Anna Kristín Gunnarsdóttir þingmaður og frambjóðandi samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi skrifar í Húnahornið og á Bæjarins besta í dag 7. mars. Það er rétt hjá Önnu Kristínu sem sem nú skipar 3. sæti samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi að undirritaður hefur haldið opna fundi um fjarskipta- og samgöngumál og m.a. á Blönduósi. Hér um bil allt annað sem fram kemur í greininni er bókstaflega rangt.
Sem betur fer eru fjarskipta- og samgöngumál ekkert einkamál samgönguráðherra heldur er mikilvægt að gefa íbúum landsins færi á að fylgjast með því sem nýjast er í fjarskipta- og samgöngumálum. Því er nú þannig farið að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið sig út fyrir ábyrga stefnu í samgöngumálum og það er einmitt þess vegna sem mikilvægt er að gera fólki grein fyrir því að samgönguáætlun er sett fram í þessari mynd einmitt vegna þess að staða ríkissjóðs gefur tilefni til þess að hægt sé að leggja fram samgönguáætlun sem markar tímamót.
Það er augljóst af máli þingmannsins að hún hefur hvorki kynnt sér samgönguáætlun né hlustað af athygli á fundinum þegar hún heldur því fram að rekstur flugvalla komi ráðherra samgöngumála ekki lengur við. Í samgönguáætlun er sérstakur liður þar sem fram koma framlög ríkisins til Flugstoða ohf. sem sinna rekstri flugvallanna í landinu. Samgönguáætlun er á ábyrgð ráðherra samgöngumála og þar undir fellur rekstur ríkisins á höfnum landsins, flugvöllum og vegum. Að halda öðru fram lýsir eingöngu vanþekkingu viðkomandi á málaflokknum.
Enn heldur þingmaðurinn áfram og gerir nú ekki lengur lítið úr samgönguráðherra heldur eru Húnvetningar næstir. Anna Kristín heldur því fram að flestir íbúar Húnaþings auk meirihluta íbúa Norðvesturkjördæmis teljist til tekjulægsta hóps Íslendinga og útilokar að nokkur þeirra sé meðal þeirra tekjuhæstu. Eins og fram kom í skýrslu Byggðastofnunar er ástandi í kjördæminu vissulega ekki með því besta á landsvísu en lykilatriði er að hagvöxtur á svæðinu stendur í stað að jafnaði sem þýðir að þrátt fyrir mikla fólksfækkun þá er það einmitt þannig að þeir sem nú búa á svæðinu framleiða meira á mann en þeir gerðu áður. Íbúar kjördæmisins eiga nefnilega hrós skilið fyrir frammistöðu sína þrátt fyrir þá dapurlegu þróun að margir hafa flust úr kjördæminu.
Anna Kristín heldur vitleysunni áfram þegar hún fullyrðir að lækkun á virðisaukaskatti komi Húnvetningum og íbúum Norðvesturkjördæmisins hreint ekki til góða! Auðvitað koma skattalækkanir öllum til góða hvar á landinu sem þeir kunna að búa eða hvað sem þeir kunna að hafa í laun. Þingmaðurinn hefði kannski átt að fylgjast betur með þegar að ég í upphafi máls míns á fundinum fór yfir skattalækkanirnar sem eru ein megin ástæðan fyrir því að staðan er svo öflug að við getum farið í þær mikilvægu framkvæmdir sem á áætlun eru.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra