðaþjónustunni. Starfandi var nefnd sem fjallaði um framtíð sjóðsins. Lagði hún til haustið 2001 að Ferðamálasjóður yrði sameinaður Nýsköpunarsjóði. Ekki náðist samkomulag um þá skipan, en verið er að vinna að annarri lausn um framtíð sjóðsins. Er stefnt að því að framtíðarskipan sjóðsins liggi fyrir vorið 2002.
Norðurbryggjuhús í Kaupmannahöfn
Ísland, Færeyjar og Grænland hafa unnið að því að koma upp sameiginlegri aðstöðu í Norðurbryggjuhúsi í Kaupmannahöfn. Framkvæmdir við endurbyggingu hússins eru byrjaðar, en áætlað er að þeim ljúki um mitt ár 2003. Fulltrúi Ferðamálaráðs mun hafa aðstöðu í húsinu, auk þess sem áformað er að löndin þrjú opni sameiginlega upplýsingamiðstöð Vest-Norden landanna í þeim tilgangi að efla landkynningu. Sýningarsalir verða tengdir upplýsingamiðstöðinni.
Rannsóknir sjóslysa
Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur verið endurskipulögð á grundvelli nýrra laga og með tilliti til aukinnar áherslu á öryggismál sjófarenda, sem fram kemur í tillögu til þingsályktunar um öryggismáls sjófarenda, sem samgönguráðherra lagði fyrir þingið og var samþykkt. Ráðinn var framkvæmdastjóri RNS og vinnur hann að endurskipulagningu starfsins í samstarfi við ráðuneytið og Rannsóknarnefnd sjóslysa. Skrifstofa RNS hefur verið flutt til Stykkishólms og er þar til húsa í flugstöðinni, sem hefur lítið verið nýtt hin síðari ár. Gert er ráð fyrir að í fyrstu starfi þar tveir starfsmenn auk nefndarmanna sem eru fimm.
Rannsóknir flugslysa
Miklar breytingar hafa orðið hjá RNF. Nýr rannsóknarstjóri og aðstoðarrannsóknarstjóri hafa verið ráðnir og unnið að breytingum á lögum og reglugerðum varðandi rannsóknir. Leitað var umsagnar Alþjóða flugmálastofnunarinnar ICAO um starfshætti nefndarinnar. Fulltrúar ICAO skiluðu skýrslu, sem felur í sér ábendingar um breytingar, sem munu verða gerðar á lögum um flugslysaransóknir, í þeim tilgangi að efla þær og bæta. Ekki voru gerðar teljandi athugasemdir við starfsumhverfi eða starfshætti nefndarinnar. Ráðuneytið leggur ríka áherslu á að traust og trúnaður ríki um starf rannsóknarnefnda flugslysa og sjóslysa.
Póstmál
Mótuð var sú stefna af hálfu ráðuneytisins, að um land allt verði fimm daga póstdreifing. Er unnið að þeirri breytingu samhliða því að endurskipuleggja starfsemi Íslandspósts hf. Lagt var fram frumvarp til nýrra póstlaga á haustþingi. Að beiðni ráðuneytisins gerði Póst og fjarskiptastofnun úttekt á póstþjónustunni í landinu. Liggur sú úttekt nú fyrir og verður lögð til grundvallar breytingum og bættri þjónustu.
Fjarskiptamál
Fjarskipta- og öryggisþjónusta við skip
Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til laga um fjarskipta og öryggisþjónustu við skip. Í gildi er samningur við Landssíma Íslands hf. sem hefur annast hluta þeirrar þjónustu sem gert er ráð fyrir. Stefnt er að útboði á fjarskipta og öryggisþjónustu við skip. Er gert ráð fyrir nýrri staðsetningu þjónustunnar úti á landi.
Sala á hlut ríkis í Landssíma Íslands hf.
