Samgönguráðherra hefur lagt ríka áherslu á öryggismál sjófarenda í sinni ráðherratíð. Hann sendir sjómönnum góðar kveðjur á Sjómannadaginn með grein sem birtist í Morgunblaðinu.
IK

Siglingar og sjómennska hafa alla tíð verið okkur Íslendingum mikilvæg forsenda velmegunar.
Með lögum um sjómannadag er kveðið á um að fyrsti sunnudagur júnímánaðar ár hvert skuli vera almennur frídagur sjómanna. Það er því ærið tilefni til þess að senda sjómönnum góðar kveðjur frá ráðuneyti siglingamála á þessum degi. Siglingar og sjómennska hafa alla tíð verið okkur Íslendingum mikilvæg forsenda velmegunar. Með þróun síðustu ára hefur atvinnulíf okkar orðið fjölbreyttara en það breytir því ekki að störf sjómanna eru og verða okkur Íslendingum mikilvæg.

Samgönguráðuneytið leggur ríka áherslu á siglingamál enda eru þau í verkahring ráðuneytisins. Þar skipa öryggismál sjófarenda mikilvægan sess og meginstefið í öllum verkum okkar í samgöngumálum tengjast öryggismálum. Það er af mörgu að taka þegar fjallað er um siglingar og má meðal annars nefna hafnamál, en góðar hafnir tryggja öryggi sjófarenda, eftirlit með skipum, sem að hluta til hefur nú verið fært til einkaaðila, réttindi áhafna, sem eru mikilvæg til að tryggja siglingaöryggi, hafna og siglingavernd, sem hefur vaxið mjög í kjölfar hryðjuverkaógnar, verkefni Vaktstöðvar siglinga, sem er á ábyrgð Siglingastofnunar og síðast en ekki síst samningur um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna um borð í Sæbjörgu svo nokkuð sé nefnt af þeim verkefnum sem unnið er að í þágu siglinga þjóðarinnar. Þá er vert að nefna starfsemi Rannsóknarnefndar sjóslysa, sem gegnir mikilvægu hlutverki við að auka öryggi sjófarenda með rannsóknum á slysum í þeim tilgangi að komast fyrir um orsakir þeirra, setja fram ábendingar um úrbætur og koma þannig í veg fyrir slys. Að lokum má síðan nefna Samgönguáætlun og þann hluta hennar sem fjallar um áætlun um öryggismál sjófarenda.

Þegar ég tók við sem samgönguráðherra lagði ég fram tillögu að langtímaáætlun um öryggismál sjófarenda. Slík áætlun hafði ekki verið unnin áður. Var hún samþykkt sem ályktun Alþingis og eftir henni hefur verið unnið. Sem betur fer hafa orðið miklar framfarir á sviði öryggismála sjófarenda. Það vil ég meðal annars þakka árangursríku samstarfi samgönguráðuneytis, Siglingastofnunar, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og samtaka sjómanna. Á vettvangi Siglingaráðs fer fram mikilvægt samstarf og samráð samgönguráðuneytis og samtaka sjómanna og útvegsmanna, sem er hinn formlegi samstarfsvettvangur, og leggur ráðuneytið ríka áherslu á mikilvægi þess. Á sjómannadeginum er ástæða til þess að rifja það upp sem að framan er dregið fram í þeim tilgangi að minna sjómenn á að þeir eigi hauk í horni þegar kemur að starfsmönnum samgönguráðuneytis og þeirra stofnana sem fara með siglingamál. Það er von mín að sjómannadagurinn verði sjómönnum og fjölskyldum þeirra ánægjulegur og þeir njóti hans. Að lokum óska ég samtökum sjómanna og útvegsmanna farsældar í mikilvægum störfum í þágu sjómennsku og siglinga.