Á blaðamannafundi í morgun kynnti Sturla niðurstöður nefndar um öflun viðbótarfjár til reiðvega. Skjöldur Stefánsson í Búðardal var formaður nefndarinnar. Tillögur hennar fara hér á eftir.
1. Hálft prósent af áætluðum gjaldeyristekjum Íslendinga af hestatengdri ferðaþjónustu fari til reiðvega.
Framlag þetta, sem áætlað er u.þ.b. 38 milljónir króna á ári, yrði til viðbótar fjárveitingu af vegafé og greiddist sem sérstakt framlag á fjárlögum. Með þessum hætti telur nefndin fjármögnunina tengjast eðlilega við þá starfsemi sem mest not hefur af þessum framkvæmdum, sem eru notendur og seljendur hestaferða auk hestamanna almennt.
Framlög til reiðvega árin 1999-2002 voru 136,9 m.kr., árin 2003–2006 er gert í samgönguáætlun gert ráð fyrir 183 m.kr. og fyrir árin 2007-2010 er gert ráð fyrir 200 m.kr. Loks er gert ráð fyrir 220 m.kr. framlögum fyrir tímabilið 2011-2014. Þannig er gert ráð fyrir því að meðalframlög á ári vaxi úr að meðaltali 34,2 m.kr. í 55 m.kr.
2. Lagður verði skattur á reiðhesta.
Skoðuð verði sérstaklega skattlagning á eigendur reiðhesta. Þessi tekjuöflun verður ekki raunhæf fyrr en að fjórum árum liðnum. Gjaldtakan væri þá t.d. þannig að eigendur hesta, sem væru fjögurra vetra og eldri greiddu ákveðið gjald árlega sem færi til viðhalds og uppbyggingar reiðvega. Með þessu móti væri komið í veg fyrir að lagt væri gjald á hross sem einungis væru ætluð til ræktunar, slátrunar, væru í uppvexti og/eða til útflutnings auk þess sem skapaðist markaður tekjustofn til reiðvegagerðar.
Nefndina skipuðu:
Skjöldur Stefánsson, formaður
Helga Jónsdóttir, fjármálaráðuneyti
Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, Vegagerðinni
Sigríður Sigþórsdóttir, Landssambandi hestamannafélaga
Valgarður Hilmarsson, Sambandi sveitarfélaga
Ritari nefndarinnar var Rúnar Guðjónsson, samönguráðuneyti