Með því að fjarskipti voru gefin frjáls samkvæmt reglum hins evrópska efnahagssvæðis hlaut að koma að því að ríkið dragi sig út af fjarskiptamarkaði og seldi sinn hlut í Landssímanum hf. Það getur ekki gengið að ríkið, sem er einn stærsti notandi síma og fjarskiptaþjónustu á landinu, væri í samkeppni við önnur símafyrirtæki, en gerði kröfu um samkeppni á markaði í þágu neytenda. Dæmi um þessa nýju og breyttu stöðu er að Íslandspóstur hf., fyrirtæki sem samgönguráðherra ber ábyrgð á, bauð út alla sína símaþjónustu. Lægst bjóðandi var Íslandssími hf. og hafa verið gerðir samningar um þau viðskipti, Íslandspósti til hagsbóta.
Í samræmi við heimild í lögum hefur verið unnið að sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. Einkavæðingarnefnd hefur verkefnið með höndum og réði ráðgjafa- fyrirtækið Pricewater Coopers í London til að meta verðmæti fyrirtækisins, og til að sjá um sölu á ráðandi hlut til kjölfestufjárfesta. Búnaðarbankinn vann sölulýsingu og sá um sölu til almennings og minni fjárfesta. Eins og fram kom við sölu hlutabréfa í Landssímanum til almennings og minni fjárfesta, er sala á hlutabréfamarkaði ekki lífleg, hvað sem því veldur. Erlendir fjárfestar og símafyrirtæki sýndu hinsvegar mikinn áhuga á að kaupa ráðandi hlut. Umræður um verðmat á Símanum og gengi á hlutabréfum urðu miklar eins og við var að búast. Landssíminn er einstakt fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu, sem er mjög vandmeðfarin á svo litlum markaði. Síminn hefur byggt upp öflugt fjarskiptakerfi í landinu öllu og hefur tekist að halda verði á nær allri þjónustu mjög lágu. Í samanburði innan OECD ríkjanna eru símagjöld hér á landi með því lægsta sem þekkist og í mörgum tilvikum lægst. Það fer því ekki á milli mála að Landssíminn er eitt öflugasta og besta fyrirtæki landsins.
Leyfi fyrir þriðju kynslóð farsíma
Unnið er að frumvarpi til laga um úthlutun rekstrarleyfa fyrir þriðju kynslóð farsíma. Hópur sérfræðinga hefur unnið á vegum ráðuneytisins að tillögum um útbreiðslu og þjónustustig. Póst- og fjarskiptastofnun hefur verið falið að undirbúa að veita tilraunaleyfi til þeirra fyrirtækja, sem kunna að vilja hefja slíkan undirbúning.
Háhraðanet um allt land
Á vegum ráðuneytisins hefur starfað nefnd, sem var falið það verkefni að gera tillögur um nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja sem best umhverfi öflugra gagnaflutninga og að tryggja ódýran aðgang að nægjanlegri flutningsgetu um allt land. “Að efla upplýsingaiðnað þannig að til verði ný störf um allt land sem höfða ekki síst til ungs fólks.” Þess er að vænta að tillögur nefndarinnar liggi fyrir á næstunni.
Stafrænar sjónvarpssendingar
Ráðuneytið fól Póst- og fjarskiptastofnun að vinna greinargerð um stafrænt sjónvarp á Íslandi. Lögð var áhersla á uppbyggingu stafræns sjónvarps um land allt. Í kjölfar greinargerðar P&F um stafrænt sjónvarp var gert ráð fyrir að veitt yrðu tilraunaleyfi til útsendinga. Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt leyfi fyrir tilraunasendingum á stafrænu sjónvarpi. Undirbúningur reglugerðar um notkun staðla um merkjasendingar fyrir sjónvarp er á lokastigi. Staðlarnir eiga að tryggja að neytendur þurfi ekki hver fyrir sig nema einn aðgangsbúnað.
