Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lagði leið sína á Jörvagleði 2007 í Búðardal á sumardaginn fyrsta.  Ráðherran drakk kaffi hjá kvenfélagskonum, skoðaði ljósmynda- og listaverkasýningu í gamla sláturhúsinu og var við opnun Leifsbúðar. Hinu ný uppgerða glæsilega húsnæði er m.a. ætlað að hýsa sýningu á sögu landnáms Íslands en Eiríksstaðanefnd hefur unnið ötullega að því að kynna Dalasýslu og sögu sýslunnar frá landnámstíð. Að því tilefni flutti Friðjón Þórðarsson fyrrverandi ráðherra og þingmaður ræðu þar sem hann fór m.a. yfir sögu hússins. Ræðu Friðjóns má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Ræða Friðjóns Þórðarsonar 19.apríl

Kæru Dalamenn og góðir gestir!
Formaður Jörvagleðinefndar hefur óskað eftir því, að ég segði nokkur orð hér á Jörvagleði 2007 og gat ég ekki neitað þeirri beiðni. – Og þar sem sumardagurinn fyrsti, sem allir landsmenn fagna, er kominn á loft, óska ég ykkur öllum gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn.

Hér verður engin vígsluræða flutt, aðeins minst á nokkra þætti úr sögu Eiríksstaðanefndar, sem starfaði samfellt á vegum hreppsnefndar Dalabyggðar í 11 ár. Henni var falið á sínum tíma að minnast þúsund ára afmælis landafunda Leifs heppna í Vesturheimi, Vínlands hins góða, á veglegan hátt svo sem vera bar.
Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn í janúar 1996 úti í Mjólkurstöð í skjóli Sigurðar Rúnars, mjólkursamlagsstjóra, sem þá var oddviti Laxdæla að mig minnir. Ég hef verið formaður Eiríksstaðanefndar öll árin, en auk mín sátu í nefndinni frá upphafi Jóhann Sæmundsson og sr. Óskar Ingi. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir gott samstarf, svo og öllum öðrum, sem unnið hafa að þessu verkefni.

Nú hafa orðið nokkur þáttaskil, þó að vissulega sé drjúgum áfanga náð. Margt er enn ógert í Haukadal og skotið hefur verið á, að enn sé óunnið sem svarar um 35% af þeirri byggingu, sem við höfum kallað Leifsbúð, en í henni erum við nú stödd. Best væri að sjálfsögðu að geta haldið rakleitt áfram og lokið við að gera þetta gamla, góða hús svo vel úr garði, að unnt væri að hefja starfsemi í því öllu. En ,,margs þarf búið við“ mælti Sighvatur forðum – og að mörgu er að hyggja.

Í smáriti um Búðardal, Sögusvið Dalanna, siglingar og landafundi, er rætt um sýningar og móttöku ferðamanna í gamla Kaupfélagshúsinu í Búðardal. Rit þetta er unnið fyrir Eiríksstaðanefnd Dalabyggðar í apríl 1999.
Þar er m.a. tekið svo til orða:

,,Í Búðardal verður opnuð sýning í gamla Kaupfélagshúsinu. Kaupfélag Hvammsfjarðar var stofnað árið 1900 og rak verslun sína í húsinu í hálfa öld. Gamla húsið mun eiga aldarafmæli á þessu ári, eins og segir í dagskrá Jörvagleðinefndar. – Nýlega var tekin ákvörðun um að nota húsið til kynningar á Dalabyggð, sögu héraðsins og landafundum og siglingum og taka vel á móti ferðamönnum, a.m.k. geta boðið þeim upp ákaffi og kleinur og annað staðgott meðlæti.“

Um staðsetninguna segir m.a.:

,,Gamla kaupfélagshúsið er staðsett nánast í fjöruborðinu á Búðardal, þar sem byggðin hófst, þar sem Höskuldur reisti búð sína, þar sem tanginn var og síðar bryggjan. Uppskipunarbrautin var beint niður af húsinu. Elsta hús bæjarins, Thomsenshúsið, er næsta hús fyrir austan. Aðkoman er frá þjóðveginum framhjá stofnunum bæjarins, niður brekkuna, þar sem útsýnið opnast yfir fjörðinn. Á þessum stað vaknar sjálfkrafa hugsunin um siglingar og ný ævintýri.“

Á þessum bjarta og svala vormorgni sumardagsins fyrsta fara margar minningar um hugann. Svo sem kunnugt er á Dalasýsla ein allra héraða þessa lands nær óslitna skráða sögu frá landnámstíð. Innan fárra ára á sýslan 6 alda afmæli með sömu landamærum og henni voru sett í öndverðu að öðru leyti en því, að Skógarströnd bættist við fyrir nokkrum árum. – Ungur sagnfræðingur, Sverrir Jakobsson, vinnur nú að riti um Breiðafjörð, m.a. styrktur af Breiðafjarðarnefnd. Hef ég beðið hann að kanna nánar, hvenær kemur að 6 alda afmæli Dalasýslu, – en hún er eitt af allra elstu sýslufélögum landsins.

Það er margs að minnast, þegar skyggnst er um af heimahlaði. Handan Hvammsfjarðar blasir við vagga Sturlunganna, en svo leyfi ég mér að kalla allt svæðið frá Hvammi að Staðarfelli, um 20 km. vegalengd, þar sem Sturlungar voru stórir og fyrirferðamiklir og þurftu því rúmgóða vöggu, – eins og hinn merki fræðimaður og Íslandsvinur Kålund benti rækilega á í ritum sínum. (Þórður Egilsson á Staðarfelli og sonur hans, Sturla Þórðarson í Hvammi.)
Við búum í góðu og gjöfulu héraði, þó að ýmsar öldur hafi á okkur skolli á liðnum árum. – ,,Seiglan er okkar besti bjargvættur“ sagði Jón forseti. – Ég nefni hér að gamni mínu í lokin gamla skorsteininn á húsinu, sem margir töldu að væri að molna niður, en reyndist grjótharður og erfiður viðureignar. Var því látinn standa, eftir smá andlitsuppliftingu og prýðir nú þak hússins sem aldrei fyrr.

Þó að hér sé allmargt óunnið af því starfi, sem áfanga, við þessa byggingu, sem Eiríksstaðanefnd einsetti sér í upphafi að ná, er verkið það langt komið, að viðunandi má kalla miðað við aðstæður allar. – Ég þakka öllum, sem lagt hafa okkur lið í þessu máli, m.a. Karli Ómari, verksjóra, og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sem lét myndarlegt fjárframlag okkur í té af opinberu fé á fjárlögum, sem gerði kleift að ráðast í þann þátt þessa verks, sem nú sér fyrir endann á, í bil a.m.k. Ennfremur þakka ég þeim listamönnum sem nú skreyta veggi þessa húss með myndverkum sínum.

Ég fagna því, að sýslubúum hefur nú tekist á ná höndum saman í einu og sama sýslufélagi, eins og áður var, og árna þeim allra heilla á komandi árum.
Lifið heil.