Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi héldu kjördæmisráðsþing sitt, laugardaginn 8. febrúar, í Menntaskóla Borgarfjarðar. Þar flutti ég eftirfarandi ræðu og tilkynnti að ég gæfi ekki kost á mér á framboð við næstu Alþingiskosningar.
Ágætu samherjar.
Þegar við áttum fund á Ísafirði fyrir rúmum tveimur árum til þess að undirbúa kosningarnar vorið 2007 lýsti ég mig reiðubúinn til þess að leiða framboð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sátt náðist um framboðslistann og í kjölfarið fylgdi mjög hörð kosningabarátta. Við náðum góðum árangri, héldum þremur þingmönnum og forustu í kjördæminu.
Eftir sextán ár á Alþingi og þar af helming þess tíma í athafnasömu starfi sem ráðherra lagði ég inn í þetta kjörtímabil með öflugt umboð kjósenda. Það hvarflaði ekki að mér að þjóðin og Sjálfstæðisflokkurinn ætti eftir að lenda í þeim áföllum sem við höfum orðið fyrir. Um það mun ég ekki fjalla sérstaklega hér að þessu sinni heldur meta stöðuna og líta til þeirra verkefna sem við okkur blasa hér á þessum fundi.
Ég tel að við getum vel við unað hvernig við höfum byggt upp starf flokksins í þessu víðfeðma kjördæmi. Sjálfstæðismenn eru núna með hreinan meirihluta eða í meirihluta-samstarfi bæjarstjórna í nær öllum sveitarfélögum kjördæmisins. Okkur hefur tekist að stilla saman kraftana og vinna vel að málefnum þess á mörgum sviðum. Samt sem áður eru mörg verkefni framundan fyrir kjördæmið og jafnframt blasir við okkur landsmönnum öllum endurreisn eftir bankahrunið.
Margt af því sem við vorum að efla og byggja upp með bættum innviðum samfélagsins stóð sem hæst þegar fjármálakreppan skall yfir okkur og spilaborgir óhófsmanna í bankakerfinu innanlands og utan hrundu með þeim alvarlegu afleiðingum sem við þekkjum og hver einasta fjölskylda í landinu hefur fengið að kynnast og mun súpa seyðið af á næstu misserum.
Þegar ég hóf þátttöku í starfi Sjálfstæðisflokksins með því að setjast í stjórn SUS árið 1967 tuttugu og tveggja ára gamall hvarflaði ekki að mér að ég ætti eftir að takast á við þau verkefni sem sjálfstæðisfólk hefur falið mér að vinna með hópi góðra samstarfsmanna á undangengnum árum. Fyrst sem bæjarstjóri í Stykkishólmi með einstökum hópi þar sem mér gafst jafnframt færi á að kynnast fólki úr Veturlandskjördæminu gamla, síðan sem alþingismaður þar sem við Guðjón Guðmundsson, Einar Oddur Kristjánsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Herdís Þórðardóttir höfum átt árangursríkt samstarf með góðu fólki í Norðvesturkjördæminu öllu.
Ég hef gengið í gegnum margar kosningar og hef þurft að leggja verk mín og samstarfamanna minna undir dóm kjósenda. Ég hef notið þeirra forréttinda að vinna með svo öflugu fólki að við höfum aldrei tapað kosningum innan flokksins eða í kjördæminu.
Það varð ekki fyrr en ég stóð frammi fyrir mótframboði um embætti forseta Alþingis sem ég beið lægri hlut í kosningum. Þar var kosningastjóri í raun og veru enginn annar en bóndinn á Bessastöðum. Kosningin um embætti forseta Alþingis var af hálfu okkar sjálfstæðismanna mæling á heilindum og drengskap framsóknarmanna og afstöðu þeirra sem höfðu mært mig og störf mín sem forseta Alþingis og hafa talað fyrir því eins og ég að efla og styrkja þingið og stöðu forseta þingins.
Bessastaða-bandalagið, eins og ég kalla stuðningsmenn minnihluta stjórnarinnar, stóðs ekki prófið.
Við slíkri niðurstöðu er ekkert að segja og lög gera ráð fyrir þeim möguleika að ef stjórnarskipti verða þá sé skipt um forseta Alþingis, ef meirihluti þingmanna óskar eftir því.
Afskipti forseta Íslands af stjórnarmynduninni er hinsvegar dæmalaus. Hann sleit sundur friðinn með því að hafna tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins um þjóðstjórn og virðist hafa skipulagt stjórnarmyndunina frá upphafi til enda eins og glöggt mátti sjá þegar hann fól þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Steingrími stjórnarmyndunar-umboðið og kynnti jafnframt nauðsyn þess að kalla inn utanþings fólk sem ráðherra. Forsetinn hikaði ekki við að hafna stjórn allra flokka, skáka Sjálfstæðisflokknum burt og setja til valda Vinstri græna sem höfðu bæði leynt og ljóst staðið fyrir grjótkastinu og innrásinni í Alþingishúsið og í raun staðið fyrir valdatöku þegar Samfylkingin missti kjarkinn eftir árásina í Alþingishúsið og aðförina að fundi Samfylkingarinnar í Leikhússkjallaranum. Þegar saga okkar daga verður skrifuð trúi ég að sagnfæðingar og stjórnmálafræðingar framtíðarinnar fái einstakt tækifæri til rannsókna á mannlegu eðli þegar þeir skoða aðförina að Alþingi, aðdraganda stjórnarslitanna, myndun ríkisstjórnarinnar Jóhönnu Sigurðardóttur og þátt Forseta Íslands í henni.
Svik Samfylkingarinnar gagnvart Sjálfstæðisflokknum og sérstaklega formanni okkar, sem sýndi endalaust langlundargeð af tillitsemi við formann Samfylkingarinnar, er síðan sjálfstætt rannsóknarefni. Það blasir vissulega við að Samfylkingin er í tætlum eins og formaður okkar sagði.
Ég er mjög sáttur við starf mitt sem forseti Alþingis. Ég fékk einstakt og gott tækifæri til þess að hafa áhrif á framvindu mála á Alþingi og standa fyrir bættum starfsháttum í þinginu og áframhaldandi endurbótum á húsum á Alþingisreitnum og ná samkomulagi við borgaryfirvöld um skipulagið við Alþingishúsið á forsendum húsafriðunar. Með breyttum þingskaparlögum og nýju skipulagi í starfsháttum Alþingis hefur starfsaðstöðu þingmanna verið breytt til bóta. Hún er önnur og betri til þess að takast á við þau verkefni sem brýnust eru fyrir þingið og þjóðina. Það kemur rækilega fram núna þegar við erum komin í stjórnarandstöðu.
Við höfum stórbætta aðstöðu með fleiri aðstoðarmönnum og sérfræðingum sem auðvelda okkur að ganga til verka í þinginu þegar við blasa hin erfiðu verkefni við endurreisn eftir hrunið. Það verður að viðurkennast að stjórnarandstaðan hafði ekki forsvaranlega stöðu til málefnalegrar vinnu samanborið við ráðherra í ríkisstjórninni og stjórnarþingmenn.
Ágætu samherjar.
Verkefni okkar hér á þessum fundi er að undirbúa þær kosningar sem fram eiga að fara 25. apríl næst komandi. Ég geri ráð fyrir því og vona að Sjálfstæðisflokknum verði í kosningunum og síðar við landsstjórnina kallaður til verka og ábyrgðar við stjórn landsins eins og oft áður. Það er sagt í þeirri von að lýðræðið verði hér í heiðri haft sem ég vona vissulega þrátt fyrir að við völd sé núna minnihluta stjórn sem situr í skjóli Framsóknarflokksins. Sá flokkur segist ekki hafa umboð þjóðarinnar fyrr en eftir næstu kosningar þegar hann hefur reynt að stroka af sér fingraför S-hópsins. Ráðherrastólarnir virðast geymdir fyrir þá á meðan.
En það má með sanni segja að minnihluta stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi komist til valda í skjóli ofbeldis og með stuðningi Framsóknar. Það var sláandi fyrir okkur sem vorum í þinghúsinu þegar sem mest gekk á að verða þess áskynja að ofbeldisfólkið sem réðist á Alþingishúsið fór eftir að Vinstri grænir fengu sitt fram og höfðu sest í ráðherrastóla.
Í kosningabaráttunni sem framundan er hljótum við sjálfstæðismenn þrátt fyrir andstreymið að tefla fram grundvalla hugsjónum okkar að stétt vinni með stétt og að frelsi einstaklinga fái notið sín við arðbæra iðju í þjóðar þágu. Hugsjónir okkar eiga vissulega við þær aðstæður sem við búum við og við þurfum á því að halda að þeir sem veljast til forystu verði tilbúnir að leggja nótt við dag í kosningum og að halda óhikað á hagsmunum okkar þegar til alvörunnar kemur á Alþingi og í ríkisstjórn.
Eitt stærsta verkefni þingmanna flokksins á næsta kjörtímabili verður að skipuleggja endurreisn í anda fyrirhyggju og hófsemi jafnframt því að tryggja hagsmuni okkar gagnvart kröfunni óbilgjörnu um að við afsölum fullveldi okkar og auðlindum til Evrópusambandins. Íbúar sjávarbyggðanna ekki síður en þeir sem tengjast landbúnaði geta ekki og mega ekki færa hagsmuni sína í hendur þeim sem síðan eru tilbúnir til þess að fórna öllu sem helgast er og mikilvægast þegar kemur að því að taka afstöðu til Evrópusambandsins.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksinsverða að tala skýrt í komandi kosningum.
Við eigum að hafna öllum hugmyndum um óheftan innflutning landbúnaðarafurða sem drepur íslenskan landbúnað á nokkrum misserum og kallar á meiri gjaldeyri til innflutnings en við höfum efni á eða möguleika til að afla svo ekki sé talað um fæðuöryggið sem þjóðin hér við ysta haf þarf að tryggja hverju sinni.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins verða að tala skýrt gegn samningum við ESB sem gefa færi á að nýtingu fiskimiðanna og annarra aulinda okkar verði stjórnað af kommisörum á vegum Evrópusambandsins í Brussel .
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksinsverða að tala skýrt um það hvernig þeir ætla að nálgast þá endurreisn sem við verðum að móta án þess að fórna frelsi okkar sem þjóðar á altari óskilgreindra hagsmuna sem sækja á til Evrópusambandsins.
Ég hef leitast við á mínum ferli sem stjórnmálamaður að tala skýrt um þarfir kjördæmisins og vinna að hagsmunum þess sem þingmaður og ráðherra. Ég tel að það sjáist víða í kjördæminu ekki síst á sviði samgöngumála, fjarskipta og ferðamála vegna þeirrar aðstöðu sem ég hafði sem samgönguráðherra til þess að marka stefnuna í þágu byggðanna með metnaðarfullum hætti. Í minni tíð sem samgönguráðherra voru samþykktar nýjar áætlanir sem unnið var eftir á grundvelli sérstakrar fjáröflunar m.a. fyrir söluandvirði Símans. Þar var um að ræða ferðamálaáætlun, fjarskiptaáætlun, umferðaröryggisáætlun, siglingaöryggisáætlun, samgönguáætlun sem náði til vega, hafna og flugsins auk þess sem flugöryggismálin voru endur skipulögð frá grunni. Engin þessara áætlana hefur enn verið uppfærð af eftirmanni mínum eða þeim verið breytt. Eftir þeim er því ennþá unnið að því marki sem fjármunir hafi ekki verið skornir niður eins og nú blasir við.
Ágætu samherjar. Allt hefur sinn tíma.
Í þeirri kosningabaráttu sem framdundar er mun ég standa utan vallar. Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér í framboð. Það er í fullu samræmi við þá ákvörðun sem ég tók fyrir tveimur árum að þetta kjörtímabil sem nú er senn á enda , sem að vísu stendur skemur en ég gerði ráð fyrir, verði mitt síðasta kjörtímabil sem alþingismaður.
Ég vil þakka öllu því góða fólki sem hefur stutt mig og hvatt til þess að halda áfram í stjórnmálum. Ég vænti þess að við getum áfram átt samleið og ég geti á nýjum vettvangi orðið að liði fyrir kjördæmið og fyrir þjóðina.
Þá vil ég ekki síst þakka eiginkonu minni og börnum fyrir að hafa stutt mig í öllum þeim störfum sem ég hef fengist við á vettvangi stjórnmálanna. Álagið sem fylgir störfum stjórnmálmanna og lendir á fjölskyldunni er mikið og börn stjórnmálmanna verða fyrir meira álagi en fólk gerir sér grein fyrir.
En það er samdóma álit okkar í fjölskyldunni að ánægjan af árangri liðinna ára og vinátta við allt það góða fólk sem með okkur hefur unnið sé það sem upp úr stendur og fyrir það erum við þakklát.
Ágætu sjálfstæðismenn.
Ég vona að ákvarðanir þessa fundar verði til heilla fyrir kjördæmið og flokkinn og til farsældar fyrir þjóðina. Ég kveð þennan vettvang mjög sáttur en hefði auðvitað kosið að það gerðist við aðrar og hagfelldari aðstæður í þjóðarbúskapnum. Ég hvet ykkur til þess að berjast hart og tryggja enn einu sinni sigur Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.