Þess er vænst að stafrænt sjónvarp til almennings eigi að geta hafist á árinu 2002. Landssíminn hefur kynnt ákvarðanir um kaup á tæknibúnaði til þess að geta nýtt ljósleiðarann fyrir stafrænar sjónvarpssendingar.
Lögskráning sjómanna
Ný lög um lögskráningu sjómanna voru samþykkt á síðasta þingi. Í kjölfar þeirra var Siglingastofnun falið… RHj Lögin taka á reglum vegna slysatrygginga smábátasjómanna. Jafnframt ná þau til lögskráningarskyldu hafnsögubáta, hvalaskoðunarbáta og björgunarbáta S/L.
Lög um áhafnir íslenskra skipa
Ný lög hafa verið samþykkt um áhafnir íslenskra flutninga- og farþegaskipa. Lagt verður fram frumvarp til laga um áhafnir fiskiskipa á þessu þingi og hefur verið unnið að því að gera breytingar á eldra frumvarpi í þeim tilgangi að ná meiri sátt um málið milli sjómanna og útvegsmanna.
Langtímaáætlun um öryggismál sjófarenda
Tillaga til þingsályktunar hefur verið samþykkt og Siglingastofnun falin framkvæmd áætlunarinnar. Mun framkvæmdaáætlun verða kynnt í byrjun ársins.
Flugþing og öryggismál flugsins
Samgönguráðuneytið og Flugmálastjórn Íslands héldu flugþing í lok október mánaðar undir yfirskriftinni Flugöryggi í dögun nýrrar aldar.
Fjölmargir innlendir og erlendir sérfræðingar á sviði flugöryggismála fluttu erindi á þinginu. Erlendu fyrirlesararnir eru allir framarlega á sínu sviði í flugheiminum. Þeir eru Marinus Heijl aðstoðarframkvæmdastjóri tæknisviðs Alþjóðaflugmála-stofnunarinnar (ICAO), Klaus Koplin aðalframkvæmdastjóri Flugöryggissamtaka Evrópu (JAA), David Learmount blaðamaður á Flight International, John H. Enders frá Flight Safety Foundation og Christopher A. Hart deildarstjóri tæknisviðs Bandarísku flugmálastjórnarinnar
Flugöryggismál hafa mikið verið í umræðunni á Íslandi og í heiminum undanfarin misseri. Miklar breytingar hafa orðið á þessum málum undanfarin ár með upptöku s.k. JAR-reglna á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu. Reglurnar ná til allra sviða flugmála en þær eru mótaðar á vettvangi Flugöryggissamtaka Evrópu, sem Ísland hefur verið aðili að allt frá stofnun þessara samtaka árið 1990. Þá er ljóst að miklla breytinga er a vænta á á alþjóðlegum reglum um flugvernd (aviation security) , m.a. á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum hinn 11. september síðastliðinn
Flugöryggiseftirlit með flugvöllum
Ráðuneytið lætur nú vinna að uppbyggingu flugöryggiseftirlits með flugvöllum. Samkvæmt því fá flugvellir sérstaka vottun og gerð verður krafa um að öryggiseftirlit með völlum verði sambærilegt og eftirlit með öðrum flugrekstri, s.s. viðhaldsaðilum loftfara, flugrekendum og flugskólum. Undirbúningur verksins er hafinn og er ráðgert að því ljúki að fullu árið 2004.
Lög um loftferðir
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um loftferðir. Samkvæmt því eru hertar reglur á sviði flugöryggis og flugverndar, auk þess sem Flugmálastjórn eru veittar auknar heimildir til þess að framfylgja settum reglum. Í umfjöllun um flugslysið í Skerjafirði kom sú skoðun Flugmálastjórnar fram, að stofnunin telji þau úrræði, sem loftferðalög heimili henni að grípa til, þ.m.t. heimildir loftferðalaga til sviptingar flugrekstrarleyfis, endanlegrar og tímabundinnar, vera ófullnægjandi. Frumvarpinu er ætlað að koma þessum þáttum í betra horf.
