Aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisfélaganna í Norðvesturkjördæmi var haldinn á Blönduósi laugardaginn 6. Október. Á fundimm mætti forsætisráðherra Geir H Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og þingmenn flokksins í kjördæminu þau Sturla Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Herdís Þórðardóttir. Forsætisráðherra og þingmenn sátu fyrir svörum að loknum venjulegum aðalfundarstörfum.  Fundurinn var fjölsóttur og samþykkti hann eftirfarandi stjórnmálaályktun sem send hefur verið fjölmiðlum.

Stjórnmálaályktun

kjördæmisfundar Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
haldinn á Blönduósi 6. október2007.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi stendur á traustum grunni. Það sýndu úrslit nýafstaðinna alþingiskosninga glögglega þegar flokkurinn hélt hlut sínum vel þrátt fyrir fækkun þingmanna kjördæmisins. Þrotlaus og ósérhlífin barátta flokksmanna skilaði þessum góða árangri og styrkti stöðu flokksins sem afgerandi forystuafls í kjördæminu.

Sterk málefnastaða sjálfstæðismanna ásamt góðum árangri í stjórn landsins undir forystu Sjálfstæðisflokksins, tryggði velgengni flokksins í kosningunum á landsvísu. Sjálfstæðismenn eru því áfram í forystu í íslenskum stjórnmálum og leiða ríkisstjórn Íslands, sem studd er sögulega sterkum meirihluta á Alþingi.

Aðstæður í Norðvesturkjördæmi eru um margt ólíkar því sem gerist í öðrum kjördæmum og lýsir sér best í því að góðæri undangenginna ára hefur einungis skilað sér að hluta út í þetta víðfeðma kjördæmi.  Blikur eru á lofti í flestum sjávarbyggðum kjördæmisins. Ákvörðun stjórnvalda um þriðjungs minnkun aflaheimilda í þorski lækkar tekjur í byggðunum svo mikið að nauðsynlegt er að bregðast við. Ríkisstjórnin hefur boðað mótvægisaðgerðir sem gagnast eiga þeim byggðum landsins sem harðast verða úti vegna niðurskurðarins. Ljóst er að þær byggðir eru flestar í NV-kjördæmi. Brýnt er að við framkvæmd tillagnanna verði unnið bæði hratt og vel svo tryggja megi að jákvæðra áhrifa þeirra gæti sem fyrst og tiltrú skapist meðal almennings og fyrirtækja á því að alvara búi að baki aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Nauðsynlegt er að stýrivextir Seðlabanka Íslands lækki á næstunni. Slíkt stuðlar að viðráðanlegri lánskjörum innanlands og því að gengi íslensku krónunnar lækki til hagsbóta fyrir atvinnulífið, ekki síst á landsbyggðinni. Skoða ber afnám verðbóta. Mikilvægt er að möguleikar til uppbyggingar nýrra atvinnugreina í kjördæminu, s.s. olíuhreinsunar og umskipunarhafnar vegna pólsiglinga, verði ekki heftir með íþyngjandi skuldbindingum á alþjóðavettvangi.

Til viðbótar þeim sértæku aðgerðum sem boðaðar hafa verið er þörf á verulegu átaki til að efla mennta- og rannsóknastofnanir í NV-kjördæmi, hvort heldur er á framhaldsskólastigi eða háskólastigi. Landfræðilega býður kjördæmið upp á ýmsa möguleika til að vera þungmiðja rannsókna- og vísindastarfs í landinu. Efla þarf fjarnámsstofur til að þeir sem ekki búa nærri framhaldsskólum eigi tök á að stunda nám í heimabyggð.  Markvisst skal unnið að uppbyggingu í íþrótta- og æskulýðsmálum, t.a.m. með aukinni menntun þeirra sem fara með þau mál. Á svæðum þar sem hagvöxtur mælist neikvæður er brýnt að bregðast fljótt við með þeim verkfærum sem virka best – auknum tækifærum til menntunar og nýsköpunar.  Tryggja þarf að menningarsamningar, sem ríki og sveitarfélög hafa gert sín á milli, verði sú lyftistöng í kjördæminu sem að er stefnt. Aðkoma ríkisvaldsins að uppbyggingu menningarhúsa er sömuleiðis mikilvæg auk þess sem lagt er til að ríkið styrki endurbætur á félagsheimilum sveitarfélaga og komi þannig til móts við þær byggðir sem ekki eru í nálægð við menningarhúsin.

Stórstígar framfarir hafa orðið í samgöngumálum kjördæmisins á síðustu árum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Mörg stórverkefni eru í farvatninu, jafnt á sviði samgangna sem fjarskipta – verkefni sem hafa verið sett á áætlun fyrir tilstilli sjálfstæðismanna. Brýnt er að áfram verði unnið eftir þeim áætlunum í samgöngu-, fjarskipta, og ferðamálum sem samþykktar hafa verið á Alþingi og verkefnum hraðað eftir föngum. Þeir stofnvegir í kjördæminu sem enn hafa ekki verið byggðir upp skulu njóta forgangs við röðun framkvæmda jafnframt því sem nauðsynlegt er að auka verulega framlög til tengivega og fjölfarinna ferðamannaleiða. Kanna ber möguleika á að flýta sérstaklega lagningu slitlags á tengivegi og fáfarnari leiðir þar sem ekki er þörf á umfangsmikilli uppbyggingu á vegum. Leitað verði leiða til að lækka flutningskostnað til þeirra svæða þar sem samgöngukerfið er enn óviðunandi.

Markvisst skal stefnt að því að efla matvælaframleiðslu í NV-kjördæmi. Stjórnvöld eru hvött til að horfa í auknum mæli til kjördæmisins við uppbyggingu í fiskeldi ásamt því að kanna möguleika á auknum rannsóknum á sviði orkunýtingar. Jafnframt þarf að tryggja framleiðslugetu landbúnaðar í kjördæminu svo hann standist vel samkeppni við önnur svæði og aðra nýtingu lands. Brýnt er að eignaréttur landeigenda sé virtur í hvívetna við framkvæmd laga um þjóðlendur á Íslandi. Gera þarf langtímaáætlun um nýtingu auðlinda í kjördæminu, hvort heldur sem litið er til hafsins, orku vatnsafls og jarðvarma eða auðlinda sem felast í kostum til ferðaþjónustu og landbúnaðar.

Skiptar skoðanir eru um fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og er mikilvægt að treysta forsendur hennar. Slíkt verður best gert með því að auka hafrannsóknir verulega, efla samkeppnissjóði á sviði hafrannsókna og byggja enn frekar upp þá fræða- og rannsóknaaðstöðu sem orðin er til á lykilstöðum í kjördæminu. Fundurinn fagnar þeim auknu áherslum sem nú hafa verið lagðar á hafrannsóknir og fjölbreytileika þeirra undir forystu sjálfstæðismanna. Slíkt er líklegt til að treysta stoðir fiskveiðiráðgjafarinnar og auka samstöðu vísindasamfélagsins en vissar hættur felast í því að einungis skuli vera ein ráðgefandi stofnun sem sér um stofnstærðarmat og veiðiráðgjöf.

Kjördæmisfundur Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi skorar á ríkisstjórn Íslands að  þróa nýja hugsun í byggðamálum þar sem aukin áhersla yrði lögð á sérstöðu svæða, margbreytileika íslensku þjóðarinnar og nauðsyn þess að landið allt sé í byggð.