Staða atvinnumála á Bíldual var til umfjöllunar á fundi sem haldinn var með þingmönnum Norðvesturkjördæmis að frumkvæði bæjarstjórnar Vesturbyggðar, laugardaginn 4.október. Á fundinum voru einnig fulltrúar Fjórðungssambands Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarðar.

Eftir mjög gagnlegar umræður óskaði samgönguráðherra eftir að Atvinnuþróunarfélagið tæki saman upplýsingar um stöðu atvinnulífs og byggðar á Bíldudal og legði fram á fundi með þingmönnum sem haldinn var fjórum dögum seinna. Á þeim fundi tóku þingmenn Norðvesturkjördæmisins einnig atvinnumál á Bíldudal til umfjöllunar.

Nýtt og glæsilegt íþróttahús

Þann 4.október síðastliðinn voru tímamót á Bíldudal. Þann dag var nýtt íþróttahús tekið í notkun. Fjöldi fólks var viðstatt og ekki fór á milli mála að íbúar voru ánægðir með bætta íþróttaaðstöðu. Reynslan sýnir að bætt aðstaða til íþróttaiðkunar styrkir byggðir og bætir búsetuskilyrði. Því er ástæða til þess að óska íbúum Vesturbyggðar og þá sérstaklega íbúum á Bíldudal til hamingju með glæsilega íþróttaaðstöðu. Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur af mikilli ábyrgð staðið vörð um hagsmuni byggðarinnar. Með stórbættum samgöngum innan Vesturbyggðar eru skilyrði til búsetu aukin til muna.


Bætt vegakerfi

Með endurbyggðum vegi frá Bíldudalsflugvelli allt til Vatnsfjarðar eru samgöngur innan Vesturbyggðar og Tálknafjarðar komnar í mjög gott ástand. Í raun má tala um byltingu í vegamálum á svæðinu eftir að slitlag hefur verið lagt á alla þessa leið. Í gangi eru miklar vegaframkvæmdir við Vestfjarðarveg um Barðaströnd. Eftir að vegur um Barðaströnd hefur verið byggður upp sem heilsársvegur með bundnu slitlagi er eðlilegt að áhersla verði á að tengja suður- og norðurfirði saman með jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Það mun gera Vestfirði alla að einu viðskipta- og atvinnusvæði og opna nýjar víddir í ferðamálum á Íslandi.