Lög um fjarskipti
Á haustþingi voru gerðar breytingar á fjarskiptalögum. Þær fólu einkum í sér tvíþættar breytingar. Annars vegar var um að ræða formbreytingu á innheimtu jöfnunargjalds í þágu alþjónustu, en hins vegar var leidd í íslensk lög ný reglugerð Evrópusambandsins um aðgang að heimtaug. Aðgangur að heimtaug er nú talið lang mikilvægasta úrræðið til að örva samkeppni á fjarskiptamörkuðum, en sýnt hefur verið fram á að aukin samkeppni lækkar verð og bætir þjónustu.
Nú stendur yfir endurskoðun ESB á fjarskiptalöggjöf sambandsins, svokallað 1999 Review. Í undirbúningi er setning eftirfarandi fimm tilskipana:
a. Rammatilskipun
b. Samtengingartilskipun
c. Leyfisveitingatilskipun
d. Alþjónustutilskipun
e. Skipulag tíðnirófsins
Leyfisveitingatilskipunin krefst breytinga á íslenskum fjarskiptalögum, en tímamörk ráðast af þróun mála hjá ESB. Þó er fremur líklegt að lagabreytingar þurfi að liggja fyrir áramótin 2002/2003.
Frumvarp til laga um samgönguáætlun og þingsályktun um samgönguáætlun
Unnið hefur verið að tillögum um samræmda samgönguáætlun. Skipaður var stýrihópur, sem stjórnað hefur þeirri vinnu, og liggur skýrsla og tillögur fyrir í ráðuneytinu. Formaður stýrihópsins var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi, en með honum voru Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Hermann Guðjónsson forstjóri Siglingastofnunar og Magnús Oddsson ferðamálstjóri. Skýrslan verður kynnt á næstunni.
Jafnframt liggur fyrir frumvarp til laga vegna samgönguáætlunar og frumvörp til breytinga á ýmsum lögum vegna samgönguáætlunar, sem nær til vegaáætlunar, hafnaáætlunar og flugmálaáætlunar.
Samgönguáætlanir
Í samræmi við lög hafa verið samþykktar áætlanir um alla þætti samgöngumála og eru eftirfarandi áætlanir í gildi:
Flugmálaáætlun 2000 – 2003
Hafnaáætlun 2001 – 2004
Sjóvarnaáætlun 2001 – 2004
Vegáætlun 2000 – 2004
Jarðgangaáætlun 2000 – 2004
Vinna við framkvæmdaáætlanir hefur gengið fyrir sig með hefðbundnum hætti. Unnið er að endurskoðun vegáætlunar og flugmálaáætlunar í samræmi við fjárlög ársins 2002. Jafnframt mun hafnaáætlun verða tekin til meðferðar vegna samræmingar framkvæmdaáætlana í eina samgönguáætlun, sem verður væntanlega lögð fram haustið 2002. Eftir það mun samgönguáætlun taka við og fram fer samræming áætlana. Gert er ráð fyrir að samgönguáætlun taki gildi 1. janúar 2003.
Samningar um rekstur flugvalla
Verulega miklar breytingar hafa átt sér stað á eðli innanlandsflugs á Íslandi undanfarinn áratug. Þróunin hefur verið í átt að fækkun áfangastaða, þó svo að farþegum hafi farið fjölgandi. Við þessar breytingar hefur kreppt að í rekstri margra flugvalla.
Gerðir hafa verið samningar vegna reksturs flugvalla. Um er að ræða samninga um rekstur slökkviliðanna á Reykjavíkurflugvelli og Akureyri. Þá voru gerðir samningar við bæjarstjórn Siglufjarðar og Fjarðarbyggðar um rekstur flugvallanna, en þar hefur verið hætt áætlunarflugi. Vegagerðin hefur tekið við rekstri flugvallarins á Húsavík, en þar er ekki lengur áætlunarflug og því nauðsynlegt að breyta starfseminni.
