Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, hefur forgöngu um að þingmenn kjördæmisins eigi fundi með fulltrúum sveitarfélaga í næstu viku. Þá stendur yfir á Alþingi svonefnd kjördæmavika.

Dagana í kjördæmaviku nota þingmenn til að fara út af örkinni og kynna sér málefni kjördæma sinna. Sturla Böðvarsson segir að sú hefð hafi skapast síðustu árin að þingmenn Norðvesturkjördæmis eigi fundi með fulltrúum allra sveitarfélaga í kjördæminu. Tilgangur þeirra er að heyra hvað efst er á baugi hjá sveitarfélögunum og ræða mál er varða samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Áætlun um fundina er sem hér segir:

Mánudagur 23. október í Varmahlíð í Skagafirði:
Fundur 11 með stjórn SSNV og kl. 13 með fulltrúum sveitarfélaga í Skagafirði.

Þriðjudagur 24. október í Borgarnesi:
Fundur kl. 15 í húsnæði verkalýðsfélaganna með fulltrúum sveitarfélaga á Vesturlandi.

Miðvikudagur 25. október á Ísafirði:
Fundur í Þróunarsetrinu kl. 11 með stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga og kl. 13.15 með fulltrúum sveitarfélaga á Vestfjörðum.