Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar, Þengill Oddsson, gekk á fund ráðherra í dag og afhenti honum eftirfarandi bréf.
Sturla Böðvarsson
samgönguráðherra
Hafnarhúsið við Tryggvagötu
150 Reykjavík
Reykjavík, 7. febrúar 2002
Háttvirti samgönguráðherra.
Í niðurstöðu úttektarnefndar, sem þér skipuðuð vegna útgáfu flugskírteina og heilbrigðisvottorða Flugmálastjórnar Íslands, kemur m.a. fram “að aðkoma samgönguráðuneytisins að málinu hafi eingöngu falið í sér fyrirmæli um stjórnsýslulega meðferð á beiðni flugmannsins um útgáfu heilbrigðisvottorðs”. Af þessum sökum dreg ég tilbaka yfirlýsingar sem vitnað hefur verið til í fjölmiðlum í þá veru að þér sem samgönguráðherra hafið beitt pólitísku valdi yðar við útgáfu heilbrigðisvottorðs í málinu og með því hafi flugöryggi skerst. Vænti ég þess að þau ummæli verði ekki erfð við mig af yðar hálfu.
Ég sem áhugamaður um flugöryggi hér á landi harma þá miklu og óvægnu umfjöllun sem orðið hefur um mál þetta í fjölmiðlum. Ég lýsi því yfir að ég hverf aftur til starfa sem trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar sáttur og reiðubúinn að takast á hendur þau störf sem þar bíða úrlausnar. Ég vænti þess að við getum átt gott samstarf á sviði flugmála í framtíðinni og að atburðir síðustu vikna varpi ekki skugga þar á.
Virðingarfyllst,
______________________________
Þengill Oddsson (sign)