Styrkir til flugfélaga og útboð á flugleiðum
Sú stefna hefur verið mörkuð af ráðuneytinu, að gera ráð fyrir að styrkja tilteknar flugleiðir sem ekki eru arðbærar, en talið er nauðsynlegt að halda úti í þágu byggðanna.
Um er að ræða flugleiðina Ísafjörður-Bíldudalur yfir vetrarmánuðina þegar vegir eru lokaðir; flugleiðina Reykjavík -Gjögur; flugleiðina Akureyri-Grímsey; flugleiðina Akureyri-Þórshöfn; flugleiðina Akureyri-Vopnafjörður og flugleiðina Reykjavík-Hornafjörður.
Samhliða þessari stefnu, hvað varðar styrki til flugsins, eru veittir styrkir til sérleyfishafa áætlunarbíla, sem tengjast fluginu og almenningssamgöngukerfinu á vegum sérleyfishafa.
Skipulag fólksflutninga
Ráðuneytið hefur markað þá stefnu, að stuðningur og styrkir við fólksflutninga verði á grundvelli útboða. Stuðlað verði að samgöngumiðstöðvum í tengslum við upplýsingamiðstöðvar ferðamála, þar sem það þykir henta. Mjög líklegt er að viðunandi staða sé að nást í rekstri sérleyfisfyrirtækja á öllu landinu út frá sjónarmiðum ráðuneytis. Huga þarf vel að öllu skipulagi málaflokksins þegar sérleyfum verður úthlutað á nýjan leik með útboði . Samruni og samvinna fyrirtækja hefur bætt stöðu sérleyfishafa jafnframt því sem fjármagn til málaflokksins var tvöfaldað á árinu 2000. Í tengslum við samgönguáætlun verða markmið málaflokksins “almenningssamgöngur” endurskoðuð og er þá átt við flug, rútur og ferjur. Skref var stigið í átt að samræmingu þegar Vegagerðin tók að sér umsjón allra útboða á þessu sviði.
Ferjusiglingar
Vegagerðin hefur boðið út rekstur ferjanna Herjólfs, Flóabátsins Baldurs, Grímseyjarferjunnar Sæfara og Hríseyjarferjunnar Sævars. Samið hefur verið, án útboðs, um siglingar milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar. Rekstur ferjanna gengur vel og byrjunar erfiðleikar, sem urðu þegar útboð var ákveðið, hafa að mestu gengið yfir. Í samræmi við útboðslýsingar eru gerðar ríkar kröfur til rekstararaðila að veita góða þjónustu, enda eru ferjurnar lífæðar viðkomandi byggða.
Litið er á ferjurnar sem hluta af samgöngukerfi landsins, sem rekið er af framlögum til vegasjóðs og rekstur þeirra. Í samræmi við reglur á hinu Evrópska efnahagssvæði eru útboð meginreglan þegar styrkir eru veittir, svo sem til ferjusiglinga og flugs á jaðarsvæðum, og þannig leitað hagkvæmustu leiða og kostir einkarekstrar nýttir, en rekstraraðilar valdir í opnu útboði. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi ferjuleiðum. Nú líður að frágangi samninga um smíði nýrrar ferju, sem verður í förum á milli Seyðisfjarðar og Evrópu. Nýja ferjan er mun stærri en sú gamla og dugar núverandi aðstaða í Seyðisfjarðarhöfn engan veginn. Ráðast þarf í stórfelldar framkvæmdir til þess að koma nýju ferjunni fyrir.Lokið hefur verið við að að gera þríhliða samning á milli rekstraraðila ferjunnar, hafnarsjóðs og ríkissjóðs um þessar framkvæmdir og notkun hafnaraðstöðunnar. Er þess að vænta að ný Norræna fjölgi þeim ferðamönnum sem koma til landsins og verði til þess að efla ferðaþjónustuna í landinu.
