Aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi haldinn á Sauðárkróki sunnudaginn 19.október 2003 samþykkir svohljóðandi stjórnmálaályktun:

Fundurinn fagnar góðum árangri í alþingiskosningunum 10.maí s.l. og færir frambjóðendum og öllum þeim sem unnu fyrir flokkinn í kosningunum bestu þakkir fyrir vel unnin störf og trúnað við flokkinn. Mikið og öflugt starf og kraftmikil kosningabarátta leiddi til góðrar kosningar flokksins í Norðvesturkjördæmi en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 29.6% og þrjá þingmenn kjörna. Með þeim úrslitum stóðu sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi sterkir eftir umrót kjördæmabreytingarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn er forystuafl í hinu nýja kjördæmi og leggur Kjördæmisráð ríka áherslu á öflugt starf í þágu íbúa kjördæmisins á nýbyrjuðu kjörtímabili. Er kjósendum flokksins þakkað það traust sem frambjóðendum er sýnt með svo afgerandi sigri í kjördæminu.

Kjördæmisráð fagnar áframhaldandi forystu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra sem leiðir ríkisstjórn samfellt við upphaf fjórða kjörtímabilsins. Farsæll ferill Davíðs Oddssonar, sem formanns Sjálfstæðisflokksins og leiðtoga þjóðarinnar, er einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu.

Með myndun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar 23.maí s.l. er styrkur stjórnarflokkanna nýttur til áframhaldandi forystu við landsstjórnina. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að halda áfram eflingu samfélagsins og uppbyggingu í þágu byggðanna. Þau þróttmiklu áform styrkja undirstöður samfélagsins með öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi og uppbyggingu innviða svo sem samgöngukerfi, heilbrigðis- og menntakerfi.

Kjördæmisráð leggur ríka áherslu á að hvergi verði kvikað frá áformum um úrbætur í þágu atvinnuveganna sem hinar dreifðu byggðir í kjördæminu eiga allt sitt undir. Fundurinn skorar á þingmenn kjördæmisins að standa vörð um hagsmuni atvinnulífsins í kjördæminu öllu.

Við upphaf nýs kjörtímabils hefur tekist að skapa efnahagslegan stöðugleika. Framundan er skeið aukins hagvaxtar sem skapar þjóðinni tækifæri til að sækja fram til aukinnar velmegunar og enn betri lífskjara. Gerir aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þær kröfur að kjördæmið njóti ríkulega þeirra ávaxta sem bætt afkoma þjóðarbúsins skapar. Unnið verði áfram að uppbyggingu menntastofnana í kjördæminu ásamt eflingu fjarkennslu. Bættar samgöngur liðinna ára hafa skilað sér beint til íbúa kjördæmisins sem er hið víðfemnasta á landinu. Því leggur fundurinn áherslu á að áfram verði unnið á sömu braut ásamt öðrum opinberum framkvæmdum sem styrkja byggðina.

Aðalfundur Kjördæmisráðs hvetur sjálfstæðisfólk í kjördæminu til að nýta þann byr sem kosningaúrslitin og þátttaka flokksins í ríkisstjórn skapar til þess að efla flokksstarfið og kalla sem flesta bæði ungt fólk sem hið eldra til þátttöku í að móta samfélagið til framtíðar með starfi innan Sjálfstæðisflokksins.