I.
Allir sanngjarnir menn viðurkenna að verkefni Alþingis og ríkisstjórnar er risavaxið eftir bankahrunið.  En í því verkefni gildir eins og í öllum verkum að „veldur hver á heldur.“ Frá því ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) tók við  hef ég fylgst með framvindu stjórnmálanna úr fjarlægð. Framganga forystumanna stjórnarinnar veldur mér furðu og miklum vonbrigðum. Af mörgu er að taka.  Það sem ég tel vera hættulegast við vinnubrögðin er hversu augljóst  hatrið er  og sá hefndarhugur sem virðist ráða för og þá einkum hjá fjármálaráðherranum og þeim sem næst honum standa. Það er nánast reynt að  „tryggja“ ágreining um öll mál. Slík framganga kann ekki góðri lukku að stýra. Sérstaklega eins og aðstæðurnar  eru í stjórnmálunum á Íslandi um þessar mundir. Það er hinsvegar  ekki beint hægt að segja að vinnubrögðin komi á óvart.
Kynni mín af pólitísku verklagi núverandi fjármálaráðherra eru af vettvangi þingsins. Framganga hans þar, er og hefur verið, mörkuð af takmarkalausum yfirgangi. Þar sem engin leið er að semja  nema á forsendum sem hann setur sjálfur og æði oft sem úrslitakosti. Ég sé fyrir mér stjórnarmyndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem öll völd voru færð  í hendur VG gegn því að þeir samþykktu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Og VG hefur fórnað öllum sínum kosningaloforðum fyrir völdin.
Það er ógnvænleg mynd sem blasir við og Samfylkingin lætur draga sig út í ófærurnar, hverja af annarri. 
II.
Eftir alþingiskosningarnar 2007 sótti forysta VG það mjög fast að ganga til samstarfs í ríkisstjórn með okkur sjálfstæðismönnum. Þær voru ekki skrifaðar þá, þær hatursfullu ræður sem síðar voru fluttar í þinginu um sjálfstæðismenn. Þær ræður má lesa í Þingtíðindum. Þær eru hinsvegar ekki uppbyggilegt lestrarefni. Það blasti við öllum sem voru á Alþingi vorið 2007 eftir að stjórnin var mynduð, að formaður VG réði sér ekki af heift og reiði í garð sjálfstæðismanna þegar forysta Sjálfstæðisflokksins valdi að ganga til samstarfs við Samfylkinguna. Hann áttaði sig auðvitað á því að staða okkar Íslendinga var þá  sterk á flesta mælikvarða, mikil uppbygging hafði átt sér stað á öllum sviðum eins og hann viðurkennir í áramótagrein í Mogganum . Þar vekur hann athygli á því að við séum  ein af ríkustu þjóðum heimsins þrátt fyrir hrun bankanna. Steingrímur Jóhann vildi komast til valda með okkur sjálfstæðismönnum vorið 2007 og virðist ekki hafa komist yfir það að svo varð ekki. Þess vegna þarf að skoða framgöngu hans gagnvart sjálfstæðismönnum í því ljósi. 
Rétt er að geta þess að ég var einn þeirra sem taldi að við ættum af tvennu illu að velja samstarf við VG og láta á það reyna hvort þeir væru samstarfshæfir. En það fór sem fór og Samfylkingin brást illa þegar á hólminn kom..
III.
Málefnalegur ágreiningur er eðlilegur  hluti af stjórnmálastarfinu sem á að leiða okkur til hinnar bestu niðurstöðu í lýðræðislegu samfélagi. En hver er tilgangurinn með því að fjármálaráðherra velji að stunda stöðugar og ómálefnalegar  árásir á Sjálfstæðisflokkinn við hvert einasta tækifæri. Allt bendir til þess að heiftin blindi honum sýn en hann telji sig geta með þessum „ofbeldisfulla“ málflutningi hrakið Sjálfstæðismenn í varanlega pólitíska útlegð.  Og þannig skapað sér og sínum skjól með því að ganga fram með ótrúlegum  hætti svo sem  við skattalagabreytingarnar. Steingrímur Jóhann virðist vera tilbúinn til þess að fórna árangri um hin stærstu mál þjóðarinnar frekar en að leita samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. 
Alvarlegustu dæmin eru aðförin að sjávarútveginum með fyrningarleiðinni,  fórnin sem fylgir hugsanlegri inngöngu í Evrópusambandið. Og síðast en ekki síst samningarnir um Icesave-kröfur Breta og Hollendinga. Þar velur hann þá leið að kalla til pólitískan trúnaðarvin sinn til að leiða samningana og átti hann að landa þeim með „glæsilegum hætti“. En allt fór það á annan veg. Það var illa gert að fórna þeim ágæta manni Svavari Gestssyni í það vonda verk að semja við Breta og Hollendinga á þeim forsendum sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra virðist hafa mótað með ráðherranum.  Hefði nú ekki verið farsælla að kalla til fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna með embættismönnum til þess að ganga til samninga um þetta ólánsmál í sátt milli flokkanna á þingi? Leið samstöðu útá við  var valin þegar Íslendingar  áttu í Þorskastríði við Breta á sínum tíma. Menn áttuðu sig amk á að skynsemi og samstaða var grundvöllur að lausn þeirrar erfiðu deilu.
Í stað þess að leita samstarfs og samstöðu er  hatrið látið ráða för með ótrúlegum og enn ófyrirséðum afleiðingum.  Og stöðugt hamrað á því að stjórn Sjálfstæðismanna  og Samfylkingarinnar hafi lagt grunn að Icesave-samningum fjármálaráðherra, þrátt fyrir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi í greinargerð til fjárlaganefndar Alþingis hrakið þá kenningu með fullgildum rökum.
IV.
Við þurfum á sátt að halda í þjóðfélaginu, íbúar þessa lands kalla eftir sátt og samvinnu.
Við megum svo sannarlega ekki við því að ala á frekari ófriði. Það verður að gera þá kröfur til stjórnmálamanna að þeir gæti hófs og leiti að leiðum fyrir þjóðina til að komast út úr brimgarði bankahrunsins. Við eigum ekki að gera lítið úr því að hér býr vel menntuð þjóð og hér hafa verið byggðir upp innviðir samfélagsins á öllum sviðum svo sem best getur verið. Það er rétt hjá Steingrími J. Sigfússyni að við erum ein af ríkustu þjóðum veraldarinnar eftir 18 ára stjórnarforystu Sjálfstæðisflokkins þrátt fyrir mikil áföll.
Endurreisnin varðar fyrst og fremst fjármálakerfið  og við getum unnið að því á grundvelli þess vel upp byggða samfélags sem við búum í. Það verður hinsvegar að tryggja „skjaldborgina“ um heimilin og atvinnufyrirtækin. Það versta sem gerist er að yfirvöld flæmi fólkið okkar burt með draugasögum um samfélagið okkar og með pólitískum stórárásum á einstaklinga eins og fjármálaráðherrann tíðkar við öll tækifæri. Rannsókn bankahrunsins er í höndum til þess bærra rannsóknaraðila og dómstóla. Stjórnmálamenn eiga ekki að koma að þeim málum með öðrum hætti en þeim er varðar lagabætur og að tryggja eðlilegar fjárveitingar til dómstóla og rannsóknaraðila og tryggja trausta stjórnsýslu.
Það verður að gera þá kröfu til forystumanna stjórnarflokkanna  að þeir laði fram sátt í þjóðfélaginu, fremur en að ala á ófriði og óvissu. Forseti Íslands virðist hafa áttað sig á þessari staðreynd, að endurreisn verði ekki náð nema með því að leita sátta. Því hefur hann gefið ríkisstjórninni mjög alvarlega áminningu.  Honum virðist nóg boðið og hann hlýtur því að leggja sitt að mörkum til  að kynna stöðu okkar á alþjóðavettvangi og kalla eftir  stuðningi þar sem hans er að vænta.
Ríkisstjórnin verður, að mínu mati, að setja saman nýja öfluga viðræðunefnd vegna Icesave-samninganna með fulltrúum allra flokka með erlendum ráðgjöfum og helst undir forustu þekkts leiðtoga. Það verður að tjalda því sem til er af okkar öflugustu mönnum. Hatri og hefndarhug verður að víkja til hliðar.
Þjóðarhagsmunir eru í veði.