Lög um bílaleigur
Frumvarp til laga um bílaleigur var lagt fram á sl. ári og var samþykkt . Tilgangur frumvarpsins var að setja sér löggjöf um starfsemi og rekstrarumhverfi bílaleiga. Frumvarpinu var ætlað að leysa af hólmi ákvæði 70. gr. umferðarlaga sem fjallar um leigu ökutækja án ökumanns. Í framhaldi af setningu nýrra laga um bílaleigur var komið á laggirnar nefnd, sem hafði það hlutverk að útfæra samræmda skilmála fyrir bílaleigur með reglugerð.
Nefndin hefur lokið störfum og komið á samræmdum reglum fyrir bílaleigur. Réttindi neytenda voru m.a. höfð að leiðarljósi. Með þessum lögum er lagður grundvöllur að eftirliti vegna niðurfellingar vörugjalds.
Lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi
Í ljósi reglna, sem settar hafa verið á Evrópska efnahagssvæðinu eða eru væntanlegar á því svæði og rúmast innan gildissviðs EES samningsins, var samþykkt frumvarp til laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi. Meginbreyting laganna felst í því, að almennar kröfur sem lögfestar voru með lögum nr. 13/1999 um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum gilda nú einnig um vöruflutninga og efnisflutninga í atvinnuskyni. Við það að lögin ná einnig til vöruflutninga verða vöruflutningafyrirtæki að hafa svokallað almennt leyfi. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að starfræksla sendibíla, sem áður féll undir lög um leigubifreiðar, falli undir almenn ákvæði laganna. Þetta þýðir að ekki verður lengur stöðvarskylda fyrir sendibifreiðar.
Önnur meginbreyting laganna snýr að fólksflutningunum. Nú er skýlaus heimild Vegagerðarinnar fyrir því að gera svokallaða þjónustusamninga við sérleyfishafa. Jafnframt er gert ráð fyrir að núverandi sérleyfisfyrirkomulag haldist að mestu óbreytt fram til 1. ágúst 2005. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir að öll sérleyfi verði boðin út.
Hefur ráðuneytið þegar stofnað vinnuhóp með Vegagerðinni til þess að tryggja með sem bestum hætti undirbúning laganna. Gert er ráð fyrir ítarlegu samráði við hagsmunafélög á þessu undirbúningsstigi.
Breyting á vegalögum
Vegagerðin tekur að sér í auknum mæli viðhald girðinga með breytingu sem gerð var með lögum nr.54/2000. Einnig var með framangreindri breytingu á vegalögum áréttuð staða reiðvega í vegakerfinu, með því að nú er hægt að taka land undir þá eignarnámi. Að lokum voru hjólreiða- og göngustígar nefndir í IV. kafla laganna, en það tryggir formlega stöðu þeirra.
Frumvarp til laga um hafnir
Stefnt er að setningu nýrra hafnalaga. Hafnalaganefnd, sem vann í umboði ráðherra, skilaði af sér tillögu að frumvarpi, sem hefur í för með sér umfangsmiklar breytingar á hafnalögum. M.a. er dregið úr ríkisstyrkjum og gjaldskrá hafna gefin frjáls. Frumvarpið hefur verið lagt fram og verður til meðferðar í þinginu í vetur.
Lög um leigubifreiðar
Samþykkt voru ný lög um leigubifreiðar skömmu fyrir jól. Meginbreytingin með frumvarpinu er að öll ákvæði gildandi laga um sendi- og vörubifreiðar eru felld burt. Þá færist stjórnsýsla málaflokksins og öll umsýsla leigubifreiðamála frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar. Það er í samræmi við eðli málaflokksins og krafna sem gerðar eru til stjórnsýslunnar.
Framkvæmdir við dráttarbrautir og upptökumannvirki
Ráðuneytið leggur áherslu á að gerðir verði samningar vegna styrkhæfra hafnarmannvirkja. Í hafnaáætlun er gert ráð fyrir framkvæmdum við dráttarbrautir og upptökumannvirki, þar sem ríkið leggur fram 60% framkvæmdakostnaðar. Á Akranesi er áætlað að endurnýja skipalyftu fyrir 38 m.kr. Á Stykkishólmi er fyrirhuguð endurbygging upptökumannvirkja, sem áætlað er að muni kosta 83 m.kr. og á Ísafirði er einnig fyrirhuguð endurnýjun upptökumannvirkja fyrir 30 m.kr. Loks er áætlað að byggja nýja þurrkví í Vestmannaeyjum fyrir 360 m.kr. Hafin var undirbúningur að gerð samninga vegna þessara verkefna. Vegna kæru, sem barst og afskipta Samkeppnisstofnunar, er málið í frekari athugun.
Reykjavíkurflugvöllur
Árið 2002 verður endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar lokið. Lögð verður áhersla á frágang vallarins í samræmi við áætlanir og skipulag, sem unnið er eftir að fenginni staðfestingu borgarinnar. Jafnframt er unnið að könnun á því að koma upp þjónustumiðstöð samgöngumála við flugvöllinn. Með endurbyggðum flugvelli er aðstaða flugsins bætt til mikilla muna og öryggi þess aukið. Lögð verður áhersla á alla þætti flugöryggismála í tengslum við rekstur Reykjavíkurflugvallar samkvæmt þeirri stefnu sem tekin var þegar ákveðið var að endurbyggja völlinn.
Þjónustuver samgöngumála
Í öllum landshlutum eru umdæmisstöðvar Vegagerðarinnar. Einnig eru minni þjónustumiðstöðvar víða um landið, sem reknar eru undir yfirstjórn umdæmisstjóra hvers landshluta. Siglingastofnun rekur umdæmisskrifstofur vegna skipaskoðunar og eftirlits á sviði siglingamála. Þá er margháttuð þjónusta rekin á vegum Flugmálastjórnar vegna flugvalla sem þarf að þjóna. Ráðuneytið hefur markað þá stefnu að komið verði á samstarfi Vegagerðar, Siglingastofnunar og Flugmálastjórnar, þar sem því verður við komið og þar teljist hagkvæmt. Þá verði kannað samstarf við sveitarfélög innan þjónustuvera. Fyrsti samningurinn um þjónustuver samgöngumála var undirritaður á síðasta ári. Er hann milli Vegagerðar, Siglingastofnunar, Flugmálstjórnar og Snæfellsbæjar. Þjónustuverið er í húsnæði Vegagerðarinnar í Ólafsvík og er ætlað að hýsa starfsmenn samningsaðila, sem sinna eftirliti og rekstri áhaldahúsa, umsjón og þjónustu flugvalla á Snæfellsnesi, þjónustu Siglingastofnunar vegna skipaskoðunar og þjónustu vegagerðarinnar á Snæfellsnesi auk skilgreindra verkefna á vegum bæjarins. Hér er um tilraunaverkefni að ræða, sem gæti orðið vísir að verulegum breytingum í samstarfi þessara stofnana og jafnvel fleiri sveitarfélaga. Er nú unnið að skoðun fleiri svæða þar sem þjónustuvershugmyndin gæti átt vel við
Samgöngur og umhverfi
Lokið hefur verið við skýrslu um samgöngur og umhverfismál. Við útgáfu hennar skapast umræðugrundvöllur til frekari ákvarðanatöku á þessu sviði. Við uppbyggingu vegakerfisins er nauðsynlegt að líta til umhverfisþátta og byggja samgöngukerfið með tilliti til þess að eldneytisnotkun, og þar með losun gróðurúsalofttegunda, verði í lágmarki.
Lög um skipan flugmála
Starfandi er nefnd á vegum ráðuneytisins, sem hefur það hlutverk að fara yfir regluverk flugmála, uppfæra það og samræma
14.03.2002
Sturla Böðvarsson