Niðurstöður prófkjörsins liggja fyrir. Sturla sigraði, Einar Kristinn er í öðru sæti, Einar Oddur í því þriðja, Guðjón í fjórða og Vilhjálmur í fimmta. Sigurinn er sérlega sætur eftir harða prófkjörsbaráttu. Sturla hefur lýst yfir ánægju sinni í fjölmiðlum í morgun með niðurstöðurnar í prófkjörinu. M.a. er haft eftir honum á mbl.is: „Ég er mjög ánægður með að fá tækifæri til að stýra lista sjálfstæðismanna í þessu nýja stóra kjördæmdi. Ég er auðvitað þakklátur mínum stuðningsmönnum. Þessi niðurstaða liggur fyrir, ég er ótvíræður sigurvegari í þessa prófkjöri,“ sagði Sturla Böðvarsson.
Sturla varð efstur í prófkjörinu, hlaut 1.433 atkvæði í fyrsta sætið. Einar Kr. Guðfinnsson, varð í öðru sæti með 2.510 atkvæði í fyrsta og annað sætið. Einar Oddur Kristjánsson, hafnaði í þriðja sæti með 2.816 atkvæði í 1.-3. Guðjón er í fjórða sæti með 2.768 í 1.-4. og Vilhjálmur er í fimmta sætinu með 3.059 atkvæði í 1.-5. sæti.