Síminn sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar til fyrirtækisins um mál tengd fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins. Málið var rætt á Alþingi í gær, þar sem Sturla tók skýrt af skarið með að hann gerði ekki athugasemd við þá ákvörðun stjórnar Símans að meta það mikilvægara fyrir fyrirtækið að birta ekki skýrsluna. Í umræðunni á Alþingi sagði Sturla m.a.: „…stjórn Símans fer með þetta mál og það er í hennar höndum og ég treysti henni til þess að fara með það. Hún hefur ekkert að fela.“
Yfirlýsing stjórnar Símans fer hér á eftir.
Yfirlýsing frá stjórn Landssíma Íslands hf.
Í umræðunni undanfarið hefur verð gerð tortryggileg sú ákvörðun stjórnar Símans að birta ekki erindi frá endurskoðanda félagsins, Ríkisendurskoðun, sem barst stjórninni sl. sumar. Erindið, sem er um 3 bls., fjallar um fjárhagsleg málefni fyrrverandi forstjóra Símans. Annað erindi frá endurskoðanda, sem er 1 bls., fjallar um sama efni, milli Símans og fyrrverandi stjórnarformanns Símans. Í erindum Ríkisendurskoðunar kemur fram að skýringar á þeim atriðum sem skoðuð voru, hafi með einni undantekningu, verið fullnægjandi og að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar vegna þeirra.
Það atriði sem gerð er athugasemd við varðar flutninga á trjáplöntum að sumarhúsi fyrrverandi forstjóra að upphæð kr. 202.417. Telur Ríkisendurskoðandi að fyrrverandi forstjóra beri að endurgreiða félaginu þá upphæð, en lætur þess jafnframt getið að fyrrverandi forstjóri fallist ekki á þetta álit Ríkisendurskoðunar enda telji hann að öll óuppgerð mál hafi verið gerð upp í starfslokasamningi á milli aðila.
Stjórn Símans telur, að fengnu lögfræðiáliti, að heildarhagsmunum Símans yrði best borgið með því að aðhafast ekki í málinu. Vóg þar þyngst að í starfslokasamningi milli Símans og Þórarins V. Þórarinssonar, var ákvæði um fullnaðaruppgjör. Stjórnin er jafnframt sammála um að erindi endurskoðanda félagsins, Ríkisendurskoðunar, bréfaskriftir og skýringar vegna einstakra þátta rannsóknarinnar verði meðhöndluð eins og önnur vinnugögn sem lúta að stjórnun hlutfélagsins.
Hvorki Símanum né öðrum hlutafélögum er skylt að birta skýrslur og álitsgerðir endurskoðenda sinna opinberlega. Endurskoðendur fyrirtækja vinna árlega margháttaðar álitsgerðir fyrir stjórnendur félaga, slík gögn eru vinnugögn stjórnar og eru eðli málsins samkvæmt ekki birt. Flestir munu sammála um að mikilvægt sé að umfjöllun um eldri ágreininingsmál úr tíð fyrrverandi stjórnar og fyrrverandi forstjóra ljúki sem allra fyrst.
Frá upphafi hefur verið ljóst að ný stjórn og forstjóri Símans gengu til liðs við félagið og tókust á herðar ábyrgð á rekstri þess á grundvelli hlutafélagalaga. Ákvörðun um að birta ekki álitsgerð Ríkisendurskoðunar er í anda þeirra laga og þeirra vinnubragða sem viðhöfð eru í íslensku viðskiptalífi, auk þess sem stjórn Símans er sannfærð um að þannig sé framtíðarhagsmuna félagsins best gætt.
Reykjavík 4. nóvember 2002
Stjórn Landssíma Íslands hf.