Fréttablaðið færir landsmönnum þá frétt fimmtudaginn 9. okt. s.l. í fjögurra dálka fyrirsögn að lögfræðingur Vélstjórafélagsins saki samgönguráðherra um valdníðslu. Er í fréttinni vitnað til greinar sem lögfræðingurinn skrifar væntanlega með velþóknun formanns félagsins.

Það er erfitt að rökræða við menn sem snúa málum á haus eins og Friðrik Á. Hermannsson lögfræðingur Vélstjórafélagsins gerir í umræddri grein á heimasíðu félagsins. Það er að vísu mjög í takt við það sem yfirmaður hans tíðkar og því ekki við góðu að búast. Þessi grein lögmannsins ber rökfræði hans ekki gott vitni og gæti tæplega skapað honum góða umsögn ef hún væri lögð fram sem prófverkefni í lagadeild háskóla. Greinin er með ólíkindum. Hann segir hana fram komna vegna orðaskipta undirritaðs og Helga Laxdal, formanns VSFÍ. Hann er sem sagt að ganga í milli og hvetja til sátta! Í þessari dæmalausu grein sakar lögfræðingurinn undirritaðan um að hafa í hótunum við alla vélstjórnarmenntaða menn á Íslandi, og að verði formanni VSFÍ ekki vikið úr formannsstóli muni íslenskir vélstjórar hafa verra af. Minna mátti ekki gagn gera! Þetta er auðvitað fráleitt og á ekki við rök að styðjast. Enda ekki miklir möguleikar á því að utanaðkomandi menn geti hróflað við formanni VÍ þegar einn listi er í framboði til stjórnarkjörs. Skora ég á þá sem þetta lesa að lesa grein mína frá 19. september hér á heimsíðu minni sem ber heitið „Sannleikanum verður hver sárreiðastur“ sem við uppfærslu heimasíðunnar féll út fyrir mistök, en er nú komin aftur inn og þakka ég lögfræðingnum fyrir að benda mér á að greinin var ekki aðgengileg á Netinu. Hann hefur jafnframt gert mér þann greiða að koma efni hennar í Fréttablaðið sem virðist eiga hauka í horni hjá Vélstjórafélaginu.

Lögfræðingnum þykir einnig undarlegt að ég hvatti vélstjóra til að velja sína hæfustu menn til setu með Helga í stjórn VSFÍ. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að félagasamtök eiga ávallt að leitast við að velja sína hæfustu menn til að tala sínu máli, þá er sérstaklega mikilvægt að vélstjórar geri það nú ef formaðurinn hagar málflutningi sínum á jafn ómálefnalegan hátt og hann hefur gert að undanförnu. Sem betur fer er ekki loku fyrir því skotið að formaðurinn taki upp ný og betri vinnubrögð, eins og ég segi í grein minni frá 19. september en þar segir „Á næstu mánuðum mun koma í ljós hvaða stefnu hann tekur í samstarfi á sviði siglingamála.“ Beini ég því til formanns Vélstjórafélagsins að taka upp vandaðri og málefnalegri vinnubrögð.

Annað í grein lögmannsins sem ég verð að gera athugasendir við er sú fullyrðing hans um að með setningu nýrrar reglugerðar um skráningu á afli aðalvéla skipa muni reglugerðin, eins og hann segir „leiða af sér minnkandi öryggiskröfur á íslenskum fiskiskipum.“ Þessi umræða hefur verið tekin og færustu sérfræðingar eru sammála um að nefnd reglugerð hefur engin áhrif á öryggismál sjómanna, enda yrði ég síðastur manna til að samþykkja slíka aðgerð ef það væri raunin. Í síðari hluta setningarinnar kemur lögmaðurinn síðan fram með hið raunverulega hagsmunamál vélstjóra sem Helgi Laxdal formaður þeirra sagði á sínum tíma að væri ekki ástæða framgöngu hans, þar sem lögmaðurinn setur út á reglugerðin hafi í för með sér, eins og segir í greininni „fækkun vélstjóra og launalækkun þeirra sem eftir eru„. Þarna liggur hundurinn auðvitað grafinn. Hvernig getur maðurinn fullyrt annað eins? Fyrir því hefur hann engin rök og í raun ósæmilegt að væna ráðherra og sérfræðinga ráðuneytis og Siglingastofnunar að ganga erinda útvegsmanna til þess að skerða kjör vélstjóra. Samgönguráðuneytið blandar sér auðvitað ekki í kjarabaráttu vélstjóra. Mun ég ekki taka því þegjandi að ég sé vændur um að vinna gegn hagsmunum vélstjóra. Allt slíkt tal hvort sem það er frá lögmanni Vélstjórafélagsins eða formanni þess, er órökstutt og stenst ekki. Er slíku tali vísað út í hafsauga. Vélstjórar reka sína kjarabaráttu gagnvart vinnuveitendum sínum eins og aðrar stéttir gera og hefur ráðuneyti samgöngumála enga aðkomu í þeim málum.

Lögmanninum verður á í messunni þegar hann dregur þá ályktun að í grein minni hafi falist hótun um að mál sem tengjast vélstjórum fái annars konar afgreiðslu hjá ráðherranum en mál sem tengjast öðrum starfsstéttum. Ásakanir af þessu tagi eru fátíðar. Er vandséð hvað manninum gengur til í rökþrota leit sinni að stóryrðum til að þóknast vinnuveitanda sínum Það eina sem ég fer fram á er að geta tekið á málum sem snerta Vélstjórafélagið á sömu forsendum og ég tek á málum annarra hópa. Það er með málefnalegum og sanngjörnum hætti. Framganga formanns Vélstjórafélagsins eins og hún hefur verið gagnvart ráðuneytinu og siglingastjóra hefur því miður verið með þeim hætti að ekki er hægt kalla hana málefnalega. Eins og ég sagði í grein minni 19. september „mun á næstu mánuðum koma í ljós hvaða stefnu hann (Helgi Laxdal) tekur í samstarfi á sviði siglingamála“ og vona ég að sú stefna verði málefnaleg. Komi sú staða upp að aðilar séu ósammála um einhver atriði þá verða þeir að geta tekist á með rökum en ekki stóryrðum og tilhæfulausum staðhæfingum.

Ég geri orð lögmannsins að mínum og viðurkenni að ég er fyrir löngu orðinn fullsaddur af framgöngu formanns Vélstjórafélagsins, en eins og ég hef sagt áður, lengi má manninn reyna og ég vona að formaðurinn og lögfræðingurinn komi í framtíðinni fram fyrir hönd þessarar ágætu stéttar með málefnalegri hætti en raunin hefur verið á síðustu misserum